Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 552/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 44/1979, 1. gr.   Lög nr. 75/1981, 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr.  

Reiknuð húsaleiga — Matsreglur ríkisskattstjóra — Íbúðarhúsnæði — Afnotaskipti — Tímabundin afnotaskipti — Leigumáli — Húsaleigusamningur — Lögskýring — Eigin notkun

Málavextir eru þeir, að á greiðslumiða, sem fylgdi skattframtali kæranda árið 1981, kom fram að hann hefði skipt á afnotum íbúðarhúsnæðis án greiðslu þann 1. júní 1980 við A, þannig að nefndur A hefði til afnota íbúðarhús kæranda að X-götu 7, en kærandi íbúð A að B-götu 29. Þá kom fram að fasteignargjöld vegna íbúðarinnar að B-götu 29, námu 225 000 kr. og viðhaldskostnaður 200 000 kr.

Með bréfi dags. 15. desember 1981 tilkynnti skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að reikna honum húsaleigutekjur vegna útleigu íbúðarhúss hans á árinu 1980 eftir hlunnindamati ríkisskattstjóra eða 2,7% af fasteignarmatsverði húss og lóðar að viðbættu 25% álagi samkvæmt 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Byggði skattstjóri á ákvæðum 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. nefndra laga. Var kæranda gefinn frestur til þess að leggja fram staðfestar upplýsingar um frádráttarbæra gjaldaliði.

Með bréfi dags. 28. desember 1981 var af hálfu kæranda farið fram á, að fallið yrði frá fyrirhugaðri tekjuhækkun. Þær skýringar voru gefnar, að umræddir aðilar hefðu haft afnotaskipti á húseignum sínum hluta ársins 1980 án þess að nokkrar greiðslur hefðu gengið á milli. Hvorugur hafi skipt um lögheimili. Eðlilegt hefði verið talið, að afnot hvorrar eignar um sig vægju nokkuð jafnt m. t. t. ástands á leigumarkaði, Fasteignamat íbúðarhúss kæranda hefði numið 30 827 000 kr. en íbúðarinnar við B-götu 36 508 000 kr. þannig að hugsast gæti að tekjufæra 2,7% af mismun yrði það eiganda síðastnefndrar eignar í óhag.

Með bréfi dags. 26. janúar 1982 hafnaði skattstjóri sjónarmiðum kæranda og hækkaði tekjur hans um alls 520 205 kr., sem voru reiknaðar leigutekjur 2,7% af fasteignamatsverði X-götu 7, að fjárhæð 416 164 kr. að viðbættum 25% viðurlögum sem námu 104 041 kr. Ekki hefði verið gerð grein fyrir gjaldaliðum, enda rekstraryfirlit ekki lagt fram. Þessi ákvörðun var kærð af hálfu kæranda með bréfi dags. 25. febrúar 1982. Með úrskurði dags. 17. maí 1982 hafnaði skattstjóri kærunni.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 15. júní 1982. Er þess krafist, að tekjuviðbót skattstjóra verði niður felld. Eru fyrri röksemdir ítrekaðar og auk þess því haldið fram, að um eigin not hafi verið að tefla, sem falli undir undanþáguákvæði. Er vísað til úrskurða ríkisskattanefndar nr. 597, 28.9. 1981 og nr. 882, 31.12. 1981 í þessu sambandi.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi dags. 27. júlí 1982 gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Eigi verður séð að undanþága 2. ml. 2. mgr. 2. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 taki til tilviks kæranda og er því gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra að því undanskildu að rétt þykir að falla frá beitingu álags.“

Kærandi hafði að því er virðist tímabundin afnotaskipti á íbúðarhúsnæði sínu og íbúðarhúsnæði að B-götu. Gengu engar greiðslur á milli. Með lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, voru tekjur og gjöld vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota felld niður, sbr. nú 2. málsl. 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Svo sem á stendur í máli þessu þykir með hliðsjón af síðastnefndu lagaákvæði eigi rétt að reikna kæranda húsaleigutekjur vegna þeirra ráðstafana um íbúðarafnot sem í málinu greinir enda eigi sýnt að um sé að ræða leigusamband aðila í viðskiptum þessum, sbr. 1. gr. laga nr. 44/1979, um húsaleigusamninga, en telja verður að ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 komi því aðeins til álita, að um slíkt réttarsamband sé að ræða.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja