Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 518/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 53. gr.  

Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Landbúnaður — Afurðauppgjör

I

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1981 að heimila ekki við útreikning á verðbreytingarfærslu að telja til eignar fjárhæð ógreiddra eftirstöðva af búsafurðum þann 31. desember 1979. Kærandi hefði hvorki fært fjárhæð þessa til eignar né tekna í skattframtali sínu árið 1980. Byggði skattstjóri ákvörðun sína m. a. á því; að kærandi hafi ekki farið fram á breytta álagningu vegna gjaldársins 1980; að aðferð sú sem kærandi fer fram á við útreikning verðbreytingarfærslu sé almennt ekki notuð í skattumdæmi hans og því hætta á að mikill mismunur kæmi fram milli framteljenda verði fallist á kröfur kæranda; að samkvæmt gagnályktun frá 3. málsl. 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fengi sjónarmið kæranda ekki staðist; og einnig beri að líta til þess að verðbætur teljist þá fyrst til tekna þegar þær eru greiddar eða færðar framleiðanda til tekna í reikning hans, sbr. 2. mgr. 1. tl. B. liðar 17. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt.

II

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 3. desember 1981, og krefst hann þess að breyting skattstjóra verði felld niður og skattframtal 1981 lagt óbreytt til grundvallar við ákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1981. Til stuðnings þeirri kröfu sinni bendir kærandi á að verð á landbúnaðarafurðum sé ákveðið af sexmannanefnd og hefjist hvert verðlagsár 1. september. Eftir ákvörðun þeirrar nefndar greiði síðan sláturleyfishafar verð til bænda, sem fært sé í viðskiptareikninga þeirra frá 1. nóvember, og sé algengt að útborgunarverð til bænda sé frá 70%—85% af svokölluðu grundvallarverði 1. september það árið. Það sem eftir verði, til að fullt verð náist, er síðan ekki greitt fyrr en um það bil einu ári síðar og fari sú fjárhæð algjörlega eftir því hvernig sala hafi gengið á afurðunum. Oft náist ekki fullt grundvallarverð. Af þessu megi ljóst vera að bændur geti ekki vitað, hver fjárhæðin sé, sem þeir eigi eftir að fá á áramótum frá sláturleyfishöfum, og því ekki unnt að telja þar ákveðna fjárhæð til eignar sem viðskiptakröfur á landbúnaðarframtali eins og æskilegt væri að gera. Jafnvel þó vitað sé hver hlutur af grundvallarverði frá 1. september útborgunarverðið er, þá væri það algjör ágiskun út í bláinn að telja þá fjárhæð, sem á vanti fullt grundvallarverð í liðinn viðskiptakröfur á landbúnaðarframtali. Hins vegar megi það vera ljóst samkvæmt launamiða að þessi eign hafi verið til um áramótin 1979—1980, þó að fjárhæðin hefði ekki verið ljós fyrr en í desember 1980.

III

Með bréfi dags. 31. mars 1982 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Verðbreytingarfærslu skal skv. 7. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt miða við stöðu eigna og skulda í lok næst liðins reikningsárs.

Skv. framansögðu eru eignir og skuldir í efnahagsreikningi í árslok 1979 lagðar til grundvallar verðbreytingarfærslu við framtalsgerð á árinu 1981, eftir nánar tilteknum reglum er fram koma í áðurnefndri lagagrein. Við ákvörðun á verðbreytingarfærslu við framtalsgerð á árinu 1981, eftir nánar tilteknum reglum er fram koma í áðurnefndri lagagrein. Við ákvörðun á verðbreytingarfærslu á árinu 1981 bar kæranda að leggja til grundvallar eignir og skuldir í árslok 1979.

Verðbreytingarfærslueyðublaðið er fylgdi skattframtali kæranda árið 1981 var eigi í samræmi við efnahagsyfirlit í árslok 1979 skv. landbúnaðarskýrslu er fylgdi skattframtali kæranda árið 1980.

Skattstjóra var því rétt að breyta skattframtali kæranda hvað framangreint varðar með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981.

Í kæru til skattstjóra og ríkisskattanefndar kemur fram að fjárhæð sú er skattstjóri strikaði út af verðbreytingarfærslublaði er sú fjárhæð er kærandi hefur fengið greidda vegna afurða er inn voru lagðar á árinu 1979 og ógreiddar voru í árslok.

Við skýringu á 53. gr. áður nefndra laga sýnist eðlilegt að nefnd fjárhæð komi eigi til álita við ákvörðun verðbreytingarfærslu þar eð hún er óviss og ónákvæm og geti því eigi talist eign í árslok í almennum skilningi.

Þá er einnig rétt að benda á að í 4. mgr. áður nefndrar lagagreinar eru fyrirmæli um að eigi skuli telja ógreiddar upphæðir á innlagðar afurðir mjólkurbúa og sláturhúsa til skuldar. Virðist það benda til að löggjafinn hafi eigi ætlast til að téðar greiðslur mynduðu stofn til verðbreytingarfærslu.

Að virtu framangreindu ítrekar ríkisskattstjóri staðfestingarkröfur sínar.“

IV

Í skattframtali sínu árið 1980 færði kærandi hvorki til tekna né eignar áætlaða fjárhæð á óuppgerðum innlögðum landbúnaðarafurðum framleiddum á árinu 1979. Eins og kærandi gerir grein fyrir í kæru sinni urðu tekjur þessar ekki endanlega kunnar fyrr en á árinu 1980 og eru þá tekjufærðar, sbr. skattframtal hans árið 1981. Hefur framtalsháttur þessi verið tíðkaður í starfsgrein kæranda. Að þessu virtu er ekki fallist á kröfur kæranda og skulu álögð gjöld 1981 því standa óbreytt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja