Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 277/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 59. gr.   Reglugerð nr. 119/1965, 6. gr.   Lög nr. 14/1965, 2, mgr. 2. gr.  

Launaskattur — Launaskattsstofn — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Reiknað endurgjald — Vinna við eigin atvinnurekstur — Lögskýring — Eigin atvinnurekstur

Skattstjóri ákvað kæranda launaskatt við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1981 að fjárhæð 610 600 kr. Launaskattur þessi var vegna eigin vinnu kæranda við atvinnurekstur og stofn ákveðinn 8 100 000 kr. í samræmi við viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra. Launaskattur vegna þessa þáttar nam því 283 500 kr. Þá var kæranda gert að greiða launaskatt vegna vinnu eiginkonu við atvinnureksturinn að fjárhæð 168 000 kr. Stofn var ákveðinn 4 800 000 kr., sem var fjárhæð tilfærðs reiknaðs endurgjalds, Ennfremur var kæranda gert að greiða viðurlög að fjárhæð 159 100 kr. vegna greiddra launa á 2. og 4. ársfjórðungi 1980.

Í kæru til skattstjóra krafðist kærandi þess, að launaskattur yrði endurreiknaður þar sem hann væri of hátt talinn eða um 230 000 kr. Þessu synjaði skattstjóri með úrskurði dags. 4. nóvember 1981.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 3. desember 1981. Þar segir svo:

„Skv. framtali umbj. míns hefur hann reiknað sér laun við eigin atvinnurekstur kr. 6 075 000 kr., en skattstjóri hefur áætlað honum laun að upphæð kr. 8 100 000 kr., eins og viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra segja til um aðila, sem stjórna fyrirtæki, sem greiða laun, sem samsvara árslaunum 4—9 starfsmanna.

Skv. framtali umbj. míns, þá nemur rekstrartap ársins 5 523 213 kr., eftir að reiknuð laun hans og eiginkonu hans hafa verið dregin frá. En þar sem engin ágreiningur er um laun eiginkonu, þá skulu þau tekin út úr hér og ekki koma til umræðu frekar.

Ef laun umbj. míns 6 075 000 kr., ásamt launaskatti 212 625 kr., samtals 6 287 625 kr., eru tekin út úr rekstrarreikningi ársins 1980, kemur í ljós að hagnaður, áður en þessi þáttur er reiknaður, nemur 764 412 kr., þess vegna tel ég að undanþáguákvæði í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra nr. 3 eigi við umbj. minn. En þar segir að sé tap af atvinnurekstri, áður en endurgjald er dregið frá, þá skal meta vinnuframlag hans í samræmi við reglur, sem skráðar eru nr. 1 og 2 í bréfi frá ríkisskattstjóra, dags. 25. maí 1981. Þar sem umbj. minn telur sig hafa fullnægt skyldum um framtal eigin launa af atvinnurekstri, skv. 59. gr. laga nr. 40/1978, þá óskast úrskurður yðar um réttmæti hækkunar skattstjóra á áður nefndum launum.“

Með bréfi dags. 14. apríl 1982 eru af hálfu ríkisskattstjóra gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda hafi eigi verið lögð fram í málinu nein gögn er staðfesta að vinnuframlag kæranda á árinu 1980 hafi numið minni tíma en sem svarar 40 tímum á viku og lögbundnu sumarfríi.

Þá getur ríkisskattstjóri eigi fallist á að töluliður 3, bls. 4 í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 27. maí 1981, eigi við kæranda þegar höfð er hliðsjón af veltu og launagreiðslu í starfsemi hans.“

Tilvitnaður töluliður í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra, dags. 27. maí 1981, til

ákvörðunar launaskattsstofns gjaldárið 1981 tekur til ákvörðunar launaskattsstofns þeirra manna sem auk eigin atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi hafa með höndum launað starf, en gera ekki fullnægjandi grein fyrir vinnuframlagi sínu við hina fyrrnefndu starfsemi. Eigi verður heldur talið að viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra, dags. 25. maí 1981, til ákvörðunar reiknaðs endurgjalds vegna vinnu við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi gjaldárið 1981 geti verið kröfum kæranda til stuðnings.

Við ákvörðun reiknaðs endurgjalds samkvæmt 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eiga við ákvæði 10. málsl. 1. mgr. nefndrar lagagreinar, þ. e. a. s. ákvörðun skattstjóra samkvæmt greininni má aldrei mynda tap sem er meira en nemur samanlögðum almennum fyrningum skv. 38. gr. og gjaldfærslu skv. 53. gr. laganna. Hliðstæð ákvæði gilda eigi um ákvörðun launaskatts og ákveðst hann án tillits til rekstrarafkomu gjaldanna af hlutaðeigandi starfsemi, sbr. lokamálslið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, og 6. gr. reglugerðar nr. 119/1965, um launaskatt. Að þessu athuguðu og með tilliti til þess að fjárhæð sú sem skattstjóri lagði til grundvallar við ákvörðun launaskattsstofns vegna eigin vinnu kæranda þykir eigi ofáætluð, þegar litið er til málsgagna, er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja