Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 828/1982

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981, 73. gr., 78. gr.  

Spariskírteini ríkissjóðs — Lögaðili — Hlutafélag — Eignarskattsstofn — Frádráttarheimild — Skattfrelsi — Samningsskilmálar — Skattalagabreyting

Kærð er ákvörðun eignarskatts kæranda, sem er hlutafélag, gjaldárið 1981 og er kæruefnið hækkun skattstjóra á framtöldum eignarskattsstofni um 68 258 126 kr., sem eru verðmæti í verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs umfram skuldir. Byggði skattstjóri þá ákvörðun sína á því að skv. 78. gr. sbr. 73. gr. laga nr. 75/1981, umtekjuskatt og eignarskatt, væri frádráttur slíkra verðmæta við ákvörðun eignarskattsstofns einungis heimill hjá mönnum. í kæru til ríkisskattanefndar gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfu sinni:

„Í skilmálum fyrir útgáfu spariskírteina segir í 6. grein: Skírteini þetta er undanþegið framtalsskyldu og skattskyldu á sama hátt og innistæður í bönkum og sparisjóðum.

Þegar talað er um skattfrelsi spariskírteinanna er að sjálfsögðu átt við ákvæði þágildandi skattalaga, en ekki ákvæði síðari skattalaga, Þannig geta skilmálar spariskírteina, sem gefin voru út fyrir árslok 1978 ekki verið byggðir á lögum nr. 75 frá 1981.

Það er eitt af grundvallar atriðum í viðskipum, að samningi milli tveggja aðila verður ekki breytt einhliða af öðrum aðilanum. Þannig getur ríkissjóður ekki breytt ákvæðum í skuldaviðurkenningum með breytingu á lögum, enda hefur þessi skilningur verið viðurkenndur af ríkisvaldinu með því að setja þau ákvæði í spariskírteini, sem gefin hafa verið út 1979 og síðar: Að um skattskyldu fari eftir ákvæðum skattalaga á hverjum tíma.“

Með bréfi dags. 11. ágúst 1982 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda mörg dæmi um það að með gildistöku nýrra skattalaga hafi aðilar verið sviptir skattfrelsi. Telja verður að löggjafanum sé heimilt að setja íþyngjandi skattalög með þessum hætti.“

Eigi verður annað séð en skattstjóri hafi ákvarðað eignarskattsstofn við álagningu eignarskatts gjaldárið 1981 í samræmi við ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er því kröfu kæranda synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja