Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 748/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 44. gr.  

Sérstök fyrirframfyrning — Varanlegir rekstrarfjármunir — Fyrirframfyrning — Beinn fjármagnskostnaður — Byggingartími — Eignfærsla fjármagnskostnaðar — Upphaf notkunar — Vaxtagjöld — Húsbygging — Húsbyggingarskýrsla — Sönnun — Uppruni fjármagns — Sérstök fyrning — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Verðbreytingarfærsla

I

Málavextir eru þeir, að skattstjóri felldi niður sérstaka afskrift fasteignar í eigu kæranda að fjárhæð 8 539 662 kr. á þeim forsendum, að skilyrði 1. málsl. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væru ekki uppfyllt, þar sem ekki yrði séð af húsbyggingarskýrslu, sem fylgdi skattframtalinu, að beinn fjármagnskostnaður hefði verið eignfærður. í kæru til skattstjóra, dags. 6. október 1982, mótmælti kærandi niðurfellingunni. Beinn fjármagnskostnaður hefði veríð færður á byggingarkostnað og væri hann innifalinn í liðnum ýmislegt að fjárhæð 54 340 kr. Meiru hefði fjármagnskostnaðurinn ekki numið, þar sem lán hefðu ekki fengist til byggingarinnar. Hafi því verið horfið að því ráði að auka hlutafé félagsins til þess að þoka byggingunni áfram. Vaxtakostnaður, sem gjaldfærður væri, væri af vélalánum og vegna daglegs rekstrar. Samkvæmt þessu væru skilyrði 1. málsl. 2. mgr. 44. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt uppfyllt. í kæruúrskurði dags. 15. janúar 1982 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. í fylgiskjali með úrskurðinum sýndi skattstjóri uppruna og ráðstöfun fjármagns áranna 1979 og 1980 samkvæmt skattframtölum. Með skírskotun til þess og með hliðsjón af greiddum vaxtagjöldum árið 1980, er námu 4 143 414 kr., taldi skattstjóri hluta nýbyggingar í fjármagnskostnaði ársins 1980 vanmetinn, þar sem ætla mætti, að fjármagnskostnaður væri meiri en færður væri á húsbyggingarskýrslu. Yrði því að telja, að kærandi hefði ekki gert fullnægjandi grein fyrir lágum eignfærðum fjármagnskostnaði vegna húsbyggingar í kæru félagsins eða í skattframtali þess. Skattstjóri tók fram, að samkvæmt skattframtali kæranda væri svigrúm til fyrningar samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, með því að sú fyrning færi fram í vélum kæranda. Krafa um slíkt hefði hins vegar ekki verið höfð uppi í málinu og því væri sú fyrning ekki færð.

II

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 10. febrúar 1982. T bréfi dags. 29. mars 1982 barst rökstuðningur kæranda. Þar segir, að samkvæmt sundurliðun á vaxtakostnaði ársins 1980 hefði komið í ljós, að gjaldfærðir vextir að fjárhæð 4 143 414 kr. væru vegna eftirgreindra liða: Rekstri 1 416 783 kr., vélafjárfestingu 2 112 807 kr. og nýbyggingu 613 824 kr. Hefði því tilgreining vaxtakostnaðar vegna nýbyggingar í bréfi kæranda, dags. 6. október 1982, verið röng og því þess farið á leit, að það verði leiðrétt í samræmi við sundurliðunina. Vaxtagjöld næmu alls 668 164 kr. á árinu 1980 vegna nýbyggingar að X-búð 6, Garðabæ, og þar af væru 613 824 kr. innifaldar í vaxtagjöldum ársins, sem óskað væri eftir að yrði eignfært, og á móti komi afskrift á fasteignum, svo sem í upphafi hefði verið gert, að því hámarki sem lög leyfðu. Til vara fer kærandi fram á, að fyrningar verði færðar á vélar, ef fyrning leyfist ekki vegna nýbyggingar.

III

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 18. október 1982 að kröfu kæranda um sérstakar fyrirframfyrningar verði hafnað. Skilyrði fyrir slíkri fyrningu samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt sé að beinn fjármagnskostnaður á byggingartíma hafi verið eignfærður. Við framtalsgerð á árinu 1980 hafi kærandi valið þá aðferð að gjaldfæra fjármagnskostnað og nýta sér ekki heimild samkvæmt lagaákvæðinu. Væri hann bundinn af þeirri ákvörðun. Að auki þætti kærandi ekki hafa gert nægjanlega grein fyrir lágum fjármagnskostnaði vegna húsbyggingar, en af skattframtali 1980 mætti ráða að verulegur hluti skuldaaukningar hefði runnið til húsbyggingar.

IV

Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er heimilt að fyrna sérstakri fyrirframfyrningu þá varanlegu rekstrarfjármuni sem ætlaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri, sbr. 32. gr. laganna, en ekki hafa verið teknir í notkun í ársbyrjun, enda hafi beinn fjármagnskostnaður á byggingartíma verið eignfærður. Skal hundraðshluti þessarar fyrirframfyrningar nema að hámarki sama hundraðshluta og tekjufærsla samkvæmt 53. gr. laganna og reiknast hann af fjárhæð sem er jafnhá fjárfestingu í þessum rekstrarfjármunum í lok næst liðins árs. Fyrirframfyrning samkvæmt þessari málsgrein og 2. málsl. 1. mgr. skal þó aldrei vera hærri en nemur heildarfjárhæð tekjufærslu samkvæmt 53. gr. laganna vegna hlutaðeigandi árs. Samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir liggja í máli þessu, lagði kærandi í umrædda húsbyggingu 973 500 kr. árið 1978, 11 689 729 kr. árið 1979 og 12 152 551 kr. árið 1980. Enginn fjármagnskostnaður er eignfærður á þessum byggingartíma nema 54 340 kr. árið 1980, sem kærandi telur að hækka beri um 613 824 kr. Fjárfesting í vélum sýnist nema 758 504 kr. árið 1978, 3 779 490 kr. árið 1979 og 7 840 945 kr. árið 1980. Hlutafé var aukið árið 1980 úr 2 100 000 kr. í 9 600 000 kr.

Þegar litið er til þessa og að virtum þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu um uppruna fjármagns, þ. m. t skuldaaukning, svo og ráðstöfun þess, þykir kærandi eigi hafa leitt af því næg rök, að uppfyllt hafi verið skilyrði 2. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um eignfærslu beins fjármagnskostnaðar á byggingartíma. Hins vegar þykir mega fallast á varakröfu kæranda um fyrningu véla um fjárhæð allt að 40% af tekjufærslu vegna verðbreytingar, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. nefndra laga.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja