Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 330/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 1. tl. 1. mgr. 31. gr., 96. gr.
Rekstrarkostnaður — Bifreið — Landbúnaður — Bifreiðakostnaður — Vísitölubú — Málsreifun — Skattframtal ófullnægjandi
Kæruefnið er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1981 að lækka gjaldfærðan bifreiðakostnað á landbúnaðarskýrslu úr 456 000 kr. í 150 000 kr. eða um 306 000 kr. og hækka reiknuð laun vegna vinnu við eigin atvinnurekstur um sömu fjárhæð. Kærandi hafði búrekstur að aukastarfi og voru brúttó tekjur af rekstrinum 2 400 565 kr., en gjöld alls 1 841 942 kr. Skattframtalinu fylgdi rekstraryfirlit bifreiðar, er notuð væri bæði við atvinnurekstur og til einkaþarfa. Heildarakstur var talinn 12.800 km, þar af akstur í þágu búrekstrar 3000 km. Enginn grein var gerð fyrir kostnaði í yfirliti þessu, en hann reiknaður miðað við 152 kr./km samkvæmt þar ákveðnu hámarki. Skattstjóri taldi bifreiðakostnaðinn offærðan og tók mið af ætluðum bifreiðakostnaði við vísitölubú, en brúttótekjur kæranda af landbúnaði námu 13% af brúttótekjum vísitölubús. Þá benti skattstjóri á, að gjaldfærður bifreiðakostnaður svaraði til ca. 2,7 km aksturs hvern dag og fjárhús kæranda væru í nokkur hundruð metra fjarlægð frá heimili hans.
Af hálfu kæranda er því haldið fram, að bifreiðakostnaður hans sé varlega ákvarðaður og akstur í þágu búrekstrarins sé fremur meiri en minni en hann áætlaði. Rétt sé, að gjaldfærður bifreiðakostnaður svari til 2,7 km aksturs hvern dag ársins. Miða verði við akfæran veg, þótt loftlína milli heimilis og fjárhúsa sé skemmri. Yfir vetrartíma séu oft farnar tvær ferðir á dag og um sauðburð og heyannir miklu oftar. Þá séu margvíslegir snúningar á haustin við smölun, slátrun og fóðurflutninga. Fram kemur, að búskapur kæranda er rekinn í bæjarlandi Akureyrar og kærandi er búsettur í kaupstaðnum.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 8. febrúar 1982 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Kærandi hefur gert skilmerkilega grein fyrir akstri sínum í þágu búrekstrar. Þegar litið er til skýringa kæranda og aðstæðna að því marki, sem þær verða ráðnar af málsgögnum, þykja eigi efni til þess að vefengja þann akstur sem kærandi hefur áætlað í þarfir búsins, enda eigi einhlítt að taka mið af ætluðum akstursþörfum vísitölubús, svo sem atvikum sýnist hér háttað. Hins vegar hefur kærandi enga grein gert fyrir bifreiðakostnaði sínum, en byggt á matsfjárhæð á ekinn km. Skattframtal hans var því ófullnægjandi að þessu leyti. Hvorki af hálfu skattstjóra né ríkisskattstjóra hafa þó verið gerðar athugasemdir við þennan þátt málsins. Þykir af því leiða, að byggja megi eins og á stendur á þeirri fjárhæð sem kærandi tilfærði sem frádráttarbæran bifreiðakostnað.