Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 298/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 3. mgr. 63. gr.  

Óvígð sambúð — Sambýlisfólk — Lögheimili — Sönnun — Hagstofa Íslands — Þjóðskrá — Sönnunargögn — Sameiginlegt lögheimili

Kærendur skiluðu skattstjóra sameiginlegu skattframtali árið 1981 og óskuðu skattlagningar eftir þeim reglum sem gilda um hjón, sbr. heimild í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. í bréfi dags, 14. febrúar 1981 er fylgdi skattframtalinu gátu kærendur þess að þau hefðu verið trúlofuð síðan í júlí 1977 og búið saman frá því í maí 1978. Skattstjóri hafnaði þessum tilmælum með bréfi dags. 3. apríl 1981. Með bréfi dags. 15. júlí 1981 sendi kærandi skattstjóra ljósrit af tilkynningu um aðsetursskipti, dags. 13. apríl 1981, um breytingu á aðsetri kæranda frá A-byggð Akureyri, að B-stræti 42, þar í bæ. í gagni þessu er tekið fram um óvígða sambúð kærenda. í kæru til skattstjóra, dags. 25. ágúst 1981, gátu kærendur þess, að sambúðin hefði varað frá árinu 1976 og að öðru leyti frekari grein gerð fyrir ástæðum. Ef þörf þætti á því væri unnt að útvega vættisburð frásögn kærenda til staðfestingar.

Með úrskurði dags. 13. nóvember 1981 hafnaði skattstjóri tilmælum kærenda. Kemur m. a. fram í úrskurði skattstjóra, að ekki sé tekin afstaða til þess „hvort um sambúð hafi raunverulega verið að ræða hjá kæranda og sambýliskonu“, eins og það er orðað. Hins vegar ráðist úrslit málsins af því, að í opinberum gögnum, þjóðskrá, sem skattyfirvöld hljóti fyrst og fremst að leita til um staðfestingu á sameiginlegu lögheimili sambúðaraðila, komi slíkt ekki fram varðandi kærendur. Af orðalagi nefndrar málsgreinar 63. gr. laga nr. 75/1981 virðist ótvírætt að sameiginlegt lögheimili sé frumskilyrði fyrir samskattlagningu sambúðarfólks og gangi fyrir öðrum skilyrðum, þ. e. a, s. tveggja ára sambúðartíma, þungun sambýliskonu eða sambýlisaðilar eigi börn saman. Taldi skattstjóri nefnda aðseturstilkynningu ekki fá neinu breytt í málinu.

Af hálfu kærenda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 10. desember 1981, og ítreka kærendur kröfur sínar með vísan til fram kominna skýringa og gagna.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 15. febrúar 1982:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Kærandi fer fram á að njóta heimildar 5. mgr. 3. tl. (sic) 63. gr. ásamt sambýliskonu sinni.

Skv. gögnum málsins hafa kærandi og sambýliskona hans átt sameiginlegt lögheimili að B-stræti 42, Akureyri, sbr. staðfestingu Hagstofu Íslands, dags. 2. júlí 1981.

Í kæru sinni til skattstjóra, dags. 25. ágúst 1981, heldur kærandi því fram að raunveruleg sambúð hafi verið allt frá árinu 1976.

Fullyrðingu kæranda varðandi framangreint fylgja engin frekari gögn og meðan svo er getur ríkisskattstjóri eigi fallist á að kærandi fullnægi skilyrðum áður tilvitnaðs lagaákvæðis.“

Skattstjóri bar eigi brigður á frásögn kærenda um sambúð og aðstæður, en taldi að byggja bæri á skráningu Hagstofu Íslands varðandi logheimili kærenda undanfarin ár. Eigi verður annað séð en ríkisskattstjóri telji skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 um sameiginlegt lögheimili uppfyllt en sambúðartími sé ósannaður. Um málavexti liggur þó fyrir skilmerkileg frásögn kærenda og kærendur boðist til þess að útvega vættisburð, ef þess væri óskað. Vandséð er, hvaða rök geti legið til þess að vefengja frásagnir um aðstæður og atvik sem þessi og hvaða sönnunargögn utan þegar framboðins vættisburðar geti komið hér til álita, Gögn þessa máls gefa eigi tilefni til að vefengja frásagnir kærenda og fyrir liggur að lögheimili þeirra er sameiginlegt. Eru kröfur kærenda teknar til greina, enda þykir hafa legið ljóst fyrir að kærendur uppfylla skilyrði 3. mgr. 63. gr. nefndra laga.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja