Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 334/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 1. mgr. 10. gr., 15. gr., 20. gr., 96. gr.  

Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Skattfrelsi — Ákvörðun söluhagnaðar — Gróðaskyri — Sönnun — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan

Málavextir eru þeir. að kærandi tilgreindi í greinargerð um eignabreytingar í skattframtali sínu árið 1981, að hann hefði selt bát fyrir 3 000 000 kr. Samkvæmt framtalsgögnum keypti kærandi bát þennan þann 11. ágúst 1979 og var kaupverð hans 1 700 000 kr. Með bréfi dags. 27. júlí 1981 tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1981, að hagnaður af sölu báts, sem teldist nema 1 300 000 kr., væri færður til tekna í skattframtali, þar sem ekki yrði annað séð en salan félli undir 20. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og kaup og sala gerð í hagnaðarskyni. Þessu var mótmælt af hálfu kæranda í kæru dags. 19. ágúst 1981 og vísað til ákvæðis 2. mgr. 15. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, um skattfrelsi hagnaðar af sölu lausafjár, sem ekki er notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi með þar greindum skilyrðum. Vísað var til fyrri skattframtala, er sýndu að kærandi stundaði ekki spákaupmennsku með lausafé.

Með úrskurði dags. 15. desember 1981 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda þar sem ekki væri unnt að fallast á, að kærandi hefði sýnt fram á, að hann uppfyllti skilyrði 2. mgr. 15. gr. nefndra laga með því að kærandi hefði ekki gegnt lágmarksupplýsingaskyldu, s. s. að geta nafns og heimilisfangs kaupanda, dagsetningar kaupsamnings, afhendingardags o. s. frv.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 14. janúar 1982. Er þess krafist að tekjuviðbót skattstjóra að fjárhæð 1 300 000 kr. verði niður felld. Sú athugasemd er gerð við úrskurð skattstjóra, að upplýsingar um kaupanda o. fl., sem skattstjóri getur ura, skipti vart máli við mat á því hvort skattaðili stundi kaup og sölu lausafjármuna sem atvinnu, enda hafi kærandi ekki verið beðinn um að bæta úr þessum ágalla. í framhaldi af kæru greindi kærandi frá kaupanda og söludegi títtnefnds báts.

Með bréfi dags. 27. apríl 1982 gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í málinu: „Kærandi hefur ekki gert líklegt að sala á téðum bát hafi ekki verið gerð í hagnaðarskyni og þykir því salan falla undir ákvæði 20. gr. laga nr. 75/1981 og er því krafist staðfestingar á hinum kærða úrskurði.“

Skattstjóri byggði á því í úrskurði sínum, að af hendi kæranda hefðu eigi komið fram nægar upplýsingar. Eigi var kærandi krafinn um slíkar upplýsingar áður en skattframtalinu var breytt og honum gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna. Var málsmeðferð skattstjóra því áfátt. Þá er, miðað við niðurstöðu skattstjóra, fjárhæð skattskylds hagnaðar ranglega ákvörðuð með því að eigi hefur verið tekið tillit til verðbreytinga við ákvörðun stofnverðs, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hins vegar þykir nægilega fram komið, að sala sú, sem um er deilt í málinu, falli undir þau ákvæði sem sett eru í 2. mgr. 15. gr. nefndra laga. Eru kröfur kæranda því teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja