Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 150/1981

Gjaldár 1979

Reglugerð nr. 245/1963, 25. gr.   Lög nr. 68/1971, 1. mgr. 37. gr., B-liður 10. gr.  

Viðhaldskostnaður íbúðarhúsnæðis — Málsmeðferð áfátt — Skaðabætur — Miskabætur — Fjártjón — Ólögmæt uppsögn úr opinberu starfi — Sönnun — Dómur í skaðabótamáli — Skipting dæmdrar bótafjárhæðar — íbúðarhúsnæði — Skaðabótamá) — Viðhaldskostnaður

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 23. maí 1979 fór skattstjóri þess á leit við kæranda að hann legði fram reikninga yfir tilgreindan viðhaldskostnað, 2 272 470 kr., ásamt skýringum á „svo miklum viðhaldskostnaði.“ Þá er í bréfi þessu þess óskað að nánari grein yrði gerð fyrir dæmdum skaðabótum. Fer skattstjóri fram á upplýsingar um eftirgreint:

„Til hvað löngum tíma þær ná yfír? Eða hvort hér sé eingöngu um miskabætur að ræða? Hvers þér óskið um skattlagningu þessarar upphæðar?“ Kærandi hafði látið fylgja skattframtali sínu árið 1979 sundurliðun kostnaðar vegna viðhalds íbúðar sinnar að X-sundi 72, Reykjavík. Þá fylgdi skattframtalinu greinargerð kæranda um viðhaldsframkvæmdirnar. Var í meginatriðum um að ræða lagningu „parkett“ gólfs í stað ónýts gólfdúks og teppa, endurnýjun eldhúsinnréttingar, endurnýjun eldavélar, skilvegg, endurnýjun hreinlætistækja, viðgerð rafkerfis og málun á hluta húsnæðisins. í D-lið skattframtals síns greindi kærandi frá því, að hann hefði á skattárinu fengið skaðabætur samkvæmt dómi, 2 518 000 kr., vegna ólöglegrar brottvikningar úr starfi. Hefðu bæturnar verið ákveðnar í eitt skipti fyrir Öll. Skriflegt svar skyldi hafa borist skattstjóra í síðasta lagi 30. maí 1979. Ekki verður séð að kærandi hafi gefið þær skriflegu skýringar er um var beðið í bréfi skattstjóra. Reikningar yfir viðhaldskostnað hafa hins vegar verið lagðir fram og liggja þeir fyrir í málinu.

Að svo búnu tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi dags. 26. júní 1979 að tekjur á skattframtali hans árið 1979 hefðu verið hækkaðar um 3 671 500 kr. vegna eftirgreindra breytinga:

„Með tilvísun til 5. tl. A-liðs 13. gr. og D-liðs 16. gr. reglug. nr. 245/1963 eru bætur vegna atvinnutaps eða launamissis skattskyldar sem tekjur.

Tekjur yðar á framtali 1979 hafa því verið hækkaðar um kr. 2 518 000, sem er tildæmd bótafjárhæð yðar.

Viðhaldskostnaður hefur verið lækkaður úr kr. 2 272 470 í kr. 1 118 970 sjá 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963.“ Þess var getið í tilkynningunni að kærufrestur yrði auglýstur við útkomu skattskrár.

Með ódagsettri kæru kærði umboðsmaður kæranda þessar breytingar til skattstjóra. Með úrskurði dags. 10. október 1979 synjaði skattstjóri kærunni með því að engin rök kæmu fram í henni.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. október 1979. Krefst hann þess að tilfærður viðhaldskostnaður íbúðarhúsnæðis verði tekinn til greina svo sem hann var tilgreindur í skattframtali. Kærandi telur að sér beri réttur til þess, að tildæmdum tjónbótum vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi verði bætt við tekjur áranna 1977, 1978 og 1979, þar sem um hefði verið að ræða bætur fyrir launatap vegna uppsagnar á árinu 1976, reiknað fram í tímann. Væri eðlilegast að fjárhæð þessari væri a. m. k. skipt í þrennt og dreift á þrjú ár hið minnsta,

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 24. nóvember 1980:

„1. Svo virðist sem réttur kæranda sé síður en svo fyrir borð borinn með úrskurðum skattstjóra um frádráttarbæran viðhaldskostnað. Er krafist staðfestingar nefndarinnar um þann þátt.

2. Í kærunni koma ekki fram haldbærar upplýsingar um skiptingu þar til greindrar bótafjárhæðar. Hugsanlegt væri að fallast mætti á skiptingu hennar ef upplýsingar kæmu fram. Að svo komnu þykir þó bera að gera kröfu um frávísun þessa atriðis frá ríkisskattanefnd vegna vanreifunar þess af kæranda hálfu.“

Svo sem að framan greinir gerði kærandi ítarlega grein fyrir viðhaldsframkvæmdum sínum í fylgiskjali með skattframtali sínu árið 1979 og lét því og fylgja sundurliðun yfir kostnað vegna framkvæmdanna. Að athugun innsendra reikninga lokinni tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi dags. 26. júní 1979 að tilfærður viðhaldskostnaður hefði verið lækkaður um 1 153 500 kr. eða úr 2 272 470 kr. í 1 118 970 kr. Ástæður lækkunarinnar eru ekki tilgreindar, en vísað almennt til 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963, Á sundurliðun viðhaldskostnaðar, er fylgdi skattframtali kæranda, er m. a. eftirfarandi handskrifað: „Sjá 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Parketlögn ekki leyfð til frádr. 345 000 kr. Af eldhúsinnréttingu er ekki leyfð til frádr. áætluð endurbót 400 000 kr. Annað 408 500 kr.“ Samtals nema tölur þessar lækkunarfjárhæðinni 1 153 500 kr. Þá er strikað yfir ýmsa tiltekna liði í nefndri sundurliðun og fjárhæðir annarra lækkaðar. Sýnt þykir, að breytingar þessar og athugasemdir stafi frá skattstjóra. Skattstjóri gerði kæranda enga grein fyrir þessum atriðum, er hann þó byggði ákvörðun sína á. Málsmeðferð þessi er til þess fallin að spilla kröfugerð kæranda. Með tilvísan til þessa þykir eigi verða hjá því komist að ómerkja breytingu skattstjóra, að því er varðar lækkun gjaldfærðs viðhaldskostnaðar, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með dómi bæjarþings Reykjavíkur, uppkveðnum þann 19. apríl 1978, en staðfest ljósrit þess dóms liggur fyrir í máli þessu, voru kæranda dæmdar bætur að fjárhæð 1 800 000 kr. ásamt vöxtum frá 1. júní 1975 til greiðsludags, úr hendi fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs vegna ólögmætrar uppsagnar úr opinberu starfi. Bæði í aðalkröfu sinni og varakröfu hafði kærandi í nefndu dómsmáli krafist bóta bæði fyrir fjártjón og miska. Af niðurstöðum verður eigi ráðið að tildæmd bótafjárhæð hafi að geyma bætur vegna miska. Þykir því bera, svo sem gögn málsins liggja fyrir, að telja alla bótafjárhæðina að viðbættum vöxtum til skattskyldra tekna hjá kæranda. Af nefndum dómi bæjarþings Reykjavíkur verður eigi ljóslega leidd skipting bótafjárhæðar á tímabil eða hvort um slíka skiptingu hefur yfirleitt verið að ræða. Þykir því eigi efni til skiptingar tildæmdrar bótafjárhæðar ásamt vöxtum svo sem kærandi krefst eins og gögn málsins liggja fyrir.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja