Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 240/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 31. gr. 7. tl. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. og 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 1. mgr. — 101. gr. 3. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Reiknað endurgjald — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Eigin atvinnurekstur — Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Kærufrestur — Kæruúrskurður — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra — Rekstrartap, yfirfæranlegt — Yfirfæranlegt rekstrartap — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Leiðrétting — Leiðréttingarbeiðni skattaðila á framtali — Leiðrétting skattframtals — Leiðbeiningar ríkisskattanefndar — Frádráttarheimild — Lagaheimild — Valdsvið ríkisskattanefndar

Málavextir eru þeir, að gjaldárið 1989 bætti skattstjóri 25% álagi við skattstofna kærenda vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í skattskilum sínum árið 1990 færðu kærendur með yfirfæranlegu rekstrartapi frá fyrra ári 210.000 kr. sem skatta, er leitt hefðu af fyrrnefndri álagsbeitingu. Hinn 20. júlí 1990 tilkynnti skattstjóri kærendum, að yfirfæranlegt tap hefði verið lækkað um nefnda fjárhæð svo og framreikning hennar og ákvarðaði hreinar tekjur í samræmi við þá breytingu. Var þessu mótmælt í kæru, dags. 27. ágúst 1990. Skattstjóri synjaði kærunni með kæruúrskurði, dags. 5. október 1990, á þeim grundvelli að engin lagaheimild væri til frádráttar umræddrar fjárhæðar.

Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. nóvember 1990. Segir svo í kærunni:

„Vegna breytinga á skattframtali 1990 frá Skattstofunni vilja undirrituð, A og B, höfða til réttlætiskenndar Ríkisskattanefndar og fara fram á að hún fallist á þá ósk okkar að 25% álagsheimild skattyfirvalda vegna þess að framtal 1989 barst ekki í tæka tíð verði viðurkennd sem reiknuð laun ársins 1988 á landbúnaðarframtali og myndi hið umdeilda rekstrartap.

Undirrituð minnast þess ekki að hafa áður sýnt þann trassaskap að skila of seint inn skattframtali og finnst því í þessu máli sé farið offari í beitingu refsiheimilda skattalaganna, því 25% álagningin skilst okkur að sé aðeins heimild en ekki skylda.“

Með bréfi, dags. 28. janúar 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Tilefni kæru kærenda til ríkisskattanefndar, dags. 4. nóvember 1990, eru breytingar skattstjóra gjaldárið 1990, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 5. október 1990. Efnislegar kröfur í kærunni varða hinsvegar gjaldárið 1989. Kæranlegur úrskurður skattstjóra varðandi það gjaldár liggur fyrir í málinu. Er hann dagsettur 6. október 1989. Að því er snertir þann úrskurð er kæran framkomin að kærufresti löngu liðnum, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er henni af þeim sökum vísað frá. Rétt þykir að benda kærendum á til leiðbeiningar, að ríkisskattanefnd hefur ekki hliðstæða heimild til breytinga á áður álögðum opinberum gjöldum og ríkisskattstjóra er veitt með 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja