Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 87/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 13/1980, 3, gr., 7. gr. Lög nr. 8/1972, 23. gr. 27. gr. Lög nr. 20/1980, 2. gr. Lög nr. 7/1980, 27. gr., 34. gr. Lög nr. 73/1980, 37. gr., 23. gr., 27. gr. Lög nr. 40/1978, 66. gr., 53. gr., 2. mgr. 30. gr.
Skattframtal berst með kæru — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Athugasemdir kæranda við kröfugerð ríkisskattstjóra — Framtal í stað áætlunar — Greinargerð um aðstöðugjaldsstofn — Valdsvið ríkisskattanefndar — ívilnun — Leiðrétting skattframtals
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.
Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts gjaldárið 1980. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberrar gjalda það ár. Kærandi kærði álagninguna til skattstjóra með bréfi dags. 29. ágúst 1980 og kvaðst eigi kunna á því skýringu hví skattframtal hans árið 1980 hefði ekki borist í hendur skattstjóra. Áskildi hann sér rétt til frekari rökstuðnings og til að leggja fram afrit skattframtals, ef frumrit þess kæmi ekki í leitirnar. Með úrskurði dags. 17. nóvember 1980 ákvað skattstjóri að fyrri álagning skyldi óbreytt standa þar sem rökstuðningur fyrir kæruatriðum hefði ekki borist.
Með kæru til ríkisskattanefndar, dags. 15. desember 1980, fylgdi skattframtal kæranda árið 1980 og þess farið á leit að það verði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra án viðurlaga.
Með bréfi dags. 22. janúar 1981 hefur ríkisskattstjóri fallist á að innsent skattframtal verði lagt til grundvallar við gjaldaákvörðun með nokkrum breytingum, þ. á m. um hækkun reiknaðra launa frá mati kæranda, reiknuð verði verðbreytingarfærsla, sbr. lokamgr. 53. gr. laga nr. 40/1978 með síðari breytingum, aðstöðugjaldsstofn „verði áætlaður með hliðsjón af innsendum ársreikningi og 25% álagi, þar sem aðstöðugjaldsframtali hafi ekki verið skilað, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980“. Þá er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra, að eftirgjafarbeiðni skv. 66. gr. laga nr. 40/1978, sbr. 34. gr. laga nr. 7/1980, verði vísað frá, en beiðni þessi, dags. 15. apríl 1980, fylgir skattframtali kæranda.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerð ríkisskattstjóra og hafa athugasemdir hans borist í bréfi, dags. 31. janúar 1981. Gerir kærandi í bréfi þessu ítarlega grein fyrir mati sínu á reiknuðu endurgjaldi og krefst þess að skattframtalið verði lagt óbreytt til grundvallar álagningu.
Þá hefur ríkisskattstjóri með bréfi dags. 5. febrúar 1981 tjáð sig um athugasemdir kæranda og ítrekar fyrri kröfur.
Að virtu skattframtali kæranda árið 1980, er nú liggur fyrir og með hliðsjón af upplýsingum hans og skýringum er eigi hefur verið hnekkt, þykir mega fallast á þá kröfu hans að skattframtalið verði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra. Þær breytingar þykir þó bera að gera að færa kæranda til tekna 45 551 kr. vegna verðbreytingar með vísan til ákvæða 53. gr. laga nr. 40/1978, sbr. 27. gr. laga nr. 7/1980 svo og hækka fastan frádrátt í 550 000 kr. með vísan til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978, sbr. 2. gr. laga nr. 20/ 1980. Engin efni þykja vera til þess að áætla kæranda stofn til aðstöðugjalds svo sem ríkisskattstjóri krefst, enda liggja fullnægjandi upplýsingar fyrir í gögnum málsins til ákvörðunar hans og gefur grein sú í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, er ríkisskattstjóri vitnar til, ekkert tilefni til þess að álíta að svo skuli með fara.
Ríkisskattanefnd fjallar eigi um beiðnir, er kunna að berast um ívilnanir á tekjuskatti og útsvari skv. heimildarákvæðum 66. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 34. gr. laga nr. 7/1980, um breytingu á þeim lögum, og 23. gr, og 27. gr. laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. 3. og 7. gr. laga nr. 13/1980, um breytingu á þeim lögum. Ber að snúa sér til skattstjóra og ríkisskattstjóra og eftir atvikum viðkomandi sveitarstjórnar að því er þetta varðar.