Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 279/1982
Gjaldár 1980
Lög nr. 75/1981, 92. gr., Reglugerð nr. 119/1965, 4. gr., 16. gr. Lög nr. 14/1965
Launaskattur — Launaskýrslur — Skýrslugjafarskylda — Upplýsingaskylda — Launaframtal — Málsmeðferð áfátt — Áætlun — Vörubifreiðaakstur — Ólögmætt þvingunarúrræði
Kærandi taldi ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1980. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Við þá álagningu var kæranda ákveðinn launaskattur að fjárhæð 297 500 kr. vegna vinnu við eigin atvinnurekstur. Skattframtal kæranda árið 1980, móttekið af skattstjóra þann 9. júlí 1980, var tekið sem kæra og með úrskurði dags. 28. október 1980 féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu í stað áætlunar áður með nokkrum breytingum. Skattstjóri gerði þá breytingu í úrskurði sínum á álagningu launaskatts, að stofn til álagningar hans var áætlaður 20 000 000 kr. vegna aðkeypts aksturs, þar sem slíkur akstur hefði ekki verið gefinn upp á launamiðum. Þá var stofn til atvinnuleysistryggingagjalds hækkaður af sömu ástæðum um 100 vikur, er skyldi svara til fyrrnefndrar áætlunar. í rekstrarreikningi fyrir árið 1979 var gjaldfærður aðkeyptur akstur 16 185 061 kr. Byggði skattstjóri á því, að aðkeyptur akstur hefði ekki verið gefinn upp á launamiðum. Ákvarðaði skattstjóri kæranda launaskatt að fjárhæð 638 750 kr. í stað 297 500 kr. áður eða hækkun um 341 250 kr. Eigi var þess getið hvernig þessi hækkun væri fengin, en samkvæmt gögnum sem fyrir liggja í málinu var launaskattur vegna eigin vinnu hækkaður úr 297 500 kr. í 420 000 kr. í samræmi við tilfært reiknað endurgjald kæranda í innsendu skattframtali að fjárhæð 12 000 000 kr. Þá var
kæranda eftir því sem gögn málsins bera með sér reiknaður launaskattur 0,875% af hinni áætluð fjárhæð 20 000 000 kr. eða 175 000 kr. að viðbættum 25% viðurlögum 43 750 kr. Álagning þessi sýnist hafa verið vegna hlutfalls launa í endurgjaldi vörubifreiðastjóra, sbr. ákvæði í 4. gr. reglugerðar nr. 119/1965, um launaskatt.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 27. nóvember 1980 og áætlun skattstjóra á stofnum til launaskatts- og atvinnuleysistryggingagjalds vegna aðkeypts aksturs mótmælt. Kærunni fylgdu launamiðar vegna aðkeypts aksturs ásamt ljósriti af skilum á launaskatti 1979.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 16. mars 1982: „í gögnum málsins eru ekki sjáanlegir allir þeir launamiðar sem boðaðir voru í kæru. Krafa kæranda þykir þannig eigi studd nægjanlegum gögnum og er því gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.“
Kærandi hafði skilað skattstjóra sérstöku launaframtali, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 119/ 1965, um launaskatt, þar sem gerð var grein fyrir launaskattsskyldum fjárhæðum og skilum launaskatts. Byggt var á þessu gagni. Eigi verður séð, að skattstjóri hefði gefið kæranda færi á því að gæta hagsmuna sinna og koma að athugasemdum sínum og skýringum áður en launaskattsálagningu var breytt og áætlaðir stofnar til viðbótarlaunaskatts. Þá verður eigi fallist á forsendur skattstjóra, enda önnur úrræði í lögum sem ætlað er að tryggja skil launaskýrslna. Af þessum sökum þykir bera að ómerkja hina kærðu breytingu. Þegar af þeirri ástæðu er fallist á kröfu kæranda.