Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 477/1982
Gjaldár 1981
Norsku lög Kristjáns V frá 15. apríl 1687, 1-22-56 Lög nr. 35/1960, 14. gr. Lög nr. 75/1981, 2. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr., 4. mgr. 90. gr., 100. gr.
Lögheimili — Landbunaður — Búrekstur — Skattlagningarstaður — Lögheimilisúrskurður — Réttaráhrif dómsúrskurðar — Réttaráhrif áfrýjunar — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Ferðakostnaður — Frávísun — Frávísunarkrafa — Kærufrestur — Valdsvið ríkisskatta-nefndar — Lögskýring
I
Málavextir eru þeir, að kærendur sem eru hjón skiluðu staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1981 til skattstjóra Vesturlandsumdæmis. Kærendur töldu lögheimili sitt að X, Borgarfjarðarsýslu, þar sem þau reka búskap. í bréfi dags. 31. maí 1981 til skattstjóra Vesturlandsumdæmis, sem fylgdi skattframtalinu, tóku kærendur fram, að árið 1980 hefði risið deila um lögheimili þeirra. Kærendur hefðu undanfarin ár haldið heimili í Reykjavík fyrir börn sín, sem hefðu verið þar í skólum. Kærendur hefðu ennfremur stundað vinnu í Reykjavík jafnframt búrekstri að X eins og áður. Þangað hefðu þau farið um hverja helgi og eftir þörfum í miðri viku. Ætlunin sé að búa áfram að X. Dvalist sé í leiguhúsnæði í Reykjavík, en engin fasteign þar sé í eigu kæranda. Allt að einu hafi fallið úrskurður í sakadómi Mýra- og Borgarfjarðarsýslu hinn 24. nóvember 1980 í lögheimilismáli kærenda á þann veg, að lögheimili þeirra hafi verið úrskurðað í Reykjavík. Þeim úrskurði hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Þar til dómur sé fallinn beri að telja lögheimilið að X og telja fram samkvæmt því. Þá færðu kærendur til frádráttar tekjum ferðakostnað vegna atvinnu, 730 000 kr. fyrir hvort um sig, í reit 33 í skattframtali. Miðað var við, að sótt væri atvinna til Reykjavíkur og reiknaðar 50 ferðir á árinu. Fjárhæð var miðuð við ferðakostnað með áætlunarbifreiðum.
Í málinu sýnist það gerast næst, að skattstjórinn í Reykjavík tilkynnti kærendum um niðurfellingu nýnefnds ferðakostnaðar til frádráttar. Þá er lagt á kærendur í Reykjavík við frumálagningu árið 1981 og miðað við, að kærendur eigi lögheimili að A-götu í Reykjavík.
II
Af hálfu umboðsmanns kærenda var kært til skattstjóra með bréfi dags. 4. ágúst 1981. ítrekuð voru sjónarmið kærenda um að lögheimili kærenda bæri að telja að X. Þá var mótmælt niðurfellingu ferðakostnaðar er væri og heimill samkvæmt 2. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, enda þótt lögheimili yrði úrskurðað í Reykjavík.
Með úrskurði dags. 3. desember 1981 hafnaði skattstjóri kröfum kærenda. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands væri lögheimili kærenda í Reykjavík. Þá tæki 2. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. nefndra laga ekki til kærenda, þar sem kærendur ættu lögheimili í sama sveitarfélagi og þau stunduðu störf sín sem launafólk.
III
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. desember 1981. Ítrekaðar eru áður fram komnar kröfur um lögheimili og skattlagningarstað. Þá er þess krafist, að tilfærður ferðakostnaður verði látinn óbreyttur standa svo sem hann var tilgreindur í skattframtali. Til vara er þess krafist, að ferðakostnaðurinn verði veittur til frádráttar sem rekstrarkostnaður við búrekstur X.
IV
Með bréfi, dags. 16. mars 1982, eru af hálfu ríkisskattstjóra gerðar svofelldar kröfur í málinu:
Aðalkrafa:
Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún virðist of seint fram komin.
Varakrafa:
Telji ríkisskattanefnd kæruna póstlagða innan 30 daga kærufrestsins skv. 100. gr. skattalaga eru svofelldar kröfur gerðar til vara:
- Um skattlagningarstað.
Þess er krafist að kæruatriði er varðar þetta atriði verði vísað frá ríkisskattanefnd þar eð úrskurðarvald um skattlagningarstað heyrir eigi undir nefndina.
- Um svonefndan ferðakostnað.
Krafist er að úrskurður skattstjóra um þetta atriði verði staðfestur og að varakröfu kæranda verði hafnað.“
V
Um 1. Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnisúrlausnar. Með úrskurði sakadóms Mýra- og Borgarfjarðarsýslu hefur lögheimili kærenda verið talið að A-götu í Reykjavík í stað X í Borgarfjarðarsýslu. Þessum úrskurði hafa kærendur eigi viljað una og áfrýjað honum til Hæstaréttar Íslands, eftir því sem greinir í gögnum málsins. Bera kærendur fyrir sig, að áfrýjun fresti verkunum nefnds úrskurðar sakadóms og lögheimili beri að telja að X þann 1. desember 1980. í 14. gr. laga nr. 35/1960, um lögheimili, er aðilum heimilað að áfrýja úrskurði dómara í málum slíkum, sem hér um ræðir, til Hæstaréttar. Eigi er tekið fram um í lögum þessum hvaða áhrif áfrýjun hafi á dómsverkanir. Almennt er það svo, að áfrýjun dómsathafnir frestar verkunum hennar, sbr. t. d. Norsku lög Kristjáns V frá 15. apríl 1687 1—22—56. Verður því að álíta, að lögheimili kærenda beri að telja að X, að svo stöddu. Er því fallist á kröfu kærenda að því er þetta varðar, Eigi verður talið að ákærði 4. mgr. 90. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, um úrskurðarvald ríkisskattstjóra, eigi hér við, enda eigi sá vafi fyrir hendi um skattlagningarstað í tilviki kærenda sem þar er um rætt.
Um 2. Þegar litið er til aðstæðna kærenda og virt eru gögn málsins þykir krafa kærenda um frádrátt vegna fargjalda eigi nægum rökum studd. Er kærunni því vísað frá að því er þetta kæruatriði varðar.