Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 311/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 48/1975, 1. gr. Lög nr. 68/1967, 5. gr. Lög nr. 73/1980, 1. mgr. 37. gr. Lög nr. 75/1981, 1. tl. 1. mgr. 31. gr.
Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Rekstrarkostnaður — Launaskattur — Iðnlánasjóðsgjald — Iðnaðarmálagjald — Verktakastarfsemi — Iðnaður — Húsaviðgerðir
Kærð er álagning aðstöðugjalds og iðnlánasjóðsgjalds gjaldárið 1981.
1. Skattstjóri hækkaði gjaldstofn til álagningar aðstöðugjalds um 1 399 421 kr., er nam gjaldfærðum launaskatti í rekstrarreikningi fyrir árið 1980. Kærandi mótmælti þessari álagningu með þeim rökum, að launaskattur teldist ekki til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og myndaði því ekki gjaldstofn til aðstöðugjalds. Skattstjóri hafnaði þessum sjónarmiðum í úrskurði sínum, dags. 20. nóvember 1981, á þeim forsendum að gjaldfærsla launaskatts í rekstrarreikningi væri gerð á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.
2. Skattstjóri lagði iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald á starfsemi kæranda sem var fólgin í lagningu þakklæðningar, viðgerðum og endurbótum á þökum. Af hálfu kæranda er því haldið fram, að hér sé um verktakastarfsemi að ræða og geti ekki talist til iðnaðar.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 28. apríl 1982:
„Varðandi aðstöðugjald vísast til forsendna í úrskurði skattstjóra. Um ákvörðun á stofni til iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds skal tekið fram eftirfarandi:
Verktaka sú er starfsemi kæranda tekur til fellur undir byggingariðnað skv. venjubundinni skilgreiningu. Verður því eigi séð að forsenda sé til að fella starfsemi undan stofni til iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds.“
Um 1. tl. Launaskattur telst til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 1. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra að því er þetta kæruatriði varðar.
Um 2. tl. Ákvæði 5. gr. laga nr. 68/1967, um iðnlánasjóð, og 1. gr. laga nr. 48/1975, um iðnaðarmálagjald, um gjaldskyldu iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds þykja taka til starfsemi kæranda svo sem henni er lýst í gögnum málsins. Er því úrskurður skattstjóra staðfestur um þetta kæruatriði.