Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 163/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 73/1980, 26. gr.   Lög nr. 40/1978, 63. gr., 64. gr., 69. gr., 66. gr.  

Hjón — Framfærandi — Framfærsluskylda — Barnabætur — Sköttun hjóna — Stofnun hjúskapar — Einstætt foreldri — Ívilnun — Frávísun — Málsmeðferð áfátt — Verksvið ríkisskattanefndar — Kæruúrskurður skattstjóra — Málskot til ríkisskattstjóra

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði skattframtali í framtalsfresti árið 1980. Var skattframtalið að gerðum leiðréttingum lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1980, m. a. var efni innsends skattframtals kæranda fært upp skv. 63. og 81. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þar sem til hjúskapar var stofnað þann 23. desember 1979.

Með kæru dags. 18. ágúst 1980 kærði kærandi álögð opinber gjöld gjaldárið 1980 til skattstjóra. Krafðist kærandi lækkunar á álögðum opinberum gjöldum á þeim forsendum að tekjur og tekjumöguleikar hefðu stórlega minnkað á gjaldárinu. Gerði kærandi grein fyrir breytingu á högum sínum. Eiginmaður sinn væri sjúklingur og hefði haft lágar tekjur af þeim sökum á árinu 1979 og bæri ekki opinber gjöld. Af sömu ástæðum hefði hann ekki getað stundað fulla atvinnu á árinu 1980. Þá hefði kærandi orðið að bregða vinnu 1. júní 1980 vegna barneignar og væri bundin yfir tveimur börnum síðari hluta gjaldársins. Af öllum framangreindum ástæðum og þá einkum stórlega minni tekjumöguleika kæranda var farið fram á lækkun álagðra opinberra gjalda. Þá andmælti kærandi því, að eiginmanni hennar væru reiknaðar barnabætur að hálfu eða 75 000 kr. vegna barns er hann væri ekki faðir að.

Með úrskurði dags. 16. október 1980 hafnaði skattstjóri kærunni. Um hið fyrra atriði, er greinir í kæru, er svo tekið fram í úrskurði: „Framtal yfirfarið. Öll gjöld eru rétt útreiknuð.“ Varðandi barnabætur vísaði skattstjóri til þess, að skv. 69. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, teldust hjón, er skattlögð væru samkvæmt 63. gr. sömu laga, framfærendur og skiptust barnabætur milli þeirra til helminga.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 7. nóvember 1980, og ítrekar fyrri kröfur með sömu rökum sem áður.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 29. desember 1980:

„Í málinu er ekki annað í ljós leitt en að kærandi og eiginmaður hennar hafi valið að telja fram tekjur sínar í samræmi við heimildarákvæði 4. málsliðar 1. mgr. 64. gr. laga nr. 40/ 1978, sbr. b-lið 33. gr. laga nr. 7/1980. Virðast því barnabætur til handa kæranda og eiginmanns hennar rétt ákvarðaðar, sbr. 3. mgr. greindrar 64. gr.“

Kærandi gekk í hjúskap þann 23. desember 1979. Eigi verður af gögnum málsins ráðið, að kærandi og eiginmaður hennar hafi valið að telja fram til skatts sem hjón eftir ákvæðum 63. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir heimild í 4. málslið 1. mgr. 64. gr. sömu laga. Með því að uppgjörsaðferð sú er greinir í 1.-3. málslið 1. mgr. síðastnefndrar lagagreinar leiðir til nokkuð hagfelldari niðurstöðu þykir rétt að byggja á henni. Eigi ræðst það af uppgjörsaðferðum 1. mgr. 64. gr. laga nr. 40/1978 hversu barnabótum samkvæmt 69. gr. sömu laga skuli skipt þá, er þær breytingar verða á sifjaréttarlegri stöðu, er getur í fyrrnefndu lagagreininni. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal miða við tímabil framfærsluskyldu. Var kærandi framfærsluskyld til giftingardags 23. desember 1979 og að lögum kom eigi til framfærsluskyldu eiginmanns hennar, fyrr en þá. Eigi liggur fyrir að þau skilyrði hafi verið uppfyllt sem greinir í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 40/ 1978, með síðari breytingum, þannig að barnabótum verði skipt frá og með fyrra tímamarki en giftingardegi, sbr. 5. mgr. 69. gr. sömu laga. Ber kæranda einni því barnabætur vegna barns þessa fram til giftingardags, enda faðir þess sem meðlagsgreiðandi eigi talinn framfærandi í þessu sambandi, sbr. 3. mgr. 69. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá þykir bera, svo sem málið liggur fyrir, að ákvarða kæranda barnabætur með barni þessu eftir reglum um einstætt foreldri fram til giftingardags, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 40/1978, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1980, en ekkert er fyrirliggjandi að um aðrar aðstæður hafi verið að ræða fyrir það tímamark. Eftir öllu framansögðu ákveðast barnabætur kæranda 275 463 kr. og barnabætur eiginmanns kæranda 1 644 kr. Þá þykir bera að leiðrétta lækkun útsvars vegna barnsins hjá kæranda til hækkunar um 3 423 kr. og til lækkunar hjá eiginmanni kæranda um sömu fjárhæð, sbr. 26. gr. laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga og 6. gr. laga nr. 13/1980, um breyting á þeim lögum, sbr. nú 26. gr. laga nr. 73/ 1980.

Kæru kæranda til skattstjóra, dags. 18. ágúst 1980, verður að öðru leyti en hér að ofan greinir ekki öðruvísi unnt að líta á en sem umsókn um lækkun tekjuskattsstofns samkvæmt heimild þeirri er greinir í 66. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Skattstjóri tók nefndan þátt í bréfi kæranda frá 18. ágúst 1980 sem skattkæru, er kæranleg væri eftir reglum 100. gr. laga nr. 40/1978. Eigi verður talið að synjun skattstjóra um að taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns eða ósk um frekari lækkun en skattstjóri veitir sé kæranleg eftir reglum 99. gr. og 100. gr. nefndra laga, þar sem í 2. mgr. 66. gr. laganna er lögfest sérstök málskotsleið og má skjóta ákvörðun skattstjóra til ríkisskattstjóra sem tekur endanlega ákvörðun í málinu. Verður því að telja að skattstjóri hafi ranglega farið með ívilnunarþátt bréfs kæranda frá 18. ágúst 1980 sem skattkæru og kveðið þar um kæruúrskurð er kæranlegur væri til ríkisskattanefndar. Með vísan til þessa er umsókn kæranda um lækkun tekjuskattstofns samkvæmt heimild í 66. gr. laga nr. 40/1978 vísað frá ríkisskattanefnd, þar eð hún er eigi bær til umfjöllunar um slíkar umsóknir.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja