Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 654/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 55/1980 Lög nr. 75/1981, 3. mgr. 1. tl. 1. mgr. 31. gr., 1. mgr. 1. tl. 1. mgr. 31. gr.
Gjafir til menningar- og líknarmála — Frádráttarbærni — Frádráttarheimild — Eftirlaun — Makalífeyrir — Rekstrarkostnaður — Lífeyrisréttindi — Hlutafélag
I
1. Kærandi, sem er hlutafélag, færði til gjalda í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1980 gjafir samkvæmt heimild í 3. mgr. 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. sömu laga. Nam fjárhæð þessa gjaldaliðar 1 000 000 kr. Samkvæmt sundurliðun kæranda, sem fylgdi svarbréfi hans til skattstjóra, dags. 25. janúar 1982, voru gjafþegar þessir: Sóknarnefnd X-kirkju 100 000 kr., Björgunarsveit Slysavarnarfélags X 200 000 kr., Minningarsjóður um drukknaða menn, X, 500 000 kr. og Rauðakrossdeild X 200 000 kr. Skattstjóri lækkaði gjaldið þennan um 900 000 kr. á þeim forsendum að aðrir gjafþegar en Sóknarnefnd-X X-kirkju hefðu ekki fengið viðurkenningu ríkisskattstjóra til þess að gjafir til þeirra skapi heimild til frádráttar hjá gefanda.
Af hálfu kæranda er þess krafist, að lækkun skattstjóra á fjárhæð gjaldfærðra gjafa verði hnekkt, enda séu þau framlög, sem um er deilt í málinu, ótvírætt innan þeirra marka sem um getur í 2. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ. e. a. s. framlög til almennt viðurkenndra menningar- og líknarstofnana, og verði frádráttarheimild þessi ekki þrengd með stjórnvaldsauglýsingu. í bréfi til skattstjóra, dags. 26. febrúar 1982, koma fram nánari rök kæranda. Þar segir svo:
„Samkvæmt 2. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 er meginreglan sú að gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsóknarstarfa, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga eru frádráttarbærar innan ákveðinna marka. Fjármálaráðherra er síðan ætlað að ákveða í reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir komi til greina í þessu sambandi.
Við teljum að heimild til reglugerðarsetningar í þessu sambandi nái aðeins til þeirra atriða sem tilgreind eru í lögunum þ. e. að tilgreina málaflokka og stofnanir sem taka megi við frádráttarbærum gjöfum. Hér er tilgangurinn fyrst og fremst að ákveða mörk í reglugerð og taka af skarið varðandi vafaatriði. í reglugerðinni eru hins vegar sett mjög ítarleg og með öllu óeðlileg skilyrði fyrri frádráttarbærni gjafa sem ekki verður séð að hafi lagastoð, þar sem þau eru þrengri en lögin gera ráð fyrir.
Varðar það t. d. framlagningu kvittana frá bókhaldsskyldum aðilum og árleg tilmæli til og viðurkenningu frá ríkisskattstjóra. Verði t. d. Rauða Krossi Íslands það á eitt áríð að láta hjá líða að senda ríkisskattstjóra slík tilmæli ættu framlög til hans það árið ekki að vera frádráttarbær. Hvers á hinn óbreytti grandlausi framteljandi að gjalda, sem styrkt hefur Rauða Krossinn? Slíkt er andstætt meginefni laganna.
Það sem kemur hér til álita er fyrst og fremst það hvort umræddar gjafir hafi runnið til þeirra málaflokka sem um er rætt í lögunum. Af framangreindri sundurliðun er ljóst að allar greiðslurnar eru inntar af hendi til almennt viðurkenndra stofnana eða félaga sem lögin gera ráð fyrir að geti tekið við frádráttarbærum gjöfum.“
2. Skattstjóri felldi niður gjaldaliðinn eftirlaun að fjárhæð 3 717 640 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1980. Með bréfi dags. 15. janúar 1982 til kæranda spurðist skattstjóri m. a. fyrir um það samkvæmt hvaða kvöð félagið greiddi eftirlaun og fór fram á, að lögð yrðu fram gögn þar um. Með bréfi dags. 25. janúar 1982 sendi kærandi ljósrit úr fundargerðarbók félagsstjórnar. Ljósrit þetta er meðal gagna málsins. Með bréfi dags. 18. febrúar 1982 boðaði skattstjóri kæranda niðurfellingu nefnds gjaldaliðs, þar sem eigi væri um að ræða rekstrarkostnað í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með bréfi dags. 19. mars 1982 endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1981 vegna fyrrnefndrar breytingar, svo og þeirrar sem greinir í 1. tl. hér að framan. I endurákvörðun skattstjóra segir svo um ástæður til niðurfellingar hina gjaldfærðu eftirlauna:
„Gjaldfærð laun lækkuð um gkr. 3 717 640 gkr., þar sem eftirlaun þau sem félagið greiðir teljast eigi rekstrarkostnaður í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981.
Í bréfi skattstjóra Reykjanesumdæmis til félagsins, dags. 15. janúar 1982, var spurt um kvöð þá sem lægi til grundvallar greiðslu ofangreindra eftirlauna. Ennfremur var óskað framlagningar gagna þar að lútandi. Þessu var svarað með ljósriti úr fundargerðarbók félagsins, þar sem fram kemur að stjórn þess hafi samþykkt að ekkja A haldi eftirlaununum hans meðan hún lifir. Hins vegar hefur hvergi verið sýnt fram á, að félagið hafi verið samningslega skuldbundið til greiðslu þessara eftirlauna. Er því eigi heimilt að gjaldfæra þau sem rekstrarkostnað. í þessu sambandi þykir og rétt að benda á úrskurð ríkisskattanefndar nr. 1128 frá 12. desember 1978 svo og úrskurð Landsskatteretten í Danmörku (LSR 1963, 98), sem er að finna á bls. 848 í úrskurðarsafni útgefnu af A/S Skattekartotekets Informationskontor í Kaupmannahöfn 1976.“
Af hálfu kæranda er þess krafist, að nefndar eftirlaunagreiðslur verði að fullu teknar til greina. Hér sé um rekstrarkostnað að ræða með sama hætti og launin sjálf, lífeyrisgreiðslur o. fl., sem tengist kjörum starfsmanna og um er samið, sbr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981.
Eftirlaunaskuldbindingar eigi að réttu lagi að gjaldfæra jafnóðum og þær myndast með sama hætti og iðgjöld til lífeyrissjóða, sbr. 6. tl. 102. gr. laga nr. 32/1978 um hlutafélög, en sú aðferð hafi ekki almennt verið tekin upp hér á landi. Hér hafi verið um að ræða eftirlaun vegna aldraðs starfsmanns, sem ekki hafi notið neinna lífeyrisréttinda og félagið hafi ekki fengið frádregin iðgjöld í lífeyrissjóð vegna hans. í málinu liggur fyrir ljósrit af tekjuframtali viðtakanda greiðslunnar, þar sem fram kemur að viðtakandi hefur ekki notið greiðslna úr lífeyrissjóðum.
II
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 16. ágúst 1982 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
III
Um 1. Ótvírætt þykir, að hinum umdeildu gjöfum hafi verið varið í þágu þeirra málefna og starfsemi sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 1. tl. 1. mgr. 31. gr., sbr. 2. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er krafa kæranda því tekin til greina. Um 2. Samkvæmt gögnum málsins samþykkti félagsstjórn kæranda, sem er hlutafélag, þann 27. október 1979, að ekkja forstjóra félagsins héldi eftirlaunum hans meðan hún lifði. Óumdeilt er, að ekki var um að ræða réttindanautn í lífeyrissjóðum í því tilviki sem hér um ræðir. Af hálfu kæranda er því haldið fram, að eftirlaun þessi og makalífeyrir til ekkju starfsmannsins séu tilkomin, þar sem lífeyrisréttindi hafi ekki verið fyrir hendi, og því aldrei komið til þess, að kærandi fengi frádregin tillög til lífeyrissjóðs hans vegna. Þótt hér sýnist eigi vera um óskoraða samningsbundna skyldu að ræða til þess að inna af hendi umræddar greiðslur þá þykir eftir atvikum og að virtum ákvæðum laga nr. 55, 9. júní 1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, mega fallast á kröfu kæranda.