Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 109/1981
Gjaldár 1977
Lög nr. 68/1971, 38., 42. og 47. gr.
Vanframtaldar tekjur og eignir — Endurákvörðun — Vaxtatekjur — Arfur — Bankainnistæður erlendis — Viðurlög — Sönnun — Gengi — Sönnunarbyrði — Sönnunargögn
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1977.
Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 8. febrúar 1978 tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda, að samkvæmt upplýsingum, sem rannsóknardeild ríkisskattstjóra hefði undir höndum, hefði kærandi átt innstæðu og haft af henni vaxtatekjur í RB í H, Danmörku. Hefði inneign þessi numið 25 379 d. kr. pr. 31. 12. 1976 og vaxtatekjur af innstæðunni samtals 379 d. kr. á árinu 1976. Við athugun á skattframtali kæranda árið 1977 hefði komið í ljós, að hvorki væri þar getið um innstæðu þessa, né vaxtatekjur af henni. í bréfinu var þess óskað að kærandi gerði ítarlega grein fyrir innstæðu þessari, m. a. hvar, hvernig og hvenær hún hefði myndast. Einnig er þess óskað, að sent yrði bankayfirlit frá stofnun reikningsins. Svör skyldu berast fyrir 21. febrúar 1978, ella mætti við því búast að hrein eign pr. 31. 12. 1976 og hreinar tekjur árið 1976 yrðu áætlaðar til viðbótar framtöldum tekjum.
Svar barst frá kæranda, dags. 21. febrúar 1978, og fylgdu því ljósrit nefndra reikningsyfirlita. í bréfinu kveður kærandi, að nefndur bankareikningur við RB hafi verið stofnaður seint á árinu 1976. Hafi hér verið um móðurarf að ræða og hafi til reikningsins verið stofnað af eftirlifandi móðursystur er búsett sé í H. Reikningsyfirlit frá bankanum hafi fyrir mistök verið sent að X, Garðakaupstað, er hafi verið nýbygging í smíðum í eigu kæranda. Hafi hann ekki átt erindi í húsið fyrr en um vorið 1977 og hafi þar þá legið fyrir yfirlitsreikningar frá RB, dags. 2. 12.1976 og 31. 12. 1976. Skattframtali ársins 1977 hafi þá verið skilað. Þá gerði kærandi grein fyrir breytingum á reikningnum á árinu 1977.
Þann 22. janúar 1979 tók ríkisskattstjóri skv. heimild í 42. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 16. gr. laga nr. 7/1972, álagðan tekjuskatt, eignarskatt, útsvar og sjúkratryggingagjald gjaldárið 1977 til endurákvörðunar. í endurákvörðun sinni tekur ríkisskattstjóri fram, að í framhaldi af svarbréfi kæranda hafi þess verið farið á leit, að kærandi legði fram erfðafjárskýrslu vegna þess arfs er hann hlaut í Danmörku. Með því að kærandi hefði ekki orðið við þeirri ósk, yrði að telja upplýsingar hans ekki nægilega rökstuddar. Yrði því að hækka hreinar tekjur og hreina eign kæranda á gjaldárinu 1977 um fjárhæð er næmi höfuðstól innstæðunnar. Við ákvörðun hækkunar hreinna tekna og eignar var kaupgengi danskrar krónu í árslok 1976 lagt til grundvallar. Þá beitti ríkisskattstjóri 25% viðurlögum skv. 47. gr. laga nr. 68/1971. Skv. þessu hækkuðu hreinar tekjur og hrein eign gjaldárið 1977 um 1 041 021 kr.
Ákvörðun þessi var af hálfu kæranda kærð með bréfi dags. 6. febrúar 1979. Var í kærunni talin nauðsyn á frekari gagnaöflun er kynni að reynast tímafrek. Með úrskurði dags. 5. september 1979 ákvað ríkisskattstjóri að fyrri ákvörðun skyldi óbreytt standa, enda hefðu engin frekari gögn borist og málavextir því óbreyttir.
Úrskurði ríkisskattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 25. september 1979 og krefst þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hrundið. Fljótræði hefði verið af ríkisskattstjóra að úrskurða í málinu þar sem gagnaöflun hefði ekki verið lokið. Með kæru fylgdi Ijósrit bréfs T málflutningsmanns í H, dags. 20. ágúst 1979, þar sem m. a. fram kemur, að móðir kæranda hafi hlotið í arf (nettó) eftir M 38 000 d. kr. í bréfinu er þess getið að gagnaöflun haldi áfram.
Með bréfi dags. 21. október 1980 krafðist ríkisskattstjóri þess í málinu að kærunni yrði vísað frá þar sem álíta yrði kæruna órökstudda og málið vanreifað af hálfu kæranda. Þann 9. janúar 1981 móttók ríkisskattanefnd frá kæranda ljósrit erfðafjárskýrslu, dags. 29. apríl 1957, vegna arfskipta eftir frú I, H, Danmörku, er mun hafa verið móðurmóðir kæranda. Er erfðafjárskýrslan staðfest af skiptarétti H þann 7. maí 1957. Nettóarfur er tilgreindur 80 670 d. kr. er skiptist jafnt milli tveggja dætra arfleifanda, A og B, 40 335 d. kr. til hvorrar. Mun móðir kæranda, B, hafa andast 13. desember 1972. Þá liggur ljósrit kvittunar, dags. 7. maí 1957, um greiðslu erfðafjárskatts 1 252 d. kr. af hvorum erfðahlut. Kærandi kveður hina umdeildu inneign sína í RB, eiga rætur að rekja til þessara fjármuna. Hafi þeir við andlát móður sinnar runnið til sín og bróður síns.
Með bréfi dags, 19. janúar 1981 var ríkisskattstjóra gefinn kostur á að tjá sig um ofangreint gagn. Svofelldar athugasemdir bárust með bréfi dags. 3. febrúar 1981:
„Eigi verður séð að nefnd erfðafjárskýrsla sanni að kærendum, sem þar eru hvergi nefndir, hafi áskotnast umræddar innstæður skv. erfðagerningi. Þó svo yrði talið hefur eigi verið sýnt fram á, að kærendur hafi greitt erfðafjárskatta og ber því meðan nánari greinargerð hefur eigi borist frá kærendum að gera þá kröfu, að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem málið sé vanreifað af kæranda hálfu.
Í kæru L til ríkisskattanefndar, dags. 23. sept. 1979, koma fram atriði sem e. t. v. geta upplýst hvers eðlis nú fram lögð skjöl, þ. e. erfðafjárskýrsla, dags. 29. apríl 1957, er. Segir svo í kærunni:
„Danskur lögfræðingur vinnur þó að málinu, svo sem meðfylgjandi kopia sýnir, og var í upphafi lagt fyrir hann að fá fram sannanir fyrir því, að um arf væri að ræða.
Ég harma hve vinnuhraði lögfræðingsins er lítill, en ágústbréf hans er svar við bréfi mínu frá því í apríl s. 1. Auk þess virðist hann vera farinn að leita langt yfir skammt, því þarna er hann kominn í arf móður minnar eftir konu sem sennilega hefur verið afasystir mín, og veit ég ekki hvenær sú kona hefur látizt.
Ég hefi nú reynt að beina lögfræðingnum á rétt spor aftur og er bara að vona að Ríkisskattanefndin hafi biðlund í málinu.“
Verður ekki annað séð en hér sé um að ræða lýsingu á nú fram lögðum gögnum. Með vísan til þessa er sem fyrr segir frávísunarkrafa ítrekuð.“
Með framlögðum gögnum og skýringum sínum þykir kærandi hafa fært næg rök að því að hin umdeilda innstæða í RB sé tilkomin vegna erfðafjár með þeim hætti er í málinu greinir. í ljósi þessa þykja því eigi efni til að hækka tekjur kæranda um heildarfjárhæð nefndrar innstæðu svo sem ríkisskattstjóri hefur gert. Á hinn bóginn þykir bera að færa kæranda til skattskyldra tekna vaxtatekjur af nefndri innstæðu á árinu 1977, 379 d. kr. (á kaupgengi í árslok 1976), eða 12 437 kr. Þá þykir bera að staðfesta ákvörðun ríkisskattstjóra um hækkun hreinnar eignar að öðru leyti en því að svo sem mál þetta er vaxið þykja eigi efni til beitingar viðurlaga. Verður hækkun hreinnar eignar því 832 817 kr.