Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 44/1981
Gjaldár 1979
Lög nr. 40/1978, 101. gr. Lög nr. 68/1971, C-liður, 7. gr.
Eigin húsaleiga — Endurákvörðun ríkisskattstjóra — Húsaleiga
Kærð er álagning opinberra gjalda 1979. Skattstjóri gerði þá breytingu á skattframtali kæranda árið 1979 að færa til tekna 192 840 kr. sem reiknaða eigin húsaleigu vegna íbúðar í eigu kæranda, sem hann hafi látið öðrum í té án eðlilegs endurgjalds. Var kæranda gert viðvart um þessa breytingu hinn 4. maí 1979, en hann svaraði með bréfi dags. 7. maí 1979. Þar segir m. a.:
„Um leið og ég vísa til eftirgreindra staðreynda, sem gerð var ljós grein fyrir í framtali mínu:
að ég hefi engar tekjur haft af umræddri íbúð.
að sonur okkar, S, telur sér til tekna sem tekjur af eigin húsnæði afnotarétt sinn af íbúðinni, — þannig að „leigutekjur“ af íbúðinni eru ekki dregnar undan sem skattstofn, — áskil ég mér allan rétt varðandi þessa ákvörðun yðar.
Og til vara: Ef það fæst ekki staðist samkv. skattalögum, að okkur sé frjálst að heimila syni okkar og fjölskyldu hans að búa í íbúð okkar án greiðslu, — notaréttur, sem hann telur sér til tekna — að þá komi ekki til tvísköttunar varðandi umræddar tekjur af „eiginhúsaleigu“, þ. e. a. s. við verðum báðir skattlagðir vegna sömu „tekna“.“
Skattstjóri kvað upp úrskurð hinn 23. nóv. 1979 og var umrædd teknaviðbót látin óbreytt standa.
Kærandi hefur skotið þessu máli til ríkisskattanefndar með bréfi dags. 5. desember 1979. Þar segir m. a. um ákvörðun skattstjóra:
„Það er síður en svo, að ég vilji vefengja að sú ákvörðun geti staðist gagnvart bókstafstúlkun skattalaganna, enda þótt öllu réttlæti sé fullnægt, og keisarinn — ríkissjóður/ bæjarfélag — fái það sem hans er lögum samkvæmt. Og er ekki anda laganna og tilgangi fullnægt, ef umræddar tekjur eru taldar fram af syni okkar og verða eftir sem áður jafn mikill og traustur gjaldstofn og verið hefði þó ég hafi talið téðar „leigutekjur“ fram á mínu skattframtali 1979?
Ég vænti þess, að háttvirt ríkisskattanefnd láti mér í té afstöðu sína til „Úrskurðar“ skattstjórans í Vestfjarðaumdæmi í bréfi hans til mín frá 23. f. m.
Ég treysti því, að, ríkisskattanefndin hlutist jafnframt til þess, að hér verði ekki um tvísköttun að ræða varðandi margnefndar „leigutekjur“, sem eru, samkv. tilkynningu skattstjórans í Vestfjörðum frá 4. maí 1979 192 840,00 kr.“
Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi dags. 24. nóvember 1980 gerðar svofelldar kröfur:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Jafnframt skal á það bent að rétt væri að leiðrétta framtöl sonar kæranda og virðist eðlilegt að ríkisskattanefndin framkvæmdi þá leiðréttingu til að koma í veg fyrir tvíverknað og flýta afgreiðslu þess máls.“
Með vísan til C-liðs 7. gr. laga nr. 68/1971 er úrskurður skattstjóra staðfestur. Vegna athugasemdar ríkisskattstjóra verður að telja rétt að ríkisskattstjóri sjálfur neyti heimildar 101. gr. laga nr. 40/1978 til athugunar og endurákvörðunar á opinberum gjöldum S, er leiðir af úrskurði þessum.