Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 769/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 85/1936, 75. gr. Lög nr. 32/1978 Reglugerð nr. 81/1962, 2. mgr. 8. gr. Lög nr. 75/1981, 100. gr. Lög nr. 73/1980, 33. gr., 36. gr., 39. gr., 40. gr.
Kröfugerð ríkisskattstjóra — Föst starfsstöð — Kæruheimild sveitarfélags — Aðstöðugjald — Skattlagningarstaður — Hlutafélag — Lögheimilissveitarfélag — Lögheimili — Þinghá — Heimilisföst atvinnustofnun — Námarekstur — Fasteignaafnot — Málflutningsumboð ríkisskattstjóra
Kærð er álagning aðstöðugjalds vegna fyrirtækisins X hf. gjaldárið 1981.
Málavextir eru þeir að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1981 gerði skattstjóri Suðurlandsumdæmis fyrirtækinu X hf., Rangárvallasýslu, að greiða aðstöðugjald til Ölfushrepps, Árnessýslu, að öllu leyti. Samkvæmt greinargerð um aðstöðugjaldsstofn, dags. 17. júlí 1981, sem fylgdi skattframtali fyrirtækisins árið 1981, var starfsstaður talinn í Þorlákshöfn, Ölfushreppi, og starfsemi fyrirtækisins sögð vikurútflutningur, Aðstöðugjaldsstofn var tilgreindur í greinargerð þessari 308 642 632 kr. og álagt aðstöðugjald var í gjaldstigi 1,3% og nam 4 012 000 kr., sem skattstjóri ákvað að félli til Ölfushrepps svo sem að framan segir. Samkvæmt tilkynningu til Hlutafélagaskrár Rangárvallasýslu, dags. 17. október 1976, birtri í Lögbirtingablaði, er heimili og varnarþing hlutafélagsins X í Holtahreppi, Rangárvallasýslu samkvæmt félagssamþykktum, dags. sama dag. Tekið er fram, að útibú séu engin. Tilgangur hlutafélagsins er samkvæmt samþykktum þess könnun og rannsóknir á arðvænlegum iðnrekstri á Suðurlandi, sem byggður sé á jarðefnum og orku héraðsins, undirbúningur að stofnun rekstursfyrirtækja um slíkan iðnað, eignaraðild að slíkum rekstursfyrirtækjum og allt það, sem starfsemi þessi þarfnast eða henni kann að fylgja.
Af hálfu sveitarstjórnar Holtahrepps var fyrrgreindri ákvörðun skattstjóra um álagningu aðstöðugjalds ekki unað og með kæru dags. 18. nóvember 1981 krafðist umboðsmaður sveitarstjórnarinnar þess, að aðstöðugjald álagt á X hf. gjaldárið 1981 yrði talið Holtahreppi, sem væri lögheimilissveit fyrirtækisins. Þá hefði starfsemi fyrirtækisins einvörðungu verið í því fólgin að flytja út vikur, sem numinn væri úr landi Holtahrepps að mestu leyti. Vikrinum væri skipað út í Þorlákshöfn og hefðu vörubifreiðastjórar í Rangárvalla- og Árnessýslum annast alla flutninga til Þorlákshafnar. Engin starfsemi færi fram í Þorlákshöfn önnur en útskipun efnisins.
Með bréfi dags. 28. maí 1982 óskaði skattstjóri eftir því við X hf., að fyrirtækið gæfi nánari upplýsingar um starfsemi sína á árinu 1980, s. s. hvar efnistaka hefði farið fram, umfang hennar á hverjum stað, um aðstöðu fyrirtækisins, svo sem afnot af fasteignum vegna birgðageymslu, skrifstofuhalds og stjórnunar. Tekið var fram, að beðið væri um þessar upplýsingar vegna fyrrgreindrar kæru lögheimilissveitarfélags fyrirtækisins, Holtahreppi, út af álagningu aðstöðugjalds. Svar fyrirtækisins barst í bréfi dags. 10. júní 1982. í bréfinu var tekið fram, að efnistaka færi jöfnum höndum fram í landi Gnúpverjahrepps og Holtahrepps gegn ákveðnu efnistökugjaldi, sem rynni til hlutaðeigandi sveitarfélaga. Um álíka magn væri að ræða á hvorum stað. Vikurgeymsla væri í Þorlákshöfn og hefði þar verið fastur starfsmaður til haustsins 1981 með aðstöðu til nauðsynlegasta skrifstofuhalds. Stjórnun og skrifstofa félagsins hefði verið í Reykjavík. í bréfi þessu segir, að ef til vill megi telja, að Þorlákshöfn sé miðpunktur umsvifa fyrirtækisins, þegar akstur og útskipun eiga sér stað.
Með úrskurði dags. 21. júní 1982 hafnaði skattstjóri kröfum Holtahrepps, í forsendum sínum vísar skattstjóri til fyrirliggjandi upplýsinga um starfsemi X hf. á árinu 1980 í ársreikningi þess, greinargerð um aðstöðugjaldsstofn og fyrrnefndu bréfi, dags. þann 10. júní 1982. Þá tekur skattstjóri fram, að samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár Rangárvallasýslu, sem hefði birst í 42. tölublaði Lögbirtingablaðs 1977, væri hlutafélagið X skráð með heimili í Holtahreppi. Ekki verði þó séð að félagið hafi þó haft neitt aðsetur þar eða aðstöðu á starfstíma sínum. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga væri sveitarstjórnum heimilt að innheimta aðstöðugjald í sveitarsjóð hjá þeim aðilum, sem stunduðu atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í sveitarfélaginu. 140. gr. laganna segði, að heimilt væri að innheimta aðstöðugjald hjá aðila, sem stundaði atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í öðru sveitarfélagi en þar sem hann ætti lögheimili eða hefði
atvinnurekstur sinn, ef hann ræki þar fiskkaup, fiskverkun, hefði þar með höndum húsbyggingar eða aðra mannvirkjagerð eða hefði þar heimilisfasta atvinnustofnun, svo sem útibú, og yrði þá ekki lagt á hann aðstöðugjald að því leyti annars staðar. Skattstjóri tók fram, að af þessu lagaákvæði mætti ráða, að skráning lögheimilis réði ekki úrslitum um það, hvaða sveitarstjórn væri heimilt að innheimta aðstöðugjald, heldur færi það eftir því, hvar atvinnustarfsemin færi fram. Af ársreikningi hlutafélagsins og skýringum þess mætti ráða, að eina starfsemin, sem fram hefði farið í Holtahreppi, væri efnistaka. Þar sem efnistakan væri óverulegur þáttur í heildarstarfseminni, yrði ekki á það fallist, að hún leiddi til aðstöðu-gjaldsskyldu í sveitarfélaginu. Birgðasöfnun, útskipun og útflutningur færi fram í Þorlákshöfn og yrði því ekki annað séð en þar væri eðlilegt að telja að aðalstarfsemi félagsins færi fram.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu sveitarstjórnar í Holtahreppi verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 20. júlí 1982. Þess er krafist, að álagt aðstöðugjald gjaldárið 1981 renni til Holtahrepps. Þau rök eru færð fram, að hlutafélagið X sé með skráð lögheimili í Holtahreppi. Öll starfsemi félagsins hafi verið í því fólgin að flytja út vikur, sem tekin hafi verið að mestu leyti úr landi Holtahrepps. Útflutningshöfn félagsins hafi verið Þorlákshöfn og hafi vörubifreiðastjórar í Rangárvalla- og Árnessýslum annast flutninga fyrir félagið til Þorlákshafnar.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 5. nóvember 1982 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Við gagnaathugun sýnist aðalstarfsemi kæranda fara fram í Ölfushreppi, þar sem birgðasöfnun, útskipun og útflutningur fari fram. í samanburði við það teljist efnistakan óveruleg.
Í máli þessu er eigi deilt um fjárhæð álagðs aðstöðugjalds heldur varðar það ágreining um það, hvaða sveitarfélagi sé heimil innheimta þess aðstöðugjalds alls, sem á X hf. var lagt gjaldárið 1981. í reynd varðar mál þetta einungis hagsmuni sveitarfélaga, þar sem af hálfu gjaldanda hafa engar athugasemdir verið gerðar við álagningu aðstöðugjalds á hann gjaldárið 1981, en við meðferð málsins hjá skattstjóra fékk gjaldandi vitneskju um það. Kærandi í máli þessu er sveitarstjórn Holtahrepps, sem gerir kröfu til aðstöðugjaldsins. Aðstöðugjaldið var lagt til Ölfushrepps, Árnessýslu, við álagningu gjaldárið 1981. Sjónarmið þess sveitarfélags liggja ekki fyrir í málinu. Samkvæmt lokamálsgrein 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er ríkisskattstjóri lögskipaður umboðsmaður gjaldkrefjenda fyrir ríkisskattanefnd í málum út af kærum um gjöld, sem skattstjórar leggja á samkvæmt ákvæðum laga um þau efni. Ríkisskattstjóri hefur lagt fram kröfugerð sína í máli þessu. Verður því að telja með skírskotun til nefnds lagaákvæðis, að þar komi fram hagsmunagæsla gjaldkrefjenda í málinu.
Samkvæmt gögnum málsins hafði X hf. eigi rekstur með höndum árin 1978 og 1979, en varði þau ár fé til rannsókna og undirbúningsframkvæmda auk hlutafjárkaupa í Y hf. Á árinu 1980 hafði hlutafélagið hins vegar efnistöku og útflutning vikurs með höndum og voru einu rekstrartekjur félagsins af þeirri starfsemi þess. Gögn málsins sýnast gefa vísbendingu um það, að hér hafi verið um tímabundna og tilfallandi starfsemi að ræða, enda verður eigi séð að skráður tilgangur félagsins taki til hennar. Vikurinn var numinn jöfnum höndum í Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, og Holtahreppi, Rangárvallasýslu, og eftir því sem upplýst er í málinu af hálfu framkvæmdastjóra hlutafélagsins var þar um álíka magn að ræða. Ber staðhæfingum umboðsmanns kæranda í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 20. júlí 1982, eigi saman við þessar upplýsingar framkvæmdastjórans. Fram kemur í ársreikningi X hf. fyrir árið 1980, nánar tiltekið í ársskýrslu hans, að fluttir hafi verið út á árinu 1980 fimm farmar af vikri. Þá kemur þar fram, að vinnuaflsnotkun við útskipun hafi numið liðlega starfi eins ársmanns. Að öðru leyti hafi vinna og þjónusta verið aðkeypt, þ. á m. ámokstur í námum, akstur og önnur aðkeypt þjónusta við útskipun og akstur til birgðastöðvar, en hið síðastnefnda er langstærsti gjaldaliður fyrirtækisins. Þá kemur fram, að birgðastöð eða vikurgeymsla sé í Þorlákshöfn, sbr. bréf framkvæmdastjóra dags. 10. júní 1982. Eigi verður þó ráðið af gögnum málsins, að félagið hafi þó haft þar afnot fasteigna, þar sem hvorki kemur fram að félagið eigi fasteignir né hafi greitt fyrir afnot slíkra eigna. Þá kemur fram í málinu, að skrifstofa hlutafélagsins sé í Reykjavík að því undanskildu að nauðsynlegasta aðstaða til skrifstofuhalds hafi verið fyrir hendi í Þorlákshöfn vegna birgðastöðvar.
Eftir því sem fram kemur í máli þessu hefur starfsemi X hf. rekstrarárið 1980 farið fram í fjórum sveitarfélogum, lögheimilissveit félagsins Holtahreppi, Gnúpverjahreppi, Ölfushreppi og Reykjavík, þar sem skrifstofuhald félagsins fer fram. Eigi verður talið, að hlutafélagið hafi haft aðalatvinnurekstur sinn í neinu sveitarfélaganna. Þegar virt er starfsemi félagsins í Ölfushreppi og rekstraraðstaða þess þar, verður eigi talið að hún hafi verið slík, að félagið hafi haft þar heimilisfasta atvinnustofnun samkvæmt ákvæðum a-liðs 1. mgr. 40. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 81/1962, um aðstöðugjald. í því sambandi skal tekið fram, að svo hefur verið litið á, að afnot hafnarmannvirkja séu eigi þess eðlis, að þau geti talist afnot af fasteignum í skilningi nefnds reglugerðarákvæðis, en svo sem að framan greinir bera gögn málsins eigi með sér, að X hf. nýti sér fasteignir að öðru leyti í Ölfushreppi vegna útskipunarþarfa sinna þar. Högum hlutafélagsins er svo háttað, að það er skráð til heimilis í Holtahreppi samkvæmt samþykktum sínum, sbr. skráningu í hlutafélagaskrá, án þess þó að aðalskrifstofa félagsins sé þar eða föst starfsstöð. Hluti atvinnurekstrar félagsins, þ. e. a. s. efnistaka, fer hins vegar þar fram, Eigi áskilja lög nr. 32/1978, um hlutafélög, að heimilisfesti hlutafélags og aðalskrifstofa séu í sama sveitarfélagi og samkvæmt 75. gr. laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, verður félag sótt í þinghá, þar sem það er skrásett að eiga heima. Samkvæmt framansögðu verður því hér á því byggt að heimilisfang félagsins og varnarþing teljist í Holtahreppi, Rangárvallasýslu, án tillits til þess hvar stjórnun og skrifstofuhald þess er rekið. Eigi verður ráðið af gögnum málsins, að félagið hafi nein fasteignaafnot í Reykjavík eða Gnúpverjahreppi. Með tilliti til þessa og atvinnurekstrar félagsins í Holtahreppi og að því virtu, að eigi verður talið, að það hafi aðalatvinnurekstur sinn í neinu þeirra sveitarfélaga, þar sem starfsemi þess fer fram, þá verður með tilvísun til 1. málsl, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, að telja hlutafélagið að öllu leyti aðstöðugjaldsskylt í heimilissveit sinni, Holtahreppi, Rangárvallasýslu, gjaldárið 1981. Samkvæmt þessu eru kröfur sveitarfélagsins í máli þessu teknar til greina.