Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 27/1981
Gjaldár 1979
Lög nr. 40/1978, 66. gr., 95. gr., 99. gr. og 100. gr.
Frávísun — Ívilnun — Verksvið ríkisskattanefndar — Málsmeðferð áfátt — Málskot til ríkisskattstjóra — Kæruúrskurður skattstjóra — Viðhaldskostnaður fasteignar — Kæruheimild — Eignatjón — Álagning
Kærð er synjun skattstjóra um að taka til greina umsókn kæranda um lækkun tekjuskattsstofns samkvæmt skattframtali árið 1980 vegna eignartjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir á árinu 1979.
I.
Málavextir eru þeir, að kærandi taldi fram til skatts gjaldárið 1980 og skilaði skattstjóra skattframtali vegna þess árs. Því framtali lét kærandi fylgja útfyllt þar til gert eyðublað fyrir umsókn um lækkun á tekjuskattsstofni samkvæmt 66. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt vegna eignatjóns, sem kærandi taldi sig hafa orðið fyrir á árinu 1979. Þar eð skattstjóri sinnti eigi umsókn þessari við álagningu gjalda 1980 krafðist kærandi þess í bréfi, dags. 9. september 1980, mótteknu af skattstjóra 8. ágúst 1980, að umsókn hans yrði tekin til endurskoðunar.
Þann 16. október 1980 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í málinu. Var kæru synjað, þar eð engin heimild væri til að leyfa viðhald til frádráttar. Vakti skattstjóri athygli kæranda á því að kærufrestur til ríkisskattanefndar væri 30 dagar frá dagsetningu úrskurðar hans.
II.
Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með bréfi dags. 16. nóvember 1980 en mótteknu 17. nóvember 1980. í bréfi sínu gerir kærandi svofellda grein fyrir ástæðum málskotsins:
„Með tilvísun til bréfs yðar 16. okt. '80 frá skattstjóra mótmæli ég undirritaður að þessar byggingarframkvæmdir sem um er rætt séu viðhald, vegna þess að setja varð ný þök á öll húsin við C 1 — 33 vegna óviðráðanlegra galla og leka í öllum þökunum, og þrátt fyrir viðgerðir undanfarinna ára aftur og aftur, og er hér um tæknilegan galla frá hendi S vegna hönnunar húsanna frá upphafi og lítur út fyrir að reynsla hafi átt að skera úr um hvort þökin lækju eða ekki, og ekki var heldur hlustað á íbúa húsanna þó þeir hafi í upphafi byggingatíma bent forráðamönnum S á að flöt þök væru ekki hentug fyrir áðurnefnd hús, Þess vegna hef ég undirritaður óskað eftir að kostnaður sem orðið hefur, verði tekinn til greina vegna álagðra skatta minna, og vísa ég því máli mínu til ríkisskattanefndar til frekari úrlausnar.“
III.
Af hálfu ríkisskattstjóra er í bréfi dags. 30. desember 1980 gerð svofelld krafa: „Að kærunni verði vísað frá. Röksemdir:
1. Kæran varðar ívilnunarbeiðni vegna meints eignatjóns, sbr. 66. gr. skattalaga og umsókn kæranda þar að lútandi til skattstjóra.
2. Kæran er of seint fram færð sbr. 100. gr. skattalaga.“
IV.
IV.1. Eigi verður annað ráðið af framtals- og kærugögnum kæranda en að hann hafi farið þess á leit við skattstjóra, að hann tæki til greina umsókn sína um lækkun tekjuskattsstofns vegna eignatjóns. Heimild skattstjóra til'slíkrar lækkunar er að finna í 66. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum. í 3. ml. 2. mgr. nefndrar lagagreinar segir: „Ákvörðun skattstjóra samkvæmt þessari grein má skjóta til ríkisskattstjóra sem tekur endanlega ákvörðun í málinu.“
Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1980 tók skattstjóri eigi til greina nefnda umsókn kæranda um lækkun tekjuskattsstofns, en skattstjóri bar þá að taka ákvörðun um það, sbr. lokamálslið 1. mgr. 95. gr. nefndra laga. Synjuninni skaut kærandi til skattstjóra eftir álagningu gjaldanna og krafðist þess að umsókn sín yrði tekin til greina. Skattstjóri tók bréf kæranda sem skattkæru og fór með hana eftir reglum 99. gr. sömu laga. í upphafi þeirrar lagagreinar segir: „Nú telur skattaðili skatt sinn eða skattstofn, þar með talin rekstrartöp, eigi rétt ákveðinn og getur hann þá sent skriflega rökstudda kæru studda nauðsynlegum gögnum til skattstjóra eða umboðsmanns hans innan 30 daga“
Úrskurðir sem skattstjóri kveður upp eftir 99. gr. eru svo kæranlegir til ríkisskattanefndar, sbr. 100. gr. Þrátt fyrir það, að ákvörðun um skattstofna sé kæranleg samkvæmt 99. gr. verður eigi talið að af því leiði að synjun skattstjóra um að taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns eða ósk um frekari lækkun en skattstjóri veitir sé kæranleg eftir reglum 99. gr. og 100. gr. nefndra laga, þar eð í 2. mgr. 66. gr. er lögfest sérstök málskotsleið. Verður því að telja að skattstjóri hafi ranglega farið með bréf kæranda frá 9. september sem skattakæru og kveðið upp kæruúrskurð, sem kæranlegur væri til ríkisskattanefndar. Á það er einnig að líta að skattstjóri getur þess ranglega í úrskurði sínum, að kærandi hafi krafist þess að „viðhaldskostnaður“ yrði talin frádráttarbær, heldur var hér um að ræða beiðni um ívilnun í tekjuskattsstofni eins og ríkisskattstjóri getur um í kröfugerð sinni.
Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er umsókn kæranda um lækkun tekjuskattsstofns samkvæmt heimild í 66. gr. laga nr. 40/1978 vísað frá ríkisskattanefnd, þar eð hún er eigi bær til að fjalla um hana.
IV.2. Þar eð mál kæranda á ekki að hljóta meðferð eftir reglum 99. gr. og 100. gr. laga nr. 40/1978, eins og að framan hefur verið rakið, kemur síðari málsástæða í kröfugerð ríkisskattstjóra ekki til skoðunar í máli þessu.