Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 223/1992
Gjaldár 1988
Lög nr. 75/1981 — 54. gr. — 100. gr.
Endurupptaka máls — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Endurupptökuheimild ríkisskattanefndar — Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Fjárfestingarsjóðsreikningur — Bundinn reikningur — Innlánsreikningur — Binditími — Innborgun á fjárfestingarsjóðsreikning — Fjárfestingarsjóðsreikningur, lögmæltir reikningsskilmálar — Fjárfestingarsjóðsreikningur, binditími innborgana — Fjárfestingarsjóðsreikningur, verðtrygging — Verðtryggður innlánsreikningur — Lánskjaravísitala
Með bréfi kæranda, dags. 18. júlí 1991, er farið fram á enduruppptöku á úrskurði ríkisskattanefndar nr. 917 frá 16. nóvember 1990 þar sem máli kæranda var vísað frá sökum vanreifunar. Varðar beiðnin endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1988, sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 16. janúar 1990, og kæruúrskurð, dags. 9. mars 1990, um að fella beri niður frádrátt 849.417 kr. vegna tillags í fjárfestingarsjóð í skattframtali kæranda 1988 þar sem skilyrði til frádráttarins, sbr. ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 8/1984, að 50% tillags sé lagt inn á sérstakan bundinn verðtryggðan bankareikning innan tilskilinna tímamarka hafi ekki verið uppfyllt. Hafi bankareikningur sá, sem kærandi lagði inn á (innlánsreikningur með ábót), ekki uppfyllt skilyrði um bindingu og verðtryggingu. Segir m.a. svo í beiðni kæranda:
„Fjárfestingatillag, það sem tiltekið er í ársreikningi félagsins, lá inn á verðtryggðum innlánsreikningi með lánskjaravísitölu óhreyft frá 18. febr. 1988 til áramóta 1988 og uppfyllir því öll önnur skilyrði en það að vera á sex mánaða bundnum reikningi, en er eins og áður segir óhreyft í rúma 10 mánuði.
Fjárfestingatillag hlýtur samkvæmt orðanna hljóðan og eðli sínu að vera ætlað til að auðvelda fyrirtækjum að fjárfesta í húsnæði, vélum og/eða tækjum. A hf. nýtti umrædda upphæð til fjárfestingar í húsnæði í X og var umrætt húsnæði keypt 2. ágúst 1988.
Stjórn félagsins telur því að ekki aðeins séu uppfyllt skilyrði þau að leggja til hliðar umrædda upphæð á verðtryggðan bankareikning í ákveðinn tíma heldur hafi félagið á óyggjandi hátt nýtt fjárfestingatillagið í að fjárfesta, eins og tilgangur er með slíku tillagi. Á þeim grunni er farið fram á niðurfellingu á breytingu opinberra gjalda félagsins fyrir árið 1988, ásamt öllum kostnaði sem þessi breyting hefur haft í för með sér.
Meðfylgjandi er ljósrit af yfirliti Ábótarreiknings félagsins fyrir árið 1988 og ljósrit af kaupsamningi fyrir húseign þá er fjárfest var í 1988, ásamt ljósriti af afsali.“
Með bréfi, dags. 18. september 1991, hefur ríkisskattstjóri fyrir sitt leyti fallist á að nefndur úrskurður verði endurupptekinn og gerir þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Fallist er á beiðni um endurupptöku úrskurðar nr. 917/1990. Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.