Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 739/1982

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 99. gr., 100. gr.   Lög nr. 119/1978, ákvæði til bráðabirgða   Lög nr. 7/1980, 45. gr., 49, gr., 58. gr.   Lög nr. 40/1978, 99. gr., 118. gr.   Lög nr. 68/1971, 40. gr., 41. gr.  

Endurupptaka ríkisskattanefndar — Rekstrartap — Gildistaka skattalagabreytinga — Kæruúrskurður — Kæruheimild — Tengsl eldri laga og yngri — Lögskýring

Með bréfi dags. 31. ágúst 1982 fer umboðsmaður kæranda þess á leit, að úrskurður ríkisskattanefndar nr. 392, dags. 12. september 1980, verði endurupptekinn og úrskurður lagður á kæru kæranda, dags. 16. júlí 1979, að nýju með vísan til efnisatriða málsins og ákvæða núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt um úrskurðun á skattstofnum.

Með bréfi dags. 18. október 1982 gerir ríkisskattstjóri þá kröfu, að beiðninni verði hafnað, þar sem eigi verði séð að skilyrði séu fyrir hendi til endurupptöku.

Í nefndum úrskurði ríkisskattanefndar, sem varðaði gjaldárið 1978, varð niðurstaðan sú, að kærunni skyldi vísað frá. Forsendur fyrir frávísuninni voru þær, að kæranda var ekki gert að greiða tekjuskatt gjaldárið 1978. Kæran laut að gjaldfærðum ferðakostnaði, sem skattstjóri hafði lækkað. Málið varðaði því fjárhæð rekstrartaps. Var talið, að kæruheimild samkvæmt 40. og 41, gr. þágildandi laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, næði aðeins til álagðs skatts en ekki annarra atriða sem skattframtal hefði að geyma.

Krafa kæranda varðar endurupptöku úrskurðar nr. 392, 12. september 1980, og uppkvaðningu nýs úrskurðar varðandi gjaldárið 1978, þar sem ákvörðuð verði fjárhæð rekstrartaps. Er í þeim efnum vísað til ákvæða núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 99. gr. þeirra, þar sem ákvörðun um rekstrartap sé kæranleg. Ákvæði 1, málsl. 1. mgr. 99 gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. a-lið 45. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum, komu til framkvæmda við álagningu skatta á árinu 1980 vegna tekna ársins 1979 og eigna í lok þess árs, sbr. 118. gr. laga nr. 40/1978, er varð 123. gr. laganna, sbr. 49. gr. laga nr. 7/1980, og ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 119/1978 og 58. gr. laga nr. 7/1980. Samkvæmt þessu verður fyrrgreindur úrskurður, sem varðar gjaldárið 1978, eigi endurupptekinn í tilefni breyttra lagaákvæða sem hér hafa verið nefnd. Með vísan til þessa og þar sem erindið varðar eigi úrskurð skattstjóra, sem kæranlegur er til ríkisskattanefndar, sbr. 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er beiðninni hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja