Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 55/1981

Gjaldár 1979

Lög 68/1971, 25. gr.  

Barnabætur — Einstætt foreldri — Óvígð sambúð — Sambýlisfólk — Lögheimili — Meðlag — Sambúðarslit — Foreldravald

Kærð er álagning opinberra gjalda svo og ákvörðun barnabóta gjaldárið 1979.

Málavextir eru þeir, að kærandi krafðist þess í kæru til skattstjóra, að sér yrðu ákvarðaðar barnabætur með börnum sínum tveimur, B f. 9. 7.1969 og S f. 22. 10. 1970, þar sem þau væru á hans framfæri og að álagningu á hann yrði hagað sem einstætt foreldri. Með úrskurði dags. 3. október 1979 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með þeim rökum að Hagstofa Íslands hefði ekki talið börnin til heimilis hjá honum.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 22. október 1979 og ítrekar fyrri kröfur sínar. Kærandi gerir þá grein fyrir högum sínum að hann hafi fyrir nokkrum árum búið í óvígðri sambúð með móður nefndra barna. Þeirri sambúð hafi verið slitið fyrir um það bil 4 árum og hafi konan fengið forræði barnanna en kærandi greitt meðlag með þeim. Mál hafi hinsvegar þróast þannig að börnin hafi meira og minna verið hjá kæranda og síðustu árin nánast alfarið. Móðirin hafi um alllangan tíma unnið sem ráðskona hjá Rafmagnsveitum ríkisins úti á landi og því lítið verið heima. Gangi báðir drengirnir í skóla í heimilissveit kæranda, Hafnarfirði. Meðlagsgreiðslurnar séu viðkvæmt mál, þar sem kærandi óttist, að móðir drengjanna taki þá til sín, verði meðlagsgreiðslur stöðvaðar, enda hafi hún forræði þeirra lögformlega. Með kæru fylgdi staðfesting Öldutúnsskóla, Hafnarfirði, dags. 15. 10. 1979, um vist yngri drengsins í þeim skóla undanfarandi tvo vetur.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 23. október 1980:

„Berist yfirlýsing frá barnsmóður kæranda til stuðnings kæru og fallist barnsmóðirin á að barnabætur hennar falli brott en að kærandi njóti þeirra, er fallist á að ríkisskattanefnd framkvæmi téða breytingu.“

Með bréfi dags. 30. október 1980 var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og gefinn 30 daga frestur til að koma að athugasemdum sínum. Með bréfi dags. 21. nóvember 1980 bárust athugasemdir umboðsmanns kæranda. Kemur þar fram, að kærandi telur ekki tök á því að afla samþykkis barnsmóður fyrir því að hún falli frá barnabótum, en telur sig eiga rétt á barnabótunum, þar sem hann hafi sannað að hann annist framfærslu umræddra barna. Þá er í bréfinu tekið fram að barnsmóðirin njóti ekki meðlagsgreiðslna lengur.

Með bréfi dags. 7. janúar 1981 var A, fyrri sambýliskonu kæranda og móður drengja þeirra, er í málinu greinir, gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna. Athugasemdir hennar, dags. 18, janúar 1981, hafa borist. í bréfi þessu kveður A, B hafa verið í fóstri hjá K og G, að X-götu í Hafnarfirði, og telur eðlilegast að framfærendur njóti barnabóta vegna hans, enda hafi hún ekki haft þær sjálf. Á hinn bóginn kveður A S vera á sínum vegum þótt kærandi hafi haft hann um skólatímann undanfarna þrjá vetur sökum atvinnu hennar úti á landi. Skólaárið 1980 — 1981 sé S hins vegar á hennar vegum og verði það framvegis.

Á það er fallist, að kærandi njóti barnabóta vegna sonar síns B f. 9. 7. 1969 svo og hljóti skattlagningu sem einstætt foreldri. Svo sem gögn málsins liggja fyrir þykir eigi vera unnt, gegn mótmælum barnsmóður kæranda að fallast á barnabætur kæranda til handa vegna sonar hans S f. 22. 10. 1970.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja