Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 130/1981
Gjaldár 1978
Lög nr. 19/1940, 81. gr. Lög nr. 10/1960, 1. og 4. mgr. 25. gr.
Söluskattssvik — Sektir — Bókhald — Fyrning sakar — Sýkna — Skattrannsóknarstjóri
Með bréfi dags. 17. nóvember 1980, mótteknu 11. desember 1980, hefur skattrannsóknarstjóri krafist þess að ríkisskattanefnd taki til meðferðar mál X sf, B-stræti, Akureyri. í því bréfi er svofelld kröfugerð:
„Hinn 12. júní 1978 var gerð athugun af hálfu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á bókhaldi og söluskattsskilum félagsins fyrir janúar, febrúar og mars 1978. Við þá athugun kom m. a. í ljós, að bókhald félagsins fyrir janúar, febrúar og mars 1978 var ekki fært á skoðunardegi annað en sjóðbók, hvorki var fært staðgreiðslusöluyfirlit né notaðir áritaðir strimlar úr lokuðum sjóðvélum sem fylgiskjöl innfærslu staðgreiðslusölunnar í bókhaldið. Skráning lánssölunnar var einnig ófullnægjandi. Lánssalan var greidd í kassa í verslun félagsins og færð sem sala í sjóðbók í lok starfsdags ásamt staðgreiðslusölunni án þess að nokkur aðgreining væri gerð þar á milli. Frumskráning sölu var svo miklum annmörkum háð, að hún getur ekki verið öruggur grundvöllur til að byggja rétt söluskattsskil á.
Skv. framanskráðu hefur félagið vanrækt skyldu sína til að halda tilskilið bókhald samkvæmt lögum og reglugerðum um bókhald og söluskatt og verður því að telja að það varði félagið sektum skv. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10/1960, sbr. 14. gr. laga nr. 10/1974.“
Með bréfi ríkisskattanefndar dags. 14. janúar 1981 var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kæru. Gerði hann það með bréfi dags. 5. febrúar 1981.
Refsikröfur á hendur gjaldanda vegna þeirra meintu brota er um getur í nefndri kæru eru fyrndar, sbr. 81. gr. laga nr. 19/1940, enda tekur 4. mgr. 25. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt, sbr. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 10/1974, ekki til þeirra fésekta sem lögmæltar eru í 1. mgr. sömu greinar. Verður því að sýkna gjaldanda af framkominni refsikröfu skattrannsóknarstjóra í máli þessu.