Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 224/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 61. gr. 1. ml.  

Tekjuuppgjör — Tekjuuppgjörsaðferð — Tekjutímabil — Tekjuuppgjör rekstrar — Innborganir vegna seldrar þjónustu — Þjónusta — Iðnaður — Löggilt iðngrein — Múraraiðn

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem hefur með höndum sjálfstæðan atvinnurekstur við múrverk og flísalagnir ásamt meðeiganda sínum, taldi sig hafa heimild til frestunar tekjufærslu samkvæmt 1. ml. 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Færði hann til frádráttar 5.472.774 kr. í sameiginlegum rekstrarreikningi meðfylgjandi skattframtali sínu árið 1990. Var hans hlutur af þeirri fjárhæð 40% eða 2.189.110 kr. Með bréfi, dags. 27. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda um breytingar á rekstrarreikningi hans rekstrarárið 1989. M.a. felldi hann niður umrædda frestun tekjufærslu á þeim forsendum, að skilyrði heimildar til frestunar tekjufærslu væru ekki uppfyllt. Af hálfu umboðsmanns kæranda var niðurfelling frádráttarins kærð til skattstjóra hinn 29. ágúst 1990. Taldi umboðsmaðurinn ástæðu skattstjóra fyrir synjuninni óljósa og bar fram í kærunni ýmis rök. Staðfesti skattstjóri ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 12. desember 1990, á þeim forsendum að kærandi starfi við múrvinnu og flísalögn. Sú starfsemi teldist vera iðnaður en ekki þjónusta og væri kröfu kæranda þegar af þeirri ástæðu hafnað.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. desember 1990. Vísar hann í kærunni til fyrri röksemda í áðurgreindu bréfi hans til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 18. september 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Á það þykir bera að fallast með skattstjóra að starfsemi kæranda sé ekki þess eðlis að honum sé heimilt að nota ákvæði 1. ml. 61. greinar laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, við tekjuframtal sitt. Er kröfu kæranda því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja