Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 303/1982

Gjaldár 1981

Reglugerð nr. 245/1963, 2. mgr. 93. gr.   Lög nr. 75/1981, 2. tl. A-liður 7. gr., 92. gr.  

Einstætt foreldri — Sönnun — Sönnunargögn — Bótamiði — Tryggingastofnun ríkisins — Meðlag — Mæðralaun — Kærufrestur — Leiðréttingarskylda skattstjóra — Skattskyldar tekjur

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldáríð 1981.

Málavextir eru þeir, að kærandi fór fram á það við skattstjóra í bréfi, ódags. en mótteknu af skattstjóra þann 15. október 1981, að álagning opinberra gjalda gjaldárið 1981 yrði leiðrétt og henni hagað eftir þeim reglum sem giltu um einstætt foreldri. Byggt hefði verið á því, að kærandi væri í óvígðri sambúð. Þeirri sambúð hefði lokið þann 24. október 1979 og frá þeim tíma hefði kærandi verið einstætt foreldri. Með úrskurði dags. 16, nóvember 1981 vísaði skattstjóri kærunni frá, þar sem hún væri of seint fram komin. Kærufrestur hefði runnið út þann 29. ágúst 1981.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 24. nóvember 1981. Um sé að ræða leiðréttingu á föstum frádrætti í 1 395 625 kr. í stað 797 500 kr. sem skattstjóri ákvað. Þessi skekkja í álagningu hafi ekki komið í ljós fyrr en kærufrestur var liðinn.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 28. apríl 1982 að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur, þar sem kæran hafi sannanlega verið of seint fram komin og ekki þykja fyrir hendi afsakanlegar ástæður er réttlæti að kæran verði tekin til efnisúrlausnar.

Kærandi staðhæfði í bréfi sínu til skattstjóra, að álagningin væri röng, þar sem ekki hefði verið tekið tillit til stöðu kæranda sem einstæðs foreldris allt árið 1980. Þessi staðhæfing studdist við fyrirliggjandi gögn, en í lífeyrisuppgjöf Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram, að kærandi hafði fengið meðlag og mæðralaun á árinu 1980 fyrir heilt ár. Verður því að telja, að heimildir þær sem skattstjóri fór eftir við álagningu hafi verið rangar og honum hafi borið að leiðrétta það af sjálfsdáðum eða við kæru, þótt hún kæmi eigi fram fyrr en að liðnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Krafa kæranda er tekin til greina og opinber gjöld ákvörðuð eftir þeim reglum sem um einstætt foreldri gilda. Fastur frádráttur verður 1 395 625 kr. í stað 797 500 kr. Barnabætur ákvarðast 500 250 kr. í stað 155 900 kr. Lækkun útsvars vegna fjölskyldu verður 60 900 kr. í stað 55 825 kr. Þá leiðréttingu þykir bera að gera, að mæðralaun að fjárhæð 96 785 kr. eru færð kæranda til tekna.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja