Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 792/1982

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 2. mgr. 30. gr., 63. gr.  

Sköttun hjóna — Frádráttarheimild — Fastur frádráttur — Lágmarksfjárhæð fasts frádráttar — Lagaheimild — Jafnræðisreglan — Lögskýring

Kærendur, sem eru í hjúskap, og voru skattlagðir samkvæmt ákvæðum 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ. e. a. s. eftir reglum þeim sem gilda um hjón sem samvistum eru, kröfðust þess í kæru til skattstjóra, dags. 25. ágúst 1982, að þeim yrði ákvarðaður lágmarks fastur frádráttur samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 30. gr. nefndra laga. Með úrskurði dags. 6. september 1982 hafnaði skattstjóri kröfunni. Tók skattstjóri fram, að einhleypingar og einstæð foreldri nytu lágmarks fasts frádráttar, en hjón eigi. Skorti því lagaheimild til þess að verða við kröfunni.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru sem barst þann 24. september 1982. Telja kærendur, að þeim beri lágmarks fastur frádráttur að fjárhæð 11 962 kr. fyrir hvort þeirra gjaldárið 1982, ella væri um að ræða óhæfilega mismunun í skattlagningu milli hjóna annars vegar og einhleypinga og sambýlisfólks hins vegar. Sé þetta andstætt þeim jafnræðishugmyndum sem legið hafi að baki hinna nýju laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu ríkisskattstjóra er krafist með bréfi dags. 18. október 1982 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er skattaðilum heimilað að draga 10% af tekjum samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. laganna, þegar frá þeim hafa verið dregnir þeir liðir sem um ræðir í 1.—6. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laganna, í stað frádráttar samkvæmt D- og E-liðum 1. mgr. síðastnefndrar lagagreinar. Hjón sem skattlögð eru samkvæmt 63. gr. laganna skulu bæði velja sömu frádráttarreglu að þessu leyti. Hjá öðrum mönnum en þeim, sem skattlagðir eru eftir þeim reglum sem gilda um hjón, sbr. 63. gr., skal þessi frádráttur aldrei vera lægri en tiltekin lágmarksfjárhæð. Hjá einstæðum foreldrum skal þessi lágmarksfrádráttur vera 75% hærri en hin tiltekna lágmarksfjárhæð. Kærendur voru skattlögð eftir þeim reglum, sem gilda um hjón sem samvistum eru, og greinir í títtnefndri 63. gr. laga nr. 75/1981, og er eigi deilt um það, að hjúskaparstöðu hafi verið á þann veg farið. Kærendur telja hins vegar, að beiting skattstjóra á frádráttarreglu 2. mgr. 30. gr. nefndra laga feli í sér mismunun í skattlagningu. Meðferð skattstjóra styðst við ótvíræð lagaákvæði svo sem að framan greinir. Skortir því lagaheimild til þess að verða við kröfu kærenda. Þykir því bera að staðfesta hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja