Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 674/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 2. gr.  

Andlag eignarskattsálagningar — Arfur — Ákvörðun eignarskattsstofns — Búskipti — Dánarbú — Eignarréttaryfirfærsla — Erfðaskrá — Erfingjar — Gjaftökumenn

I

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda, sem er dánarbú undir skiptum, var ekki skilað skattframtali á tilskildum tíma árið 1980. Skattstjóri áætlaði búinu því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Gjaldstofna sýnist skattstjóri hafa áætlað þannig, að eignarskattsstofn hafi verið ákvarðaður hrein eign til skatts gjaldárið 1979 1 142 041 000 kr., en það ár var talið fram af hálfu kæranda, að viðbættum 60% eða 685 224 600 kr. eða eignarskattsstofn alls 1 827 265 600 kr. og eignarskattur því 22 146 459 kr. Tekjuskattsstofn sýnist hafa verið reiknaður 2,7% af eignarskattsstofni eða 49 336 171 kr.

Með bréfi dags. 23. desember 1980 sendi umboðsmaður kæranda skattstjóra ársreikning kæranda fyrir árið 1979. Aðilar voru tilgreindir gjafþegar arfleifenda. Var þar um að ræða opinberar stofnanir, líknar- og menningarstofnanir svo og minningarsjóðir arfleifenda. Var gerð grein fyrir því hvernig arfurinn skiptist milli aðila. Þá var þess getið, að búskiptin tækju nokkurn tíma sökum umfangs búsins. Þá væru eignir í útleigu samkvæmt eldri leigusamningum, sem taka þyrfti tillit til. Koma þyrfti eignum í verð, en erfðafjárskattur væri greiddur jafnharðan og eignir seldust. Meginkrafa kæranda var sú, að dánarbúið yrði, að því er gjafþega snertir, talið skattfrjálst samkvæmt 6. tl. 4. gr. laga nr. 40/ 1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Rökin voru þau, að tilgreindir viðtakendur eigna búsins væru allir skattfrjálsir samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Með vísan til þess og með hliðsjón af því, að óhjákvæmileg atvik leiddu til þess að nokkurn tíma tæki að ganga frá skiptum bæri að telja búið skattfrjálst að því er þessa aðila varðaði.

Með úrskurði dags. 13. febrúar 1981 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Tók skattstjóri fram, að sú væri meginreglan um dánarbú, að það skoðaðist sjálfstæður skattaðili frá dánardægri til þess dags er skiptum væri formlega lokið. Grundvöllur skattlagningar á þessum tíma væru tekjur þær sem til búsins féllu og þær eignir sem í því stæðu. Skattstjóri lagði innsendan ársreikning til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1980 án álags í stað fyrri áætlunar með nokkrum breytingum sem hann gat um í úrskurði sínum. Með úrskurði dags. 27. febrúar 1981 endurupptók skattstjóri fyrri úrskurð vegna tölulegra skekkna sem fram hefðu komið í honum og ákvarðaði opinber gjöld að nýju.

II

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 27. mars 1981. Er vísað til röksemda í kæru til skattstjóra dags. 23. desember 1980.

III

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 7. maí 1981 að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd, þar sem eigi liggi fyrir undirritað skattframtal af hálfu kæranda, sbr. 91. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

IV

Skattstjóri hefur byggt álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1980 á þeim gögnum sem af hálfu kæranda voru lögð fram. Svo sem málið liggur fyrir verður eigi talið að loku sé skotið fyrir það, að kæran til ríkisskattanefndar verði tekin til efnismeðferðar. Að tilhlutan ríkisskattanefndar hefur af kæranda hálfu verið lögð fram erfðaskrá sú, dags. 31. ágúst 1971, svo og viðbótarerfðaskrá, dags. 3. júlí 1974, sem skipti í nefndu dánarbúi grundvallast á. Einnig hafa af kæranda hálfu verið lögð fram nokkur skiptaskjöl. Dánarbúið lýtur opinberum skiptum og annast skiptaforstjórar þau. Samkvæmt erfðaskránum skiptast eignir eftir lát beggja hjóna milli lögerfingja annars vegar og gjafþega (legatara) hins vegar svo sem þessir tveir flokkar erfingja eru skilgreindir. í bréfi kæranda, dags. 23. desember 1980, til skattstjórans í Reykjavík kemur fram, að lögerfingjar hafa fengið í sinn hlut eignir þær, sem þeim ber í dánarbúinu, sem og styðst við erfðaskrárákvæðin. I bréfinu er frá því skýrt, að þeir aðilar, sem hlutdeild eigi í „reikningsskilum dánarbúsins“, séu aðilar, sem allir njóti skattfrelsis samkvæmt lögum. Samkvæmt erfðaskránum skulu tilgreindar eignir arfleifenda, þ. e. a. s. sérstaklega tilteknar fasteignir og andvirði eignarhluta í firma o. fl., skiptast milli ákveðinna aðila á þann hátt sem nánar er ákveðið í erfðaskránum. Þessir aðilar eru ríkissjóður, Reykjavíkurborg, tilgreindar opinberar stofnanir, menningar- og líknarfélög svo og minningarsjóðir, sérstaklega stofnaðir samkvæmt erfðaskrárákvæðum. Tilgreindar fasteignir svo og allt það sem ótalið er í erfðaskrám og til verðmæta telst skyldi renna til lögerfingja. Eru lögerfingjar erfingjar í þrengri skilningi þess orðs, en aðrir örlætisnjótar, sem samkvæmt framansögðu erfa ákveðnar eignir arfláta, gjafþegar (legatarar) svo sem að framan segir. í lögum, m. a. skiptalögum, er greint á milli þessara tveggja flokka erfingja, erfingja í þrengri merkingu og gjafþega, og er réttarstaða þeirra við skipti mismunandi. Svo mun litið á, að gjafþegar öðlist rétt til einstakra eigna, sem þeim hlotnast samkvæmt erfðaskrá, þegar við andlát arfleifanda, en eigi fyrst við síðari afhendingu hlutaðeigandi eigna til þeirra, enda eigi búið fyrir skuldum og arfleifandi eigi farið út fyrir arfleiðsluheimild sína.

Þegar litið er til þessa, ákvæða erfðaskránna og þess sem upplýst er um í málinu, að fært hafi verið hjá dánarbúinu árið 1979, þ. e. a. s. eignir tilheyrandi fyrrnefndum gjafþegum að einstökum eignum, eru kröfur kæranda teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja