Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 352/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 99. gr., 100. gr., 3. mgr. 101. gr.  

Áætlun — Endurákvörðun — Ríkisskattstjóri — Framsending ríkisskattstjóra — Skattkæra — Kæruúrskurður — Kærumeðferð — Kæruheimild — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1981. Skattstjóri áætlaði þeim því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Með bréfi dags. 30. september 1981 fór umboðsmaður kærenda þess á leit við ríkisskattstjóra, að álögð opinber gjöld kærenda gjaldárið 1981 yrðu endurákvörðuð á grundvelli skattframtals þeirra árið 1981, er bréfinu fylgdi. Með bréfi dags. 6. október 1981 sendi ríkisskattstjóri skattstjóra nefnt erindi kærenda til afgreiðslu. Þann 29. október 1981 kvað skattstjóri upp úrskurði í tilefni af „beiðni um afgreiðslu skv. 101 gr. skattalaga“ eins og þar segir. Lagði skattstjóri skattframtalið til grundvallar álagningu í stað áætlunar með breytingu á tilfærðum námsfrádrætti og að viðbættum 25% viðurlögum. Var kærufrestur tilgreindur til ríkisskattanefndar, sbr. og bréf skattstjóra dags. 16. nóvember 1981, um leiðréttingu að því er varðar tilgreiningu kærufrests.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 9. desember 1981. Efni kærunnar er það að viðurlög þau, sem skattstjóri beitti, verði felld niður, Umboðsmaður kærenda gerir grein fyrir þeim atvikum sem valdið hafi drætti á framtalsskilum. Ástæðan sé einkum sú, að sérfróður aðstoðarmaður kærenda, sem annast hafi framtalsgerð þeirra á undanförnum árum, hafi beðist undan verkefninu að þessu sinni. Um það hefðu kærendur ekki fengið vitneskju fyrr en í júlímánuði 1981. Hafi það því ekki verið á valdi kærenda að tryggja framtalsskil á réttum tíma.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi dags. 18. maí 1982 gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Úrskurður skattstjóra er kveðinn upp á grundvelli heimildar í 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981 og skal þá gæta ákvæða 99. gr. og 100 gr. sömu laga um kærur.

Samkvæmt framangreindu þykir úrskurður skattstjóra kæranlegur skv. ákvæði 99. gr. áður nefndra laga, þ. e. a. s. til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 16. nóvember sl., veitti skattstjóri kæranda viðbótarkærufrest og kæra kæranda móttekin hjá ríkisskattanefnd innan þess frests og þykir því bera að vísa máli þessu til skattstjóra til uppkvaðningar kæruúrskurðar skv. 99. gr. nefndra laga.“

Með tilvísan til umsagnar ríkisskattstjóra er máli þessu vísað til skattstjóra til uppkvaðningar kæruúrskurðar, sbr. 3. mgr. 101. gr. og 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja