Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 327/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 106. gr.
Álag— Álagsheimild
Kærandi taldi fram til skatts fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1981. Með bréfi dags. 22. júlí 1981 tilkynnti skattstjóri kæranda um breytingar á skattframtalinu og segir þar m. a.:
„Á skattframtali 1981 færið þér sem reiknuð laun gkr. 17 386 285 en engin fjárhæð er færð í reit 62 á skattframtali hvar færa á hreinar tekjur af atvinnurekstri. Af fylgigögnum skattframtalsins má ráða, að laun við eigin atvinnurekstur voru reiknuð gkr. 8 046 193 en hreinar tekjur af atvinnurekstrinum nema gkr. 17 386 285.
Þær breytingar hafa því verið gerðar á skattframtali yðar, að reiknuð laun gkr. 8 046 193 færast í reit 24 á skattframtalinu og hreinar tekur af atvinnurekstri gkr. 17 386 285 færast í reit 62.
Þar sem þér hafið með þessum frágangi yðar á skattframtalinu lækkað skattstofn yðar um gkr, 8 046 193 er beitt 25% álagi á þessa fjárhæð skv. heimild í 106. gr. laga nr. 40/1978. Fjárhæð álags nemur því gkr. 2 011 548“.
Af hálfu kæranda var ákvörðun skattstjóra um að beita 25% álagi kærð með kæru dags. 18. ágúst 1981. Er þess getið að vegna mistaka hafi fallið niður að færa inn á skattframtalið reiknuð laun við eigin atvinnurekstur. Þau laun komi að sjálfsögðu fram á rekstrarreikningi og sé því ekki vísvitandi verið að hagræða framtali. Verði því að telja leiðréttingu skattstjóra eðlilega leiðréttingu á tölulegum mistökum sem framkvæma bæri án viðurlaga.
Með úrskurði dags. 7. desember 1981 synjaði skattstjóri kröfum kæranda með svofelldum forsendum:
„Frá tekjum kæranda í reit 62 á skattframtali hans 1980 voru tvídregin reiknuð laun að fjárhæð gkr. 4 683 850. Á skattframtali hans 1981 er tekjuafgangur færður í reit 24, en reiknuð laun að fjárhæð gkr. 8 046 193., sem dregin voru frá honum,, hvergi færð til tekna. Með tvennu móti hefur kærandi því fellt niður að tekjufæra fjárhæð jafnháa þeim launum sem hann reiknaði sér fyrir vinnu við eigin atvinnurekstur. í bæði skiptin er þó færð fjárhæð í þann reit sem í skal færa laun þessi.
Í 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er að finna ákvæði um álag á skattstofna. Kemur sú lagagrein í stað 47. gr. eldri skattalaga án þess að henni sé efnislega mikið breytt. Er aðalbreytingin sú, að skylda til að beita álagi verður að heimild. í 1. málslið 2. mgr. 106. gr. greindra laga segir: „Séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr.“ eða einstakir liðir ranglega fram taldir má skattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna.“
Varðandi heimildarákvæði þetta þarf m. a. að hafa í huga, að gjaldendum og þeim sem vinna við framtalsgerð er ljóst, að skattframtöl eru lítið skoðuð áður en álagning þeirra gjalda sem á þeim byggjast fer fram. Því munu líkur til þess, að röng framtalsgerð uppgötvist ekki fyrir álagningu. Þannig megi skapa gjaldfrest á hluta skattakröfunnar. Ennfremur eygja menn þann möguleika, að eigi verði komist yfir að skoða öll skattframtöl. Jafnvel komist þá aldrei upp um það sem ranglega var gert. Beiti skattyfirvöld og ríkisskattanefnd álagi einungis í þeim tilvikum þegar fyrir liggur sannaður ásetningur og taki til greina allra handa útskýringar á hinni röngu framtalsgerð sem gætu verið réttar — en alveg óvíst að þær séu það — er stórlega dregið úr því aðhaldi sem að er stefnt með tilvitnaðri lagagrein. Slík framkvæmd ýtir því undir óvandaða framtalsgerð af ýmsu tagi. M. a. þá að tilfæra ranga skattstofna þannig, að það líti út sem mistök. Ljóst er af orðalagi 106. gr.laga nr. 75/1981 og tilgangi, að hún er ekki takmörkuð við vísvitandi ranga framtalsgerð. Hún tekur einnig til mistaka, enda getur margt í þeim efnum borið svip mistaka sem allt að einu er viljaverk.
Hin ranga framtalsgerð kæranda getur hæglega átt rót sína að rekja til mistaka. Hvort sem svo er í raun eða ekki og jafnvel þótt lesa megi rétta skattstofna út úr rekstrarreikningnum sem skattframtalinu fylgir þykir með hliðsjón af ofangreindum athugasemdum eigi annað fært en beita álagi með þeim hætti sem gert var. Önnur niðurstaða væri einungis lóð á vogarskál hindrana fyrir eðlilega skattframkvæmd. Kröfu kæranda er því synjað.“
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 28. desember 1981. Eru gerðar sömu kröfur með sama rökstuðningi og fram kemur í kæru til skattstjóra.
Með bréfi dags. 15. febrúar 1982 krefst ríkisskattstjóri þess að „úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Breytingar þær, sem skattstjóri gerði á skattframtali kæranda árið 1981 og tilkynntar voru með bréfi dags. 22. júlí 1981, eða fyrir álagningu gjalda það ár, voru framkvæmdar með heimild í 1. mgr. 95. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Hvorki í þeirri lagagrein né í 106. gr. sömu laga er gert ráð fyrir álagsbeitingu þegar einstökum liðum skattframtals er breytt fyrir álagningu með heimild í fyrrtöldu lagagreininni. Þar sem ákvörðun skattstjóra um beitingu álags þess, sem í máli þessu greinir og kært er út af, á þannig ekki stoð í lögum, er fallist á kröfur kæranda og hin kærða ákvörðun skattstjóra felld úr gildi.