Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 57/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 7. gr., 37. gr., 47. gr.  

Bifreiðahlunnindi — Málsmeðferð áfátt — Svar við fyrirspurn — Sönnun — Meginregla — Svarfrestur — Síðbúið svar við fyrirspurn — Sönnunargögn — Gagnaöflun skattstjóra — Andmælareglan

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 21. júní 1979 tjáði skattstjóri kæranda, að einkaafnot hans af bifreið í eigu fyrirtækisins X hefðu verið metin til hlunninda sem samsvaraði 520 000 kr. og væri fyrirhugað að hækka tekjur hans sem því næmi. Væru einkaafnotin metin 10 000 km. Gefinn var 7 daga frestur til að koma að athugasemdum. Með bréfi dags. 6. júlí 1979, móttökustimpluðu af skattstjóra 11. júlí s. á., mótmælti umboðsmaður kæranda fyrirhugaðri teknahækkun vegna áætlaðra bifreiðahlunninda og vísaði til þess að kærandi ætti sjálfur tvær bifreiðir. Yrði því ekki séð á hverju einkaafnot af þriðju bifreiðinni byggðust og var þess óskað að skattstjóri gerði grein fyrir því. Í skattskrá árið 1979 var ofannefnd fjárhæð vegna bifreiðahlunninda skattlögð hjá kæranda.

Með kæru dags. 8. ágúst 1979 var þess krafist af hálfu kæranda að hin umdeilda fjárhæð vegna bifreiðahlunninda yrði felld niður. Með úrskurði dags. 29. október 1979 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Byggði skattstjóri á því að kærandi hefði „full yfirráð yfir fólksbifreið félagsins, sem er Wagoneer árg. 1974“ og að bifreiðar af nefndri gerð væru „mjög vel fallnar til einkaafnota.“ Þá tekur skattstjóri fram, að kærandi hafi tvímælalaust haft þau hlunnindi að aka til og frá vinnu. Utan vinnutíma stæði bifreiðin við heimili kæranda og mætti „líklegt telja að gripið sé til hennar öðru hverju, jafnvel þó að kærandi eigi aðrar bifreiðar sjálfur“, eins og segir í úrskurði skattstjóra. Þá tekur skattstjóri fram, að það sé „algengt núorðið að menn hafi fleiri en eina bifreið til afnota fyrir sig og fjölskylduna.“ Mati sínu til stuðnings vísaði skattstjóri til þess, að í „áætlun um rekstrarkostnað Range Rover“, útgefinni af F. í. B. væri gert ráð fyrir 25 000 km meðalakstri í einkaþágu á ári af einni bifreið.

Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 9. nóvember 1979, og krefst þess að tekjuviðbót skattstjóra verði niður felld. Færð eru svofelld rök fyrir kröfunni:

„1. Bifreiðin A, eign X, er eingöngu notuð í þágu atvinnuveitenda.

2. B á til einkaafnota tvær bifreiðar, eina fólksbifreið, og eina jeppabifreið.

3. Í bréfi skattstofu segir að „líklegt megi telja að gripið sé til bifreiðarinnar öðru hverju“. Hér gefur skattstofan sér mjög hæpnar forsendur fyrir ákvörðun sinni. Hver grípur til illa útlítandi fyrirtækisbifreiðar, þegar tvær aðrar í mun betra ástandi standa í hlaði? Vel má vera að gripið hafi verið til fyrirtækisbifreiðar Öðru hverju, en má ekki líka telja líklegt að gripið hafi verið til einkabifreiðar í þágu fyrirtækisins öðru hverju.

4. Skattstofan vísar til „áætlunar um rekstrarkostnað Range Rover“ útgefin af F. í. B. Ekki verður séð að þó að einhver þriðji aðili gefi út áætlun um rekstrarkostnað bifreiðar og leggi til grundvallar ákveðin einkanot í eknum kílómetrum, kostnað vegna vaxta, afskrifta o. fl. o. fl., að skattleggja skuli landsmenn eftir þeim áætlunum. Ekki er vitað til að opinber staðfesting liggi fyrir þessum útreikningum. Einnig telur undirritaður þær tölur sem F. í. B. auglýsir sem rekstrarkostnað bifreiða komi flestum bifreiðaeigendum undarlega fyrir sjónir hvað upphæð talna snertir. Einnig skal á það bent að tölur frá F. í. B. eru lagðar fram í ákveðnum tilgangi þ. e. með ákveðna kröfugerð í huga. Flestir munu vera sammála um að meðalakstur í einkaþágu aðila sem ekki stundar atvinnurekstur eða nota bifreið því meira geti numið 25 000 km á ári. Hér er um algjöra fjarstæðu að ræða. Líklegt má telja meðalakstur slíkra aðila sé á bilinu 8 — 12000 km í einkaþágu. Miðað við 25 000 km ársakstur ætti að aka tæpa 70 km hvern einasta dag ársins.

Því er hækkun skattstofu algerlega mótmælt, sem byggð er á illa rökstuddum fullyrðingum sem ekki eiga neinn rétt á sér, og er farið fram á að skattframtal 1979 standi óbreytt.“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 15. desember 1980:

„Ríkisskattstjóri álítur að eigin not kæranda af bifreið vinnuveitanda hans séu ótvíræð. Hins vegar þykir með tilliti til skýringa kæranda og upplýsinga mega fallast á lækkun hins umdeilda mats.“

Skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi dags. 21. 6. 1979 að fyrirhugað væri að hækka tekjur hans um 520 000 kr. vegna ætlaðra skattskyldra bifreiðahlunninda og gaf sjö daga frest til andsvara. Svarbréf kæranda barst eigi fyrr en að liðnum nefndum svarfresti. Bar skattstjóra því að áætla kæranda tekjur eins og fyrir er mælt í 6. ml. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 60/1973, og tilkynna kæranda skriflega um þá áætlun fyrir framlagningu skattskrár, sbr. 7. ml. 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Hið síðbúna svar kæranda bar skattstjóra að taka sem skattkæru samkvæmt grunnreglu upphafsákvæða 6. mgr. 47. gr. sömu laga og taka til rökstuddrar úrlausnar við uppkvaðningu kæruúrskurðar þær fullyrðingar kæranda, sem fram koma í bréfi hans, dags. 6. júlí 1979. Skattstjóri gætti ekki þessara ákvæða við meðferð málsins. Þá verður eigi annað ráðið af meðferð skattstjóra á máli þessu en að hann byggi að einhverju leyti á gögnum eða upplýsingum sem ekki er frá greint í málinu og ekki að neinu leyti reifuð þar. Þá verður á það að fallast með kæranda, að rökstuðningur skattstjóra í úrskurði hans sé ekki að öllu leyti viðhlítandi til áætlunar þeirra tekna sem um er deilt í kærumálinu. Á það er og að líta, að virtum þeim upplýsingum er fyrir liggja af hendi kæranda, að gögn málsins, eins og þau liggja fyrir, þykja eigi hafa gefið nægt tilefni til hinnar umdeildu tekjuviðbótar. Með tilvísan til framanritaðs er fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja