Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 31/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 14/1965   Lög nr. 68/1971, 11. gr.  

Bifreiðakostnaður — Sönnun — Sönnunarbyrði — Læknir — Rekstrarkostnaður — Launaskattur — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Eigin notkun — Atvinnurekstur

1. Kærð er sú breyting skattstjóra á rekstrarreikningi fyrir árið 1978 að lækka gjaldfærðan bifreiðakostnað vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda við læknisstörf um 130 000 kr. eða úr 909 679 kr. í 779 679 kr. Kærandi lét fylgja skattframtali sínu árið 1979 bifreiðaskýrslu, þar sem heildarbifreiðakostnaður hans að meðtalinni 10% fyrningu er talinn 1 299 542 kr. Kærandi færði 70% þessa kostnaðar eða 909 679 kr. til gjalda á rekstrarreikningi sem bifreiðakostnað í atvinnuþarfir sínar. Að fengnu svari kæranda dags. 2. júlí 1979 við fyrirspurnarbréfi sínu dags. 22. júní 1979 viðvíkjandi notkun bifreiðar vegna læknisstarfa, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi dags. 20. júlí 1979, að frádreginn bifreiðakostnaður hefði verið lækkaður um 130 000 kr. vegna áætlaðra eigin afnota. Með kærubréfi dags. 31. júlí 1979 mótmælti kærandi þessari breytingu, sem hann kvað órökstudda. í bréfi dags. 25. október 1979 óskaði skattstjóri eftir frekari greinargerð um akstur kæranda en fram kæmi í svari dags. 2. júlí 1979. Skyldi tilgreindur fjöldi útkalla á árinu 1978 vegna fastra aukavakta, fjöldi annarra útkalla og fjöldi ekinna kílómetra vegna læknisstarfa. I svarbréfi dags. 5. nóvember 1979 gerði umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir hinum umspurðu atriðum:

„4. Heildarakstur A á árinu 1978 mun hafa verið ca. 30 000 km. Til viðbótar þeim upplýsingum er koma fram í bréfi okkar dags. 2.7. sl. skal eftirfarandi tekið fram: Ekki er unnt að gefa ákveðið svar um fjölda útkalla, þar sem þau eru hvergi skráð, enda ekki greidd sérstaklega. Föst greiðsla er fyrir hvern sjúkling A á B [spítala] pr. sólarhring og skiptir ekki máli í því sambandi hvort útköll hans vegna eru 2 eða 10 á sólarhring. Það skal undirstrikað að sjúklingar þeir sem A leggur inn á spítalann eru óviðkomandi öðrum læknum og ber honum einum að sinna öllum útköllum þeirra vegna. Samkvæmt því sem fram kemur í bifreiðaskýrslu er fylgdi með framtali 1979 er það mat framteljanda að 70% af kostnaði við rekstur bifreiðarinnar sé vegna starfa hans og er sú krafa ítrekuð að sú skipting verði viðurkennd.“

Með úrskurði dags. 16. nóvember 1979 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með því að í fram komnu svari hans kæmu ekki fram þær upplýsingar er tilefni gætu gefið til breytinga á áður ákvörðuðum eigin afnotum.

Kærandi hefur í kæru til ríkisskattanefndar dags. 7. desember 1979 krafist þess að tilfærður bifreiðakostnaður í rekstrarreikningi verði að fullu tekinn til greina. 2. Kærð er álagning launaskatts vegna vinnu kæranda við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Launaskattur þessi er að fjárhæð 246 645 kr. Krefst kærandi þess, að launaskattur þessi verði lækkaður verulega, enda sé hann ekki í neinu samræmi við hlutfall launatekna og atvinnurekstrartekna hans. Svo sýnist sem skattstjóri hafi talið laun frá B sem atvinnurekstrartekjur, sem ekki sé rétt.

Í skattskrá árið 1979 lagði skattstjóri launaskatt á kæranda að fjárhæð 76 459 kr. vegna vinnu við eigin sjálfstæða starfsemi svo og slysatryggingariðgjald skv. 36. gr. almannatryggingalaga 7 687 kr. í bréfi, dags. 25. október 1979, boðaði skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að hækka áður álagðan launaskatt hans, þar sem telja bæri kæranda sjálfstæðan rekstraraðila allt árið 1978. í úrskurði sínum, dags. 16. nóvember 1979, ákvarðaði skattstjóri launaskatt kæranda 246 645 kr. og slysatryggingariðgjald 24 805 kr. Var byggt á stofni að fjárhæð 7 047 000 kr.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu með bréfi dags. 24. nóvember 1980 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur,

Um 1. tl. Þegar virtar eru þær upplýsingar um heildarakstur kæranda á árinu 1978, er ráða má af gögnum málsins, og litið til þess, hversu starfsháttum er hagað í tilviki kæranda og akstursþarfa í því sambandi svo sem þeim er lýst af hálfu kæranda, þykir eigi tilefni til að ætla, að kærandi hafi offært bifreiðakostnað á rekstrarreikningi fyrir árið 1978. Er krafa kæranda því tekin til greina að því er varðar þetta kæruatriði.

Um 2. tl. Á það þykir bera að fallast með skattstjóra að kæranda beri að ákveða launaskatt og slysatryggingariðgjald miðað við heilsársskattstofn vegna vinnu við sjálfstæða starfsemi sína, enda þykir sú fullyrðing kæranda, að tekjur hans frá B, er gefnar eru upp af hálfu spítalans sem verktakagreiðsla, séu launatekjur, er launaskattur hafi verið greiddur af, eigi fá staðist. Á hinn bóginn þykir rétt að miða stofn til hins kærða skatts við meðaltalsviðmiðunarreglur ríkisskattstjóra til mats á vinnu við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi fyrir gjaldárið 1979.

Verður stofn til launaskatts því 5 244 000 kr. og launaskattur því 183 540 kr. og slysatryggingariðgjald 18 159 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja