Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 833/1982
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 92. gr., 94. gr., 102. gr., 4. mgr. 107. gr.
Upplýsingaskylda — Fésekt — Rannsóknarheimild — Málsmeðferð áfátt — Launaframtal — Launamiðar — Launauppgjöf — Skilafrestur — Þvingunarúrræði
Með bréfi dags. 11. nóvember 1982 hefur skattrannsóknastjóri krafist þess að ríkisskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál S. í því bréfi er svofelld kröfugerð: „Málavextir og rökstuðningur:
Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981 ber aðila sem hefur menn í þjónustu sinni og greiðir þeim endurgjald fyrir þann starfa að afhenda skattstjóra ótilkvaddur skýrslu um greiðslur þessar í því formi, sem ríkisskattstjóri ákveður.
Með auglýsingu ríkisskattstjóra dags. 1. janúar 1982 og birt var í 2. tbl. Lögbirtingablaðsins 8. janúar 1982, svo og í Öllum dagblöðum, var frestur til að skila launaframtali og launamiðum ákveðinn til og með 25. janúar 1982, sbr. 5. mgr. 93. gr. laga nr. 75/1981.
Gjaldandi skilaði hvorki launaframtali né launamiðum til skattstjóra vegna ársins 1981.
Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi sendi gjaldanda þá áskorun um skil á launaframtali og launamiðum vegna rekstrarársins 1981 með bréfi dags. 11. mars 1982. í umræddu bréfi var gjaldanda bent á, að sendi hann ekki umbeðin gögn innan tiltekins frests til skattstjóra, yrði málinu vísað til skattrannsóknarstjóra.
Gjaldandi skilaði eigi umbeðnum gögnum.
Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi sendi því bréf dags. 7. september 1982 til skattrannsóknarstjóra, þar sem óskað var eftir því, að mál gjaldanda sætti sektarmeðferð.
Skv. skýringum í ársreikningi 1981 er fylgdi skattframtali gjaldanda 1982, undir tölulið merktum 3 (laun og launatengd gjöld) nam aðkeypt vinna á árinu 1981 kr. 215 528,96 kr. Gjaldanda bar því að skila launaframtali ásamt launamiðum eigi síðar en 25. janúar 1982.
Margnefnd gögn bárust ekki í hendur skattyfirvalda, þrátt fyrir launagreiðslur gjaldanda til annarra á árinu 1981, sbr. framangreint, og þrátt fyrir áskorun skattstjóra þar að lútandi, þannig að telja verður að gjaldandi hafi ekki gengt skyldu sinni skv. 92. gr. laga nr. 75/1981,
Krafa:
Telja verður að vanræksla þessi varði við 4. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og er þess krafist að gjaldanda verði ákveðin hæfilega sekt skv. nefndu ákvæði.“
Með bréfi ríkisskattanefndar dags. 24. nóvember 1982 var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfu skattrannsóknarstjóra. Gerði umboðsmaður hans það með bréfi dags. 1. desember 1982, og segir í því m. a.:
„Hjálagt sendist ljósafrit af launamiðum og launamiðafylgiskjali fyrir það tímabil sem um er rætt. Umrædd gögn voru send ásamt öðrum gögnum á skattstofu umdæmisins og hefur það áður verið tekið fram símleiðis við fulltrúa embættisins. Mér er ekki ljóst á hvern hátt þessir hlutir geta skolast til en ég vil benda á að umbjóðandi minn rak áður fyrirtæki undir nafninu X sf., og er spurning hvort þar hefðu málin eitthvað skolast til.
Umbjóðandi minn hefur verið í góðri trú um að hann hafi staðið skattstofu umdæmisins skil á umræddum gögnum.
Þess er vænst að hjálögð gögn séu fullnægjandi til lausnar máls þessa og fallið verði frá öllum refsiaðgerðum á umbjóðanda minn.“
Hið meinta brot gjaldanda hefur ekki sætt þeirri rannsókn af hendi bærra aðila er leitt gæti til þeirrar sektarbeitingar sem skattrannsóknarstjóri krefst. Er málinu því vísað frá.