Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 139/1981
Gjaldár 1979
Lög nr. 68/1971, 10. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr.
Söluhagnaður — Eignarnámsbætur — Kröfugerð
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.
Málavextir eru þeir, að kærandi greindi frá því í D-lið skattframtals síns árið 1979, að bæjarsjóður Hafnarfjarðar hefði tekið til baka húseign í smíðum að X-vangi, Hafnarfirði, skv. mati framkvæmdu af verkfræðingi frá Hafnarfjarðarbæ á 5 000 000 kr. Kostnaður um áramót 1977/1978 hefði numið 1 524 035 kr. Viðbótarkostnaður 1978 hefði verið 1 328 000 kr.
Með bréfi dags. 29. nóvember 1979 tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að taka skattframtal hans árið 1979 til endurálagningar og bæta við tekjur hans skattskyldum söluhagnaði vegna „sölu á byggingarframkvæmdum að X-vangi, Hafnarfirði, 2 147 965 kr.“ Var 10 daga frestur gefinn til andsvara. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 14. desember 1979. Mótmælti hann fyrirhugaðri tekjuhækkun og vísaði til ákvæða 10. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, og dóms Hæstaréttar Íslands, er uppkveðinn var 5. apríl 1979 og varðaði skattlagningu altjónsbóta. Hér væri um eignarnámsbætur að ræða og ætti 10. mgr. E-liðar nefndrar lagagreinar, sbr. túlkun Hæstaréttar í nefndum dómi, einnig við um slíkar bætur. Kærandi hefði ekki staðið við skilmála um byggingarhraða er settir hefðu verið af hálfu Hafnarfjarðarbæjar við lóðaúthlutun. Hefði bærinn neitað kæranda að selja mannvirkið á frjálsum markaði en tekið í þess stað lóð og mannvirki eignarnámi og hafi verð verið langt undir markaðsverði. Til vara fór kærandi fram á að skattskyldum hluta söluhagnaðar yrði dreift á 5 ár skv. 10. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. skattalaga. Með bréfi kæranda fylgdi ljósrit svofelldrar staðfestingar bæjarstjórans í Hafnarfirði, dags. 21. júlí 1978.
„Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar 12. þ. m. var gerð svofelld bókun:
„Lagt fram bréf frá H, þar sem hann óskar eftir að fá að selja lóð og mannvirki að X-vangi, sökum fjárhagserfiðleika. Synjað, en bærinn er reiðubúinn að yfirtaka mannvirkin á mats- eða samkomulagsverði.““
Skattstjóri féllst eigi á það sjónarmið kæranda að um eignarnámsbætur væri að ræða.
Endurákvarðaði hann áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1979 og hækkaði tekjur hans um 2 147 965 kr.
Úrskurði skattstjóra, dags. 13. febrúar 1980, hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 10. mars 1980. Eru fyrri kröfur ítrekaðar og vísað til áður framkomins rökstuðnings.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 30. janúar 1981:
„Að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Hvorki verður séð að tilvik þau, er greinir í málinu falli undir altjón eða eignarnám. Samningur kæranda og bæjaryfirvalda lá til grundvallar aðilaskiptum á eign hans.“
Eigi er deilt um fjárhæðir í máli þessu. Með þessari athugasemd svo og með tilvísun til gagna málsins þykir bera að svo komnu að staðfesta hinn kærða úrskurð.