Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 33/1981
Gjaldár 1979
Lög nr. 41/1968 Lög nr. 68/1967 Lög nr. 8/1972 Lög nr. 48/1975
Kröfugerð ríkisskattstjóra — Rafverktaki — Fjölþætt starfsemi — Iðnaður — Aðstöðugjaldsstig — Gjaldskylda til Iðnlánasjóðs — Iðnaðarmálagjald — Verslunaratvinna — Áætlun — Ófullnægjandi reikningsskil — Iðnlánasjóður
Kærð er til lækkunar álagning iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds gjaldárið 1979,
Málavextir eru þeir, að við álagningu skv. skattskrá árið 1979 var lagt á kæranda, er stundar rafverktakastarfsemi, aðstöðugjald að fjárhæð 238 600 kr. og iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald 129 600 kr. Stofn til gjalda þessara ákvarðaði skattstjóri 21 594 071 kr. Gjaldstig aðstöðugjalds var 1,105% skv. tilkynningu um aðstöðugjald í d-hreppi dags. 28. maí 1979. Á sama stofn var álagt iðnlánasjóðsgjald 0,5% sbr. lög nr. 68/1967, og iðnaðarmálagjald 0,1%, sbr. lög nr. 48/1975.
Með kæru dags. 8. ágúst 1979 krafðist umboðsmaður kæranda lækkunar á álögðu iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjaldi á þeim forsendum, að vörunotkun til endursölu myndaði ekki stofn til álagningar iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds. Að teknu tilliti til þessa yrði stofninn 7 131 476 kr. og gjöldin 42 700 kr. í stað 129 600 kr.
Með úrskurði dags. 26. nóvember 1979 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. í forsendum úrskurðarins tekur skattstjóri fram, að kærandi sé rafverktaki og verði að telja, að vörusala hans sé eingöngu í sambandi við þá starfsemi, enda hefði ekki verið tilkynnt um annað. Væri álagning á vörusölu 7,8% skv. rekstrarreikningi, er ekki benti heldur til, að um verslunarrekstur væri að ræða. Þá leiðréttir skattstjóri álagningu aðstöðugjalds í úrskurðinum með því að rangur hundraðshluti hafi verið notaður við álagningu skv. skattskrá. Miðar skattstjóri við, að viðkomandi gjaldstig sé 1% í stað 1,105%, sbr. 2. gr. laga nr. 104/1973, um breyting á lögum nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga.
Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 11. desember 1979 og ítrekar fyrri kröfur um lækkun nefndra gjalda. Kærandi færir fram svofelldan rökstuðning:
„Í 1. mgr. 1. ml. 5. gr. laga nr. 68/1967 segir að gjaldið skuli lagt á iðnaðinn í landinu, en samkvæmt almennri málnotkun þýðir iðnaður að ástandi vöru sé breytt og þá að jafnaði verðmæti hennar aukið.
Sá háttur rafvirkja og annarra iðnaðarmanna að hafa fyrirliggjandi þær helstu vörur sem væntanlegir viðskiptavinir þeirra þurfa á að halda getur þannig aldrei talist iðnaður heldur verslunarstarfsemi og fellur því ekki undir gjaldskyldu.“
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 12. desember 1980:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Eins og skýrt er aðgreint í rekstrarreikningi hefur kærandi með höndum bæði efnissölu og iðnað. Þessar tvær greinar falla í mismunandi flokka eftir eðli sínu og eru ekki fyrirliggjandi gögn og rök til að breyta því.“
Eigi verður annað ráðið af rökstuðningi ríkisskattstjóra í umsögn hans, en að hann fallist á sjónarmið kæranda. Svo mun litið á, að í rafverktakastarfsemi felist að hluta til verslunarrekstur og þess krafist, að þeir, er löggildingu vilja öðlast til starfsemi á þessu sviði, hafi tilskilin verslunarréttindi skv. lögum nr. 41/1968, um verslunaratvinnu, þ. e. leyfi til smásöluverslunar. Með hliðsjón af þessu og að virtum gögnum málsins sem m. a. bera það með sér að um tvíþætta starfsemi kæranda hafi verið að ræða á árinu 1978 er fallist á kröfur kæranda. Stofn til álagningar iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjalds þykir svo sem gögn málsins liggja fyrir mega áætla 6 000 000 kr. en eins og reikningsskilum kæranda er háttað verður stofn þessi eigi fundinn út með öruggum hætti. Þá þykir bera að leiðrétta álagningu aðstöðugjalds með tilliti til gjaldstigs verslunar 0,975%, sbr. aðstöðugjald í d-hreppi dags. 28. maí 1979. Ákveðst aðstöðugjald 212 000 kr.