Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 162/1981
Gjaldár 1979
Lög nr. 68/1971, D-liður 22. gr.
Vörubirgðir — Niðurfærsla vörubirgða — Niðurfærsla íbúða í smíðum — Lögskýring — Tilgangur lagaákvæðis — Lögskýringagögn — Íbúð í smíðum, niðurfærsla
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.
Málavextir eru þeir, að kærandi, er stundar byggingarstarfsemi, færði til gjalda á rekstrarreikningi sínum fyrir áríð 1978 niðurskrift íbúða í smíðum að fjárhæð 1 362 735 kr. Var hér um að ræða 7,5% niðurskrift af útlögðum kostnaði íbúða að X er nam 18 169 809 kr. pr. 31.12. 1978. Innborganir eigenda námu samkvæmt skýringum með ársreikningi kæranda 11 150 000 kr. Mismunur, 7 019 809 kr., var færður til eignar í efnahagsreikningi kæranda pr. 31.12. 1978.
Að undangenginni boðun í bréfi, dags. 12. mars 1980, tók skattstjóri skattframtal kæranda árið 1979 til endurálagningar með bréfi dags. 23, apríl 1980 og felldi niður hina gjaldfærðu birgðaafskrift 1 362 735 kr., þar sem ekki væri litið á byggingarframkvæmdir sem vörubirgðir samkvæmt D-lið 22. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Í úrskurði sínum, dags. 31. júlí 1980, vísaði skattstjóri til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 575/ 1979 niðurstöðu sinni til stuðnings.
Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 28. ágúst 1980. Með bréfi dags. 6. nóvember 1980 barst frekari greinargerð fyrir kæruatriðum.
Krafa umboðsmannsins er sú, að hin tilfærða birgðaniðurfærsla verði látin óbreytt standa. Telur umboðsmaðurinn að eignir þær er hér um ræðir, þ. e. íbúðir í smíðum, falli undir hugtakið vörubirgðir framleiðslufyrirtækja í D-lið 22. gr. laga nr. 68/1971. Byggir umboðsmaðurinn þetta sjónarmið á skýru orðalagi ákvæðisins og merkingu þess samkvæmt almennri málvenju. Þá vísar umboðsmaðurinn til hagfræðilegrar skýringar á framleiðsluhugtakinu. Þá ber umboðsmaðurinn fyrir sig, að nefndur úrskurður ríkisskattanefndar frá 1979 sé í ósamræmi við úrskurði ríkisskattanefndar nr. 894/1974 og nr. 129/1975. í hinum síðarnefnda úrskurði var heimiluð niðurfærsla stálbáts í smíðum. í hinum fyrrnefnda var og um að ræða niðurfærslu ófullgerðra verka skipasmíðastöðvar. Umboðsmaðurinn mótmælir þeim sjónarmiðum að eignfærður framleiðslukostnaður (byggingarkostnaður) geti ekki myndað stofn til birgðaniðurskriftar, þegar kaupandi sé fundinn, gerður hafi verið við hann kaup- eða verksamningur og hann farinn að greiða framleiðslukostnaðinn jöfnum höndum og verki miðar áfram, og framleiðandi teljist þar með ekki geta átt framleiðsluna lengur. Máli sínu til stuðnings vísar umboðsmaðurinn til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 173, 25. janúar 1977, þar sem fram komi, að vörur, er afhentar voru kaupanda í skilningi kaupalaga, þ. e. afhentar farmflytjanda til flutnings til kaupanda, en ótollafgreiddar og ekki komnar á sölustað, teldust til birgða. Á því hefði verið byggt, að vörurnar hefðu verið afhentar kaupanda og á hans ábyrgð í árslok.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur í málinu með bréfi dags. 8. janúar 1981:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan í forsendur úrskurðarins og áður genginna úrlausna eldri ríkisskattanefndar um sambærileg tilfelli.“
Þegar hafður er í huga tilgangurinn með ákvæði D-liðar 22. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, og litið er til forsögu þess, verður eigi talið að ákvæðið verði skýrt svo, að það taki til húsbygginga í smíðum svo sem kærandi krefst. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur.