Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 10/1981
Gjaldár 1979
Lög nr. 40/1978, 96. gr., 100 gr. Lög nr. 68/1971
Bifreiðahlunnindi — Áætlun — Gildistaka skattalagabreytinga — Kærufrestur til ríkisskattanefndar — Sönnun — Sönnunarbyrði — Póstlagningardagur — Endurákvörðun — Málsmeðferð áfátt — Sönnunargögn — Gagnaöflun
Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1979 að færa honum til tekna 188 810 kr. vegna meintra hlunninda af notkun bifreiðar vinnuveitanda í eigin þágu án endurgjalds.
I.
Samkvæmt gögnum málsins virðist upphaf máls þessa vera það, að skattstjóranum í Reykjavík barst greinargerð frá X hf. um bifreiðar í eigu félagsins á árinu 1978. Kærandi, sem er framkvæmdastjóri félags þessa, reit undir greinargerð þessa fyrir hönd félagsins.
Greinargerðin, sem er dags. 18. apríl 1979, virðist vera svar við áskorun skattstjórans í Reykjavík, en sú áskorun er eigi meðal gagna málsins. í greinargerðinni er greint frá því að í eigu félagsins hafi á árinu 1978 verið ein bifreið af gerðinni Plymouth, árgerð 1976. Kærandi er þar tilgreindur sem ökumaður bifreiðarinnar og geymslustaður utan vinnutíma sé að heimili kæranda. Á ljósrit af greinargerð þessari hefur verið skráð 520 000 kr. og innan sviga 10 000 km. Ekki liggur fyrir hver skráð hefur þessar tölur. Ljósrit þetta hefur skattstjórinn í Reykjavík sent skattstjóranum í Reykjanesumdæmi. Ekki liggur fyrir hvenær og með hvaða hætti gagnið hafi borist á milli þessara embætta.
Kærandi hafði talið fram til skatts gjaldárið 1979 og skilað skattstjóra undirrituðu og staðfestu skattframtali vegna þess gjaldárs. Barst skattstjóra framtalið í framtalsfresti og var það óbreytt lagt til grundvallar við álagningu opinberra gjalda í skattskrá þeirri er lögð var fram það ár.
Þann 18. janúar 1980 reit skattstjórinn í Reykjanesumdæmi kæranda bréf og segir í því, að með „tilvísun í 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt svo og upplýsingar vinnuveitanda yðar, hafa einkaafnot yðar árið 1978 (skattframtal 1979) af bifreið í eigu X hf. verið metin til hlunninda, sem samsvarar 520 000 kr. og er fyrirhugað að hækka tekjur yðar sem því nemur. Við mat hlunninda er stuðst við greiðslur fjármálaráðuneytisins fyrir bifreiðaafnot. Einkaafnot yðar eru metin 10 000 km.“ Var kæranda veittur frestur til andsvara. Þar eð skattstjóra hafði ekki borist svar frá kæranda tilkynnti hann honum með bréfi dags. 26. febrúar 1980 að tekjur hefðu verið hækkaðar á skattframtali hans árið 1979 um 520 000 kr. og opinberum gjöldum breytt til samræmis við það.
Af hálfu kæranda var ákvörðun skattstjóra kærð til hans með kæru dags. 24. mars 1980. Var breytingum skattstjóra þar mótmælt. I því sambandi er vísað til bréfs X hf. til skattstjóra, dags. 9. febrúar 1978, þar sem greint sé frá samkomulagi um að kærandi greiði félaginu fyrir einkanotkun bifreiðar í eigu þess, 80 km á viku samkvæmt kílómetragjaldi ríkisins. Ársnotkun kæranda sé þá um 4 160 km og greiddi hann félaginu 227 190 kr. fyrir þessa notkun á árinu 1978. Þá getur umboðsmaður kæranda þess, að á árinu 1978 hafi kærandi átt einkabifreið sem hann hafi notað til aksturs utan vinnutíma. Hann bendir á að uppkomin börn kæranda eigi sínar eigin bifreiðir og því sé notkun þeirra ekki til að dreifa á bifreið kæranda eða X hf. Af framangreindum ástæðum var krafist niðurfellingar á breytingum skattstjóra.
Þann 16. maí 1980 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í tilefni af framangreindri kæru. Segir í forsendum úrskurðarins, að í bréfi frá X hf. til skattstjórans í Reykjavík þann 18. apríl 1979, undirrituðu af kæranda, standi að á árinu 1978 hafi félagið átt Plymouth bifreið af árgerð 1976. Þar komi og fram, að umráðamaður bifreiðarinnar á því ári hafi verið kærandi og hafi bifreiðin verið í hans vörslu utan vinnutíma. Ekki komi fram í bréfinu að honum hafi verið sett nokkur takmörk varðandi notkun bifreiðarinnar. Þá hafi komið í ljós hjá bifreiðaskrá bæjarfógetaembættisins í Hafnarfirði að frá árinu 1978 hafi kærandi verið skráður eigandi síðast nefndrar bifreiðar. Þá segir í forsendum úrskurðarins að hvernig sem eignarráðum bifreiðarinnar hafi verið háttað sé ljóst, að rekstrarkostnaður hennar hafi verið greiddur af X hf. í kæru komi fram, að kærandi hafi á árinu 1978 greitt 227 190 kr. fyrir einkaafnot bifreiðarinnar. Sé sú greiðsla miðuð við 4 160 km akstur. Telja verði að afnot kæranda af bifreiðinni hafi verið mun meiri en svari til 4 160 km. í ljósi algerlega óhefts umráða- og afnotaréttar kæranda af margnefndri bifreið þættu bifreiðahlunnindi hans hæfilega metin á 416 000 kr. Sé þá miðað við 8 000 km akstur. Endurgreiðsla kæranda vegna þessara hlunninda hefði numið 227 190 kr. og lækki því hin kærða teknaviðbót úr 520 000 kr. í 188 810 kr.
II.
Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 14. júní 1980. Barst kæran í ábyrgðarbréfi og virðist helst mega ráða að póststimpillinn sé með dagsetningunni 15. júní 1980. Krefst hann þess að viðbótarálagning skattstjóra verði felld niður þar eð hún sé órökstudd. Hann bendir á að bréfið frá 18. apríl 1979, sem sent hafi verið til skattstjórans í Reykjavík að hans kröfu og um sé getið í hinum kærða úrskurði, sé staðlað og gefi ekki tilefni til útskýringa varðandi notkun eða takmarkanir á umráðum umræddrar bifreiðar. í forsendum kæruúrskurðarskattstjóra sé að engu getið bréfs til hans frá 9. febrúar 1978 og undirritað af stjórnarformanni félagsins, en það hafi fylgt skattframtali sínu það ár og hafi einnig verið sent ljósrit af því með bréfi til skattstjóra, dags. 24. mars 1980, í bréfi þessu sé skilgreint samkomulag milli X hf. og kæranda vegna bifreiðar félagsins. Erfitt sé að sjá af hverju starfsmaður skattstofu leggi vinnu í að áætla kæranda tekjur vegna bifreiðaafnota þrátt fyrir að framangreint bréf lægi fyrir ásamt skattframtali, og lækki síðan fyrri áætlun sína á grundvelli sama bréfs, en felli hana ekki niður, þar sem starfsmaðurinn hafi þá persónulegu skoðun að afnot hljóti að hafa verið a. m. k. 8 000 km og byggir það álit sitt á almennu svari við stöðluðu bréfi til skattstjórans í Reykjavík. Hann líti fram hjá skilgreindu samkomulagi félagsins og kæranda og fullyrðir þar með að kærandi hljóti að hafa brotið þetta samkomulag.
Þá segir í kæru kæranda:
„Af gefnu tilefni er því nauðsynlegt að upplýsa, að heildarrekstrarkostnaður félagsins með öllu meðtöldu (án afskrifta) vegna bifreiðar var 585 759 kr. Af þessari upphæð fékk félagið endurgreiddar 227 190 kr. vegna eigin afnota framkvæmdastjóra, og var því rekstrarkostnaður félagsins 358 569 kr. eða um 61% af greiddum kostnaði. í bréfi félagsins frá 9. febrúar 1978, merkt fskj. 2, er gert ráð fyrir 30 km akstri til og frá vinnu í þágu framkvæmdastjóra samkv. reglunni um bifreiðastyrki þar sem 30% telst í þágu bíleiganda og 70% í þágu atvinnurekenda. Samkv. þessu er áætlaðir 70 km pr. viku í akstur til og frá vinnu vegna atvinnuveitenda eða 3 640 km, auk annarrar notkunar í þágu félagsins. Ljóst er að rekstrarkostnaður bifreiðar félagsins er ekki það hár yfir árið 1978, að fullyrðingar starfsmanns skattstofunnar um sviksemi og misnotkun fái staðist.
Þá er nauðsynlegt að gera athugasemd við 2. mgr. í „Forsendum úrskurðar“ en þar segir:
„Við athugun hjá bifreiðaskrá bæjarfógetaembættisins í Hafnarfirði kemur í ljós, að frá árinu 1978 er kærandi skráður eigandi ofangreindrar bifreiðar.“
Þessi málsgrein ber með sér eins og bréfið allt, að ekki sé allt sem sýnist, því bæði hafi kærandi sjálfur skrifað undir bréf og svo sé bifreið sem eigi að vera annars eign skráð á kæranda sjálfan, og síðan láti hann fyrirtæki borga allan rekstrarkostnað.
Af þessu tilefni er nauðsynlegt að benda á, að þegar bifreiðin var keypt ný af A var beðið um að skrá hana á nafni X hf. c/o kærandi. Þessi bifreið var keypt af X hf., greidd fyrir af félaginu og bókfærð sem slík í bókum félagsins. Undirritaður hefur ekki lagt fram neina fjármuni til kaupa þessarar bifreiðar, og engar fjármálalegar tilfærzlur verið milli félagsins og framkvæmdastjóra í þessu sambandi eða á öðrum grundvelli sbr. skattaskýrslu undirritaðs.“
III.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í bréfi dags. 3. nóvember 1980 gerðar svofelldar kröfur: „Kæran, sem póstlögð var í Reykjavík skv. póststimpli 15. júní 1980, virðist of seint fram færð skv. ákvæðum 100. gr. laga nr. 40/1978. Er því krafist að ríkisskattanefnd vísi henni frá sér.“
IV.
IV.1. Þegar skattstjóri reit kæranda bréf sitt dags. 18. janúar 1980 höfðu ákvæði VIII. — XIII. kafla laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt þegar tekið gildi. Gilda því ákvæði þessara kafla um endurákvörðun skattstjóra á þegar álögðum opinberum gjöldum á kæranda gjaldárið 1979 svo og um kærumeðferð. Einnig gilda um þessi atriði lög nr. 7/1980 um breytingar á nefndum lögum eftir því sem við getur átt. Þau breytingarlög voru staðfest 22. febrúar 1980 og birt í A-deild stjórnartíðinda með útgáfudeginum 26. febrúar 1980.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist, að kærunni til ríkisskattanefndar verði vísað frá, þar sem kært hafi verið til nefndarinnar eftir lok lögákveðins kærufrests. í 2. ml. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 40/1978 segir að kærufrestur skattaðila til ríkisskattanefndar skuli vera 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra. Hinn kærði úrskurður er dagsettur 16. maí 1980 og liggur ekki annað fyrir en hann hafi verið póstlagður þann sama dag. Kærufrestur til ríkisskattanefndar byrjar að líða næsta dag á eftir póstlagningardegi á úrskurði skattstjóra. Síðasti dagur kærufrests í tilviki kæranda var því þann 15. júní 1980. Bréf það sem innihélt kæru kæranda til ríkisskattanefndar er póststimplað 15. júní 1980. Ekki liggur fyrir hvenær bréfið var afhent á póststöð til sendingar með pósti, en rétt þykir að miða komudag kærunnar til ríkisskattanefndar við þá afhendingu. Þar eð afhendingardagurinn liggur þannig ekki fyrir þykir rétt að miða við það að hann hafi verið 14. júní 1980.
Samkvæmt framansögðu hefur kæran borist ríkisskattanefnd fyrir lok kærufrests. Er því frávísunarkröfu ríkisskattstjóra hrundið.
Á það þykir bera að fallast með kæranda að bréf félags þess, sem hann starfar við, til skattstjórans í Reykjavík, dags. 18. apríl 1979, hafi samkvæmt innihaldi sínu vart gefið tilefni til þeirrar ákvörðunar, sem skattstjórinn í Reykjanesumdæmi birti í bréfi sínu frá 18. janúar 1980 og eigi var honum rétt að skrá þar þá þegar væntanlega tekjuáætlun án þess að hafa áður leitað eftir upplýsingum og eftir atvikum gögnum frá kærandanum sjálfum. Hvorki í því bréfi né í tilkynningu skattstjóra dags. 26. febrúar kemur fram á hvaða forsendum skattstjóri byggði ákvörðun sína um fjölda ekinna kílómetra á bifreið nefnds félags í eigin þágu kæranda. Hafi skattstjóri aflað sér einhverrar vitneskju um eigin notkun kæranda af umræddri bifreið, sem hann hafi síðan reist niðurstöðu sína á, þá hefur hann ekki skýrt kæranda frá því, á hvern hátt hann hefur aflað þeirrar vitneskju. Þá verður heldur eigi séð á hverju skattstjóri byggir mat sitt um fjölda ekinna kílómetra í eigin þágu kæranda, sem fram kemur í kæruúrskurði hans, en sú ályktun að þeir hafi verið 8000 verður ekki ein sér dregin af „algerlega óhefts umráða- og afnotaréttar kæranda af margnefndri bifreið,“
Þegar framangreind atriði eru virt og gegn eindregnum mótmælum kæranda, sem eiga sér nokkurn stuðning í gögnum málsins, þykir skattstjóri eigi hafa fært þau rök fram í máli þessu að ákvæði 96. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt hafi veitt honum heimild til endurákvörðunar opinberra gjalda á kæranda vegna gjaldársins 1979. Er því fallist á kröfur kæranda og breyting skattstjóra felld niður.