Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 229/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 41. gr. — 44. gr. 2. mgr. — 51. gr. 1. mgr. 1. tl. — 52. gr. 2. tl. — 53. gr. — 93. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Framtalsfrestur — Kærumeðferð skattstjóra — Andmælareglan — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Leiðrétting — Leiðrétting ríkisskattanefndar — Leiðrétting ríkisskattanefndar á álagningu — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, óglöggt — Verðbreytingarfærsla — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Tímaviðmiðun rekstrarútgjalda — Rekstrarkostnaður — Kaffikostnaður — Starfsmannakostnaður — Gjafir til starfsmanna — Gjöf — Fésektir — Stöðumælasektir — Aukaleigugjöld — Bifreiðakostnaður — Áhaldakostnaður — Gjaldfærsla kostnaðarverðs eigna og eignasamstæðna á kaupári án tillits til endingartíma — Lausafé — Fyrning — Fyrning, almenn — Almenn fyrning — Bókhaldsfylgiskjöl — Reikningur — Reikningur, formkröfur — Byggingarkostnaður — Byggingartími — Vaxtakostnaður — Vaxtagjöld, eignfærsla — Eignfærsla — Eignfærður fjármagnskostnaður — Fjármagnskostnaður eignfærður — Vaxtagjöld, val um gjaldfærslu eða eignfærslu — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar — Vanreifun

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 og sætti hann því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum. Af hálfu kæranda var álagningin kærð til skattstjóra með kæru dags. 29. ágúst 1989. Var tekið fram, að skattframtal kæranda árið 1989 hefði verið frágengið í mars 1989 og sent skattstjóra í apríl þ.á., en virtist hafa glatast hjá honum. Lét umboðsmaður kæranda staðfest myndrit af framtalinu fylgja kærunni og fór fram á, að það yrði lagt til grundvallar nýrri álagningu gjalda án álags þar sem skattframtalið hefði verið sent skattstjóra á tilsettum tíma. Áður en skattstjóri felldi úrskurð um kæruna reit hann kæranda bréf, dags. 13. febrúar 1990, og fór fram á, að hann léti í té myndrit af fylgiskjölum varðandi nokkra tilgreinda gjaldaliði í rekstrarreikningi fyrir árið 1988 ásamt skýringu á því hvernig þeir tengdust teknaöflun kæranda. Svar ásamt gögnum barst skattstjóra í bréfi kæranda, dags. 27. febrúar 1990. Með úrskurði, dags. 14. maí 1990, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda myndrit af skattframtali kæranda til grundvallar nýrri álagningu gjalda, en með eftirfarandi breytingum: Heimilaði ekki til frádráttar gjaldfærðar stöðumælasektir. Lækkaði gjaldfærðan kostnað vegna kaffi og hreinlætisvara úr 112.920 kr. í 50.000 kr. Lækkaði gjaldfærð áhöld um 41.955 kr. vegna tvífærslu þeirrar fjárhæðar. Hækkaði tekjur vegna verðbreytingar um 160.657 kr. Felldi niður frádráttarliðinn tap vegna fasteignarinnar A og eignfærði loks mismun á vaxtatekjum og gjöldum sem byggingarkostnað þeirrar fasteignar.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. maí 1990. Gerir hann athugasemdir við málsmeðferð skattstjóra að því leyti að hann hafi ekki gætt réttra aðferða við framkvæmd breytinga á skattframtali kæranda með því að hafa ekki virt ákvæði 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að því er varðar einstakar breytingar skattstjóra gerir umboðsmaður kæranda svofelldar athugasemdir:

„1. Stöðumælasektir kr. 11.950 felldar niður skv. 2. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981.

Umbjóðandi okkar getur ekki fallist á að hér sé um að ræða fjársektir vegna refsiverðs verknaðar eins og 2. tölul. 52. gr. kveður skýrt á um, að teljist ekki rekstrarkostnaður. Skv. kvittunum frá bílastæðasjóði Reykjavíkur er hér um aukastöðugjöld að ræða. Ef starfsmenn fyrirtækisins þurfa vegna vinnu sinnar, að geyma bifreið þá sem þeir aka lengur en þann tíma sem hægt er að velja við brottför frá bifreið er augljóst að greiða þarf hærri fjárhæð, því fjárhæðin fer eftir tímalengd. Hvort fylgst er með tímanum og hlaupið út til að bæta á stöðumælinn er lágmarkstími er útrunninn eða greidd aukastöðugjöld með gíróseðli er alfarið stjórnunarlegt atriði fyrirtækisins en ekki skattstjóra að ákveða.

2. Lækkun gjaldfærðs kostnaðar vegna kaffi og hreinlætisvara kr. 112.920 í kr. 50.000.

Þessi kostnaðarliður á fyllilega rétt á sér. Hér er nær einvörðungu um að ræða kaup á kaffi, mjólk og hreinlætisvörum frá tveimur verslunum í næsta nágrenni við aðsetur kæranda, B. Þessir reikningar eru mjög margir því þeir eru flestir á bilinu 300-600 krónur. Þó svo það standi aðeins „vörur“ á þessum reikningum teljum við það ekki næga ástæðu til að hafna þeim algerlega eins og skattstjóri gerir. Það er orðin viðtekin venja í matvöruverslunum og bakaríum að útfylla smáreikninga á þennan hátt. Kaffikostnaður að fjárhæð kr. 112 þús. á ári hjá fyrirtæki sem býður öllum viðskiptavinum upp á kaffi getur varla talist annað en óeðlilega lágur.

3. Niðurfelling á kaupum á konfektkössum í desember 1988 að fjárhæð kr. 22.540.

Það er orðin viðtekin venja hjá flestum íslenskum fyrirtækjum að gefa starfsmönnum sínum jólagjöf. Bók eða konfektkassi eru líklega algengast slíkra gjafa. Þetta hefur ævinlega þótt liður í að gera starfsfólk ánægðara í starfi sínu og falla því að skilgreiningu á rekstrargjöldum skv. 31. gr. 1. nr. 75/1981.

4. Gjaldfærð áhöld lækkuð um kr. 41.955 vegna tvífærslu til gjalda. Rétt er að vegna mistaka var talið að kr. 41.955 væri ógjaldfært og ógreitt um áramótin 1988/1989. Eftir að lokið var gerð ársreiknings fyrir rekstrarárið 1988 kom í ljós að þessi reikningur var alls ekki ógreiddur. Því voru gjaldfærð áhöld rekstrarárið 1989 lækkuð um þessa fjárhæð. Ef ekki verður fallist á að láta gjaldfærð áhöld ársins 1988 vera óbreytt skv. skattframtali óskum við eftir að gjaldfærð áhöld ársins 1989 verði hækkuð um sömu fjárhæð.

5. Tekjur vegna verðbreytinga sbr. 53. gr. laga nr. 75/1981 hækkaðar úr kr. 94.086 í kr. 254.743.

Það mátti ljóst vera að hér væri um vélritunarvillu að ræða þar sem ekki var um neinn reiknaðan tekju- eða eignarskatt að ræða í árslok 1987. Kr. 869.359 er skuld fyrirtækisins við eigendur og átti að vera einni línu neðar á eyðublaði RSK 4.02. „verðbreytingarskýrsla“, sem fylgdi með skattframtali 1989.

6. A, gjaldfærsla vaxta ekki rekstrarkostnaður skv. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Það kemur fram í lögum nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt að val sé um hvort vaxtagjöld á byggingartíma séu eignfærð eða gjaldfærð. 2. mgr. 44. gr. „Heimilt er að fyrna sérstakri fyrirfram fyrningu þá varanlegu rekstrarfjármuni sem ætlaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri, sbr. 32. gr., en ekki hafa verið teknir í notkun í ársbyrjun, enda hafi beinn fjármagnskostnaður á byggingartíma verið eignfærður“. A er ekki sjálfstæður skattaðili heldur er tekjum og gjöldum, eignum og skuldum skipt milli eignaraðila. Þar af leiðir eru þessi vaxtagjöld hluti vaxtagjalda B og leyfast þar til frádráttar, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981. Ekki skiptir máli í því sambandi hvort einstakar eignir fyrirtækisins séu í byggingu og þar af leiðandi ekki komnar í rekstur eða ekki. Ef ekki er fallist á aðal kröfu okkar varðandi þennan lið, óskum við eftir að tekjuskattsstofn á skattframtali 1989 verði lækkaður um umrædda fjárhæð þ.e. kr. 187.257 þar sem A var yfirtekin af einum sameignaraðilanum á árinu 1989 og þessi fjárhæð færð þá til tekna.“

Með bréfi, dags. 17. september 1991 krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Af hálfu kæranda hafa engar líkur verið að því leiddar, að skattframtal hans hafi borist skattstjóra fyrr en í kærufresti eftir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Var því skattstjóri ekki bundin af ákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, við framkvæmd hinna kærðu breytinga í kæruúrskurðinum. Efni voru til þess að skattstjóri krefði kæranda skýringa og gagna um umrædda liði framtalsins, áður en hann felldi úrskurð sinn svo sem hann og gerði. Víkur þá að hinum kærðu breytingum skattstjóra:

Um 1. Á það er fallist með kæranda, að aukaleigugjöld, sem um er fjallað undir þessum kærulið, falli ekki undir fjárútlát þau, sem um er fjallað í 2. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 2. Hvorki skattstjóri né ríkisskattstjóri þykja hafa sýnt fram á það að kærandi hafi fært undir þeim lið í rekstrarreikningi sínum, sem hér um ræðir, ófrádráttarbæran kostnað. Er því fallist á þá kröfu kæranda, sem um ræðir undir þessum kærulið.

Um 3. og 4. Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta að því er þessa kæruliði varðar. Rétt er að taka fram að kæruliður nr. 3 var í reynd ekki framkvæmdur af skattstjóra við breytingu á skattstofnum og er það leiðrétt hér svo sem það kæruatriði liggur fyrir.

Um 5. Skýringar kæranda varðandi þennan lið eru ófullnægjandi, þegar litið er til efnahagsreiknings hans 31. desember 1987. Er þessum kærulið því vísað frá vegna vanreifunar.

Um 6. Telja verður með vísan til 44. gr. og 51. gr. laga nr. 75/1981 að kærandi eigi val um að gjaldfæra eða eignfæra umrædd vaxtagjöld. Er því fallist á kröfu hans varðandi þennan kærulið.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja