Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 272/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 2. mgr. 30. gr., 3. mgr. 63. gr., 1. mgr. 69. gr.  

Óvígð sambúð — Sambýlisfólk — Sköttun sambýlisfólks — Sambýliskona — Sambýlismaður — Sambúð — Einstæð móðir — Einstætt foreldri — Barnabætur — Frádráttarheimild — Frádráttarregla — Fastur frádráttur

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1981. Eru málsatvik þau að kærendur, sem eiga barn saman og bjuggu saman í óvígðri sambúð árið 1980, töldu fram til skatts og skiluðu skattstjóra fyrir álagningu gjalda sameiginlegu skattframtali árið 1981. Tóku kærendur fram í athugasemdadálki framtalsins, að þeir óskuðu eftir samsköttum ef það væri þeim hagstæðara. Við álagningu gjalda voru kærendur samsköttuð. Með bréfi til skattstjóra dags. 8. september 1981 óskuðu kærendur eftir því að vera sköttuð hvort í sínu lagi gjaldárið 1981. Tóku þeir fram að þau hefðu ekki gengið í hjúskap, en ættu barn saman og hefðu því átt rétt á samsköttun. Á skattframtalinu hefðu þau beðið um að skattstjóri veldi þá aðferð til álagningar sem væri þeim hagstæðari. Hins vegar hafi þau við álagningu verið samsköttuð. Við skoðun á álagningu virtist sérsköttun vera þeim hagstæðari og var því þess óskað að sambýliskona yrði sköttuð sem einstæð móðir og sambýlismaður sem einstaklingur. Loks tóku kærendur fram að vegna sumarleyfis hafi þeim ekki tekist að senda þessa beiðni fyrr. Skattstjóri tók umrædda beiðni sem skattkæru og með kæruúrskurði dags. 23. október 1981 vísaði hann kærunni frá á þeim forsendum að hún væri of seint fram komin. Kærufrestur hefði runnið út þann 29. ágúst 1981, sbr. auglýsingu dags. 31. júlí 1981, birta í Lögbirtingarblaði, útgefið sama dag.

Með kæru dags. 20. nóvember 1981 hafa kærendur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krefjast þeir þess að kæran verði tekin til efnismeðferðar og fallist verði á þær sömu kröfur og fram komu í kæru til skattstjóra. Gera þeir grein fyrir síðbúinni kæru til skattstjóra og ítreka rök sín fyrir sérsköttun.

Með bréfi dags. 15. febrúar 1981 krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Fallist er á að taka kæruna til efnismeðferðar. Ósk kærenda um samsköttun var háð því skilyrði að hún yrði þeim ekki óhagstæðari en sérsköttun. Við útreikning gjalda 1981 kemur í ljós að sérsköttun er þeim að nokkru hagstæðari og er því fallist á kröfur þeirra. í lokamálslið 1. mgr. 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er tekið fram að búi foreldrar barns saman í óvígðri sambúð skal hvorugt þeirra teljast einstætt foreldri við ákvörðun barnabóta. Eigi skiptir hér máli hvort um samsköttun sambýlisfólks er að ræða eða sérsköttun. Þá verður heldur eigi talið að sambýliskonan sé einstætt foreldri í skilningi lokamálsliðar 2. mgr. 30. gr. nefndra laga.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja