Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 719/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 60. gr., 61. gr., 96. gr.  

Bóksala — Umboðssala — Tekjutímabil — Tekjuuppgjör — Tekjufærsla — Framkvæmdarvenja — Venja — Endurákvörðun

Málavextir eru þeir, að í framhaldi af athugun á bókhaldi kæranda árið 1981 tók skattstjóri fyrir þann 4. júní 1982 að endurákvarða opinber gjöld kæranda gjaldárið 1981. Hækkaði skattstjóri hreinar tekjur til skatts um 3 837 618 kr. að viðbættum 25% viðurlögum eða alls um 4 797 022 kr. Leiddi þessi hækkun til lækkunar á yfirfæranlegu tapi úr 8 524 514 kr. í 3 727 492 kr. Skattstjóri taldi, að tekjufærslu bóka í umboðssölu væri ekki réttilega háttað. Umboðssala bóksala á árinu 1980, sem numið hefði 3 837 618 kr. samkvæmt skilagreinum, hefði fyrst verið tekjufærð á árinu 1981, þ. e. a. s. við uppgjör bóksala. Tekjur bæri að telja til tekna á því ári sem þær mynduðust, nema um óvissar tekjur væri að ræða, sbr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eigi féllst skattstjóri á, að löng framkvæmd af hálfu kæranda, sem skattyfirvöld hefðu ekki gert athugasemdir við, helgaði þessa tilhögun. Vísaði skattstjóri til Hrd. 1958:297.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að breytingu skattstjóra verði hrundið og sú regla verði viðurkennd, sem viðhöfð hafi verið við tekjufærslu söluandvirðis bóka í umboðssölu. Tekjufærslan hafi farið fram, þegar ljóst hafi verið, hversu mikill hluti bóka væri seldur samkvæmt skilagreinum, sem bóksalar senda á tímabilinu mars-maí. Salan hafi því verið tekjufærð ári eftir að bækur bárust bóksölum. Ekki sé vitað um áramót, hversu mikill hluti bókanna hafi selst. Tekjurnar skili sér á þremur til fimm mánuðum eftir hver áramót. Þessi háttur hafi verið á hafður í þrjá áratugi og reynst vel.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 16. ágúst 1982 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þegar litið er til þess, hversu háttað er fyrirkomulagi á bóksölu milli bókaútgefenda og bóksala samkvæmt samningum þessara aðila sín á milli með tilliti til þess þáttar, sem lýtur að bókum seldum í umboðssölu, svo og þess, að þessi skipan á sér langa hefð, þá verður eigi talið, að 2, mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, girði fyrir þá tilhögun sem kærandi hefur viðhaft og leiðir af nefndu fyrirkomulagi. Er því fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja