Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 345/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 63. gr.
Sköttun hjóna — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Samrekstur — Ylrækt — Garðyrkja — Teknaskipting — Rekstrarleyfi — Reiknað endurgjald
Í bréfi til skattstjóra, dags. 3. september 1981, krafðist umboðsmaður kærenda þess, að hreinum tekjum af atvinnurekstri, er var 2 375 836 kr. að gerðum breytingum skattstjóra, m. a. á gjaldfærslu vegna verðbreytingar, yrði skipt að jöfnu milli kærenda, þar sem þau stæðu að öllu leyti jafnfætis að rekstrinum. Um var að ræða rekstur garðyrkjustöðvar. Vegna starfa við þann rekstur höfðu kærendur tilfært reiknað endurgjald að jöfnu að fjárhæð 9 500 000 kr. hjá hvoru um sig. Hreinar tekjur samkvæmt rekstrarreikningi að fjárhæð 463 149 kr. voru færðar að öllu leyti til tekna hjá eiginmanni. Vegna síðari breytinga, annarra en þeirra sem að framan greinir, sýnast hreinar tekjur hafa hækkað um 269 584 kr. sökum niðurfellingar á gjaldfærðum lífeyrissjóðsgjöldum á rekstrarreikningi og því numið eftir þá breytingu 2 645 420 kr.
Með úrskurði dags. 9. nóvember 1981 hafnaði skattstjóri kröfu kærenda um skiptingu hreinna tekna á þeim forsendum, að ekki yrði annað séð af skattframtali og gögnum þess en eiginmaður stæði fyrir rekstrinum og hefði aflað sér þeirrar sérþekkingar sem til þyrfti til slíks rekstrar.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotíð til ríkisskattanefndar með kæru dags. 8. desember 1981 og áður gerðar kröfur ítrekaðar með sömu rökum.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 15. febrúar 1982 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Samkvæmt 1. mgr. 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal telja hreinar tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi hjá því hjóna sem stendur fyrir rekstrinum. í 2. mgr. 3. tl. 1. mgr. nefndrar lagagreinar er kveðið svo á að hreinar tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi skuli telja til tekna hjá því hjóna sem sérþekkingu eða leyfi hefur, þegar reksturinn er háður sérþekkingu eða persónubundnum rekstrarleyfum. Starfi hjón sameiginlega að atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, og hafi bæði þá sérþekkingu eða leyfi sem krafist er eða sé slíkrar sérþekkingar eða leyfa ekki krafist, skal skipta hreinum tekjum af rekstrinum í hlutfalli við vinnuframlag hvors um sig og telja til tekna hjá hvoru hjóna. Kærendur halda því fram, að þau standi bæði fyrir rekstri
garðyrkjustöðvarinnar. Eigi verður séð, að tilefni sé til þess að vefengja þá staðhæfingu þeirra og er ekkert það í málsgögnum sem sérstaklega bendi til annars. Umkrafin meðferð atvinnurekstrartekna hefur eigi í tilfelli kærenda þá þýðingu við álagningu, að ástæða sé til þess að ætla að tilefni kröfu þeirra sé eingöngu af þeim ástæðum. Rekstur sá sem hér um ræðir er eigi háður persónubundnum rekstrarleyfum eða þeirri sérþekkingu að 1. málsl. 2. mgr. 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, geti komið tH álita. Telja verður því, að ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 3. tl. 1. mgr. nefndrar lagagreinar eigi við í tilviki kærenda. Kærendur hafa tilfært jafna skiptingu vinnuframlags við reksturinn, sem eigi hefur verið vefengt, og krefjast kærendur þess, að hreinum tekjum verði skipt milli þeirra í því hlutfalli. Með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið er fallist á kröfu kærenda.