Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 649/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., 1. mgr. 59. gr.
Landbúnaður — Reiknað endurgjald — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Rekstrartap — Lögskýring — Eftirstöðvar rekstrartaps
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1981 og gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfum í kæru sinni til ríkisskattanefndar:
„Ég kæri hér með úrskurð skattstjóra frá 29. okt. 1981 og krefst að reiknuð laun skv. bréfi 15/6 1981 verði felld niður, 1 200 000 kr. á hvort þeirra hjóna og að álagningu verði breytt til samræmis við skattframtalið óbreytt.
Hér er deilt um túlkun hinnar umdeildu 59. greinar skattalaganna. Ber vissulega nauðsyn til að fá um þetta rökstuddan úrskurð.
Ég leyfi mér að benda á, að bú þeirra B skilaði ekki neinum rauntekjum á s. l. ári. Ennfremur að launatekjur hjónanna og dóttur þeirra voru 6 616 325 kr., þ. e. 551 360 kr. á mánuði, sem er nægur lífeyrir. Með tilliti til þessa lít ég svo á að ekki beri að færa reiknuð laun til tekna á framtali.
Þar að auki er svo ákvæði greinarinnar um takmörkun halla, sem mynda megi með reiknuðum launum við atvinnurekstur.
Hagnaður ársins skv. landbúnaðarskýrslu var 676 651 kr. Almennar fyrningar voru 1 274 296 kr. og gjaldfærsla skv. 53. gr. 597 264 kr. Samtals er þetta upphæð er nemur 2 548 211 kr. og gæti því staðist að reikna laun samtals 2 400 000 kr. eins og skattstjóri hefir gert, ef horft er á rekstur ársins 1980 einangraðan.
Hins vegar var yfirfæranlegt tap frá fyrra ári. Margfaldað með 1.5491 gerir það 5 464 078 kr. Þótt það sé ekki beinlínis tekið fram í lagagreininni, sýnist manni sjálfsagt að tillit sé tekið til þessa.“
Með bréfi dags. 28. apríl 1982 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur,
Kærendur höfðu með höndum búrekstur á árinu 1980 og báru því að ákvarða sér endurgjald vegna vinnu við rekstur skv. 2. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.
Þar eð kærendur fullnægðu eigi framangreindri lagaskyldu var skattstjóra rétt að ákvarða þeim eigin laun og þykir mat hans á fjárhæð reiknaðra launa hóflegt og sanngjarnt.“
Með vísan til lokamálsliðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981 þykir bera að hafna sjónarmiðum kærenda. Með vísan til þess er fram kemur í gögnum málsins þykir hinsvegar reiknað endurgjald eignmanns of hátt reiknað af skattstjóra og þykir það hæfilega ákveðið 500 000 kr.