Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 487/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 1. U. E-liðs 1. mgr. 30. gr.  

Vaxtagjöld — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Frádráttarheimild — Byggingarframkvæmdir

Kærð eru álögð opinber gjöld gjaldárið 1981. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfum:

„Umbjóðandi minn keypti á árinu 1980 lóð að M, Reykjavík, og hóf byggingarframkvæmdir á því ári.

Til þessa framkvæmda voru tekin lán og gjaldfærði umbjóðandi minn vaxtakostnað þeirra vegna ásamt vaxtakostnaði af áhvílandi lánum af íbúð að P, Hafnarfirði.

Skattstjóri Austurlandsumdæmis felldi niður gjaldfærða vexti vegna M, með tilvísun í 1. tl. E-liðs 30. gr. laga nr. 75/1981, og taldi að túlka bæri framangreint ákvæði þannig að engin vaxtagjöld væru frádráttarbær nema íbúðin væri nýtt til eigin nota og ætti það jafnt við um eina íbúð eða fleiri, en þó með þeirri undantekningu að fallist væri á að leyfa frádrátt vaxta af einni íbúð, sem eigandi gæti ekki nýtt vegna starfa sinna á öðrum stöðum.

Umbjóðandi minn getur ekki fallist á þessa túlkun 1. tl. E-liðs 30. gr. og bendir m. a. á í því sambandi að um frádráttarbær vaxtagjöld geti verið að ræða, sbr. B-lið 1. tl. E.-liðar. Einnig hefur verið bent á, því til staðfestu að húsnæði á M sé ætlað til eigin nota, að íbúð að P 10 hefur nú þegar verið seld.

Með tilvísun til 1. tl. E-liðs 30. gr. laga nr. 75/1981 og framanritaðs, er farið fram á að fyrrnefnd vaxtagjöld verði leyfð til frádráttar og tekjuskattur lækkaður tilsvarandi.“

Með bréfi dags. 29. júní 1982 féllst ríkisskattstjóri á kröfur kæranda.

Fallist er á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja