Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 688/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 38. gr., 44. gr., 59. gr.  

Reiknað endurgjald — Vextir — Íbúðarlán — Tilefnislaus kæra

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1981 og eru kæruatriði sem hér greinir: 1. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að færa kæranda til tekna 5 000 000 kr. sem reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur á árinu 1980, en kærandi hafði ekki fært sér slíkt endurgjald til tekna í framtali sínu. Krefst kærandi þess að sú ákvörðun skattstjóra verði felld niður. Hann fái ekki séð að lög standi til þess að honum sé reiknað endurgjald, þar sem

með því myndist tap á rekstri, sem sé hærra en fyrningar skv. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Vitnar kærandi til ákvæða 59. gr. þeirra laga þar sem segir að við ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi skuli taka tillit til launatekna frá öðrum, sem hafi numið 20 745 677 kr., og að ákvörðunin samkvæmt þeirri grein megi aldrei mynda tap, sem sé meira en nemi samanlögðum almennum fyrningum skv. 38. gr. laganna og gjaldfærslu skv. 53. gr. þeirra. Skattstjóri hafnaði kröfu kæranda á þeim forsendum að skv. 59. gr. skattalaganna bæri kærandi að reikna sér endurgjald af eigin rekstri, en þetta hafi hann ekki gert og hafi þá skattstjóra borið að áætla honum það. Gjaldandi noti heimild í 44. gr. laganna til að fyrna á móti tekjufærslu vegna verðbreytingar, en í þeirri grein segir að ekki megi mynda tap með þeirri fyrningu. Bæri kæranda því að lækka þá fyrningu svo að ekki sé um tap að ræða.

  1. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að heimila ekki til frádráttar tekjum vexti af tilteknum lánum. I kæruúrskurði sínum taldi skattstjóri að vextir af lánum sem tekin væru til að framlengja byggingarskuldir væru ekki frádráttarbærir. Krefst kærandi þess að þeirri ákvörðun verði hnekkt og færir að því rök í kæru sinni til ríkisskattanefndar.

Með bréfi dags. 1. október 1982 krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Um 1, Rekstrarreikningur sá sem fylgir skattframtali kæranda sýnir rekstrarhalla á árinu 1980 að fjárhæð 247 964 kr. Fyrning samkvæmt heimildarákvæðum 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, nema samkvæmt fyrningarskýrslu 11 713 500 kr. og hafa þá verið ofreiknaðar um 300 000 kr. Fjárhæð gjaldfærðra almennra fyrninga skv. 38. gr. laganna nemur 1 609 188 kr. Að virtum atvikum og með vísan til lokamálsliðar 1. mgr. 59. gr. sömu laga er hið reiknaða endurgjald ákvarðað með 1 661 224 kr. og verður þá yfirfæranlegt rekstrartap til næsta árs 1 609 188 kr.

Um 2. Ekki verður séð í gögnum málsins að við álagningu gjalda hafi skattstjóri breytt tilfærðum vaxtafrádrætti í skattframtali kæranda 1981. Er því kæran tilefnislaus að því er þetta kæruatriði varðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja