Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 351/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 1. mgr. 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr., 95. gr., 96. gr.  

Námsfrádráttur — Mistök við álagningu — Skólavottorð — Málsmeðferð áfátt

Kærandi tekjufærði námsstyrk frá menntamálaráðuneytinu að fjárhæð 80 000 kr. og færði til frádráttar námskostnað vegna námskeiðs í Svíþjóð að fjárhæð 340 000 kr. Ekki var tekið tillit til þessa námsfrádráttar við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1981. Því mótmælti kærandi í kærubréfi, dags. 13. ágúst 1981, og tók fram, að ekki hefði verið tilkynnt um breytinguna og engin skýring hefði verið gefin á henni. Í úrskurði dags. 30. nóvember 1981 tekur skattstjóri fram, að frádráttarliður sá sem hér um ræðir hafi fallið niður í vélavinnslu skattframtals. Ekki væri fallist á að færa námskostnaðinn til frádráttar, þar sem ekkert skólavottorð hefði fylgt skattframtali eða kæru og engar upplýsingar fyrir hendi um hvers konar nám væri að ræða, Með bréfi dags. 5. október 1981 hafði kærandi verið krafinn um nefndar upplýsingar og gögn og gefinn 10 daga frestur til svara. Svar barst dags. 12. október 1981 en óskað frekari frests vegna dvalar kæranda erlendis.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 29. desember 1981. Þess er krafist, að álagning opinberra gjalda á námsstyrk verði felld niður og tilfærður námskeiðskostnaður leyfður til frádráttar. Kostnaðurinn hafði verið varlega áætlaður. Flugfar hafi kostað 234 300 kr. og námskeiðsgjald verið 116 500 kr. í framhaldi af kæru með bréfi dags. 13. janúar 1982 barst vottorð menntamálaráðuneytisins, dags. 12. janúar 1982, þess efnis, að kærandi hefði sótt námskeið um notkun bókasafna við fullorðinsfræðslu í Lýðfræðslustofnuninni í X í Svíþjóð í júnímánuði 1980, Námskeiðið hefði staðið í 7 daga og starfstími verið 56 stundir.

Með bréfi dags. 18. maí 1982 eru af hálfu ríkisskattstjóra gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn varðandi umrætt námskeið að undanskildu bréfi Menntamálaráðuneytisins um lengd námskeiðsins.

Ríkisskattstjóri getur því eigi fallist á að kærandi hafi sýnt fram á að téð námskeið falli undir 1. mgr. 3. tl. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og verður kærandi því eigi talinn eiga rétt á umbeðnum frádrætti.

Hvað varðar fjárhæð styrks er kærandi fékk frá Menntamálaráðuneyti verður eigi séð að í íslenskum skattalögum sé heimild til að undanþiggja téðan styrk skattskyldu og þykir því verða að krefjast staðfestingar á úrskurði skattstjóra.“

Mistök þau, sem frá er skýrt í bréfi skattstjóra, dags. 30. nóvember 1981, og olli því, að hinn umþrætti frádráttarliður féll niður, eru eigi á ábyrgð kæranda. Málsmeðferð var því áfátt af hendi skattstjóra og af þeim sökum þykir bera að taka kæruna til greina þó þannig, að tekjufærður námsstyrkur stendur svo sem hann var tilgreindur í skattframtali af hendi kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja