Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 837/1982
Gjaldár 1982
Lög nr. 73/1980, 2. mgr. 37. gr.
Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Úreldingarstyrkur — Aldurslagasjóður — Tekjufærsla — Fiskiskip
Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði sérstakri greinargerð um aðstöðugjaldsstofn árið 1982 vegna útgerðarstarfsemi á árinu 1981 að því er sagt var. Samkvæmt rekstrarreikningi voru tekjuliðir bætur frá Aflatryggingasjóði, úreldingarstyrkur, aukafyrning og tekjufærsla vegna verðbreytingar. Gjöld voru lögfræðiaðstoð, árgjald í Aldurslagasjóð og m/b X gjaldfærður sem ónýtur. í skattframtali kæranda kom fram, að nefndur bátur væri ónýtur og fenginn hefði verið styrkur til þess að eyða honum. Við álagningu aðstöðugjalds tók skattstjóri ekki tillit til tekjufærslu samkvæmt 53, gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. niðurlagsákvæði 2. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, en fjárhæð aðstöðugjaldsstofns takmarkaðist við heildartekjur, sbr. síðastnefnt ákvæði, Með kæru til skattstjóra dags. 26. ágúst 1982 krafðist kærandi þess, að stofninn yrði lækkaður um fjárhæð tekjufærslunnar. Með úrskurði dags. 19. október 1982 féllst skattstjóri á kröfuna og lækkaði stofninn um tekjufærsluna til samræmis við greinargerð kæranda um aðstöðugjaldsstofn.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 8. nóvember 1982. Er þess getið, að láðst hafi að fara fram á lækkun aðstöðugjaldsstofns í kæru til skattstjóra um fjárhæð svonefnds úreldingarstyrks. Slíkur styrkur gæti ekki talist til rekstrartekna heldur væri um að ræða altjónsbætur eða söluverð.
Af hálfu ríkisskattstjóra er tekið fram í bréfi dags. 30. nóvember 1982, að fjárhæð þá, sem kærandi hafi fengið úr Aldurslagasjóði fiskiskipa, verði að telja meðal heildartekna hans og beri því að taka tillit til þeirrar fjárhæðar við ákvörðun á aðstöðugjaldsstofni.
Samkvæmt málsgögnum hafði kærandi engan útgerðarrekstur með höndum á árinu 1981, Bátur sá, sem um getur í málinu, var eigi gerður út á árinu 1981. Báturinn var tekinn úr notkun sem ónýtur og kærandi styrktur til þeirra ráðstafana úr þeim sjóði, sem í málinu greinir. Slíkar styrkveitingar eru þáttur í opinberum aðgerðum til þess að auka hagkvæmni í útgerð fiskiskipa. Eigi verður talið, að styrk þann, sem kæranda var veittur í umræddum tilgangi, beri að telja með heildartekjum við ákvörðun aðstöðugjaldsstofns samkvæmt niðurlagsákvæði 2. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Er því fallist á kröfu kæranda.