Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 170/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971  

Landgöngufé — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar — Málsmeðferð áfátt — Athugasemd ríkisskattanefndar

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri krafði kæranda með bréfi dags. 24. september 1979 um skýringar á því, að greitt landgöngufé, 90 057 kr. samkvæmt kaupuppgjöf frá X, hefði ekki verið fært til tekna á skattframtali árið 1979. Skriflegt svar skyldi hafa borist eigi síðar en 2. október 1979. Svar barst ekki frá kæranda. Með bréfi dags. 28. nóvember 1979 tilkynnti skattstjóri kæranda að tekjur á skattframtali hans árið 1979 hefðu verið hækkaðar um 90 057 kr. vegna eftirgreindrar breytingar: „Landgöngufé sem ekki hefur verið fært til tekna.“ Þá hefur verið ritað á afrit bréfs skattstjóra, dags. 24. september 1979, er fyrir liggur í málinu, svofelld athugasemd: „Landgöngufé skattfrjálst allt að 53 200 - annað er skattskylt.“ Hefur fjárhæð þessi og verið færð til frádráttar í frádráttarhlið skattframtals. Með skattbreytingaseðli dags. 30. nóvember 1979 tilkynnti skattstjóri kæranda um þá hækkun áður álagðra opinberra gjalda er af ofannefndum breytingum leiddi.

Kærandi kærði breytingu skattstjóra með bréfi dags. 13. desember 1979 og krafðist þess að móttekið landgöngufé yrði ekki skattlagt, enda væri hér byggt á viðurkenndum og sannanlegum greiðslum starfsmanns á rekstrarkostnaði vinnuveitanda. Um væri að ræða umsamda fjárhæð til hægðarauka fyrir báða aðila og firrti þá sönnunarskyldu og kvittanaum-stangi. Fjárhæðir hefðu verið taldar sýna rétta mynd um áratuga skeið sem og hefði verið viðurkennt af skattyfirvöldum til skamms tíma. Engin könnun eða annað hefði verið gerð er hnekkt gæti þessu mati. Bornar voru brigður á ákvörðunarvald ríkisskattstjóra í þessum efnum, sbr. starfsreglur hans, enda yrði ekki séð að ákvörðun hans styddist við skattalög.

Með úrskurði dags. 15. janúar 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með þeirri athugasemd að kæranda hefði verið veittur hámarksfrádráttur við skattlagningu landgöngu-fjár og frekari frádrátt væri ekki unnt að veita.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með bréfi dags. 31. janúar 1980 og vísar til áður framkominna krafna og rökstuðnings.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu með bréfi dags. 3. nóvember 1980 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þegar virt eru gögn málsins og skýringar kæranda þykir eftir atvikum mega byggja á því að um hafi verið að ræða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði kæranda í þágu vinnuveitanda hans, enda sýnist hinu gagnstæða ekki verið haldið fram af hálfu skattstjóra og ákvörðun hans ekki að neinu leyti á slíku byggð. Er því fallist á kröfur kæranda, enda þykir hin umdeilda fjárhæð vera innan hóflegra marka. Það er að athuga við málsmeðferð skattstjóra, að eigi er kæranda að neinu leyti gerð grein fyrir þeim hámarksfrádrætti er honum er veittur frá tekjufærðu landgöngufé. Þá er veittur frádráttur ranglega færður til frádráttar í V. kafla skattframtals, en hefði borið að færa til lækkunar á framtöldum tekjum í IV. kafla.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja