Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 814/1982
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 2. mgr. 95.gr., 106. gr.
Álag — Álagsbeiting — Framtalsskil — Óviðráðanleg atvik — Vítaleysisástæður — Lögskýring
Kærð er sú ákvörðun skattstjóra við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1982 að beita 25% viðbótarálagi á gjaldstofna vegna of seint framkomins skattframtals, en það barst skattstjóra í kærufresti. Er þess krafist að álagið verði fellt niður. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar styður umboðsmaður kærenda kröfu sína í fyrsta lagi með þeim rökum, að umbjóðendur sínir hafi falið sérstökum bókhaldsaðila að annast fyrir sig gerð skattframtals árið 1982 og ársuppgjörs vegna ársins 1981. Hafi þeir treyst því að í alla staði væri rétt og lögum samkvæmt staðið að skattframtali þeirra 1982 og því skilað á réttum tíma. Yrði umbjóðendum sínum eigi um það kennt að framtalið barst ekki fyrr, og bæri því að fella niður álagið með vísan til 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Og þó svo að atvik væru með þeim hætti að ákvæði þeirrar málsgreinar lagagreinarinnar yrði ekki talin eiga við, þá séu ekki efni til beitingar álagsins skv. 1. og 2. mgr. 106. gr. laganna, sem væru heimildarákvæði, gagnstætt 3. mgr. 106. gr., sem væri skyldubundið ákvæði. Er í því sambandi á það bent að sanngirniskröfur mæltu með því að þessum heimildarákvæðum sé ekki beitt, enda álagsbeitingin þungbær fyrir umbjóðendur sína og þeir yrðu ekki sakaðir um hin síðbúnu framtalsskil. Fráleitt yrði það talinn hafa verið tilgangur löggjafans að álagi skv. 1. og 2. mgr. 106. gr. nefndra laga yrði beitt, þegar þannig stæði á, enda horfið frá skyldubundnum ákvæðum í eldri tekjuskattslögum til heimildarákvæða í núgildandi lögum. Loks víkur umboðsmaðurinn að framkvæmd skattalaga gjaldárin 1980 og 1981 og getur þess að álagi hafi ekki verið beitt, þó að skattframtal hafi ekki borist fyrr en í kærufresti til skattstjóra. Á þessu ári virtist framkvæmdinni hafa verið breytt að þessu leyti án þess að það væri auglýst sérstaklega. Yrði því að telja að framteljendur hafi verið í góðri trú um að skattframtal sem bærist innan kærufrests, yrði lagt til grundvallar álagningu án þess að lagðar yrðu á skattaðila slíkar álögur.
Með kæru sinni til ríkisskattanefndar lætur umboðsmaður kærenda fylgja yfirlýsingu þess aðila, er tók að sér að annast framtalsskil fyrir þá. Getur hann þess að af óviðráðanlegum ástæðum, m. a. vegna breytinga á atvinnu og vegna heimilisaðstæðna, hafi frágangur og skil skattframtals dregist. Hafi þessi óvæntu og erfiðu aðstæður hjá sér verið kærendum óviðkomandi. Hafi hann treyst því að ekki kæmi til álagsbeitingar, þó að framtalið bærist ekki fyrr en í kærufresti til skattstjóra, svo sem reyndin hafi verið í framkvæmd síðastliðin tvö ár.
Með bréfi dags. 30. nóvember 1982 gerir ríkisskattstjóri svofellda grein fyrir kröfum fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að staðfest verði ákvörðun skattstjóra um að beita 25% álagi á gjaldstofna skv. ákvæðum 106. gr. laga nr. 75/1981.
Ríkisskattstjóri fellst eigi á þau rök er fram koma í kæru að 3. mgr. áðurnefnds lagaákvæðis taki til tilviks kæranda þar sem líta verður svo á að vanskil umboðsmanns jafngildi vanskilum skattaðila. Önnur niðurstaða þýddi að skattaðilar gætu komið sér undan greininni með því að fela ákveðnum aðila framtalsgerð fyrir sína hönd.
Ríkisskattstjóri getur eigi fallist á að skattyfirvöldum hafi borið að auglýsa breytingu á framkvæmd álagsreglna þar sem meginreglan er mörkuð í lögum og frávik fyrri ára hafa verið skýrt bundin við tilheyrandi ár skv. bréflegri heimild Fjármálaráðuneytisins.
Í bréfi Fjármálaráðuneytisins, dags. 8. júlí sl., kemur skýrt fram að berist framtöl ekki fyrr en eftir dagsetningu auglýsingar skattstjóra um lok álagningar telur ráðuneytið ástæðulaust að víkja frá almennum reglum 100. gr. (sic) laga nr. 75/1981.“
Á það er fallist með ríkisskattstjóra að af hálfu kæranda þykja eigi hafa verið færðar fram þær vítaleysisástæður að fella beri niður álag skv. 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda verður að telja að framteljendur geti ekki losnað undan ábyrgð sinni á því að skattframtal berist skattstjóra á réttum tíma með því að fela öðrum að annast um gerð og skil þess. Að virtum málavöxtum þykir þó eigi nægilegt tilefni hafa verið til þess að neyta heimildar 1. mgr. 106. gr. nefndra laga til beitingar álags. Af þeim ástæðum er krafa kærenda tekin til greina.