Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 171/1981

Gjaldár 1980

Auglýsing nr. 13/1971, 1. tl. 6. gr., B-liður 2. tl, 10. gr., 16. gr. og 22. gr.   Lög nr. 73/1980, 3. mgr. 22. gr.   Lög nr. 40/1978, 2. tl. 3. gr., 9. tl, 3. gr., 83. gr. og 84. gr.  

Takmörkuð skattskylda — Tvísköttun — Tvísköttunarsamningur — Eignarskattsstofn — Eignarskattsálagning — Hlutabréf — Stjórnarlaun — Eignarskattsútreikningur — Skatt-lagningarstaður útsvarsskyldra tekna — Hlutafélag

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem búsettur er í Þýskalandi, taldi fram til skatts hér á landi vegna takmarkaðrar skattskyldu sinnar. Var hér um að ræða útleigu fasteignar kæranda að X-götu 7, Hafnarfirði, stjórnarlaun í íslensku hlutafélagi og arð af hlutabréfum og til eignar voru taldar þær eignir er skattskyldar tekjur gáfu samkvæmt framansögðu.

Með bréfi dags. 25. júlí 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda um álagningu opinberra gjalda hans gjaldárið 1980. í tilkynningunni tekur skattstjóri fram, að með hliðsjón af 4. gr. samnings milli Íslands og Sambandslýðveldisins Þýskalands til að koma í veg fyrir tvísköttun, að því er varðar skatta á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu nr. 13/1971 um samning þennan, yrði að telja kæranda hafa skattalegt heimilisfangi Þýskalandi. Samkvæmt 1. tl. 6. gr., b-lið 2. tl. 10. gr. og 16. gr. nefnds samnings yrðu tekjur kæranda hérlendis skattlagðar án persónuafsláttar við útreikning tekjuskatts og án fjölskyldufrádráttar frá útsvari. Tap af útleigu felldi skattstjóri niður með vísan til 3. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Tekjuskattsstofn var ákvarðaður 951 615 kr., tekjur til útsvars og sjúkratryggingagjalds 1 222 300 kr. og hrein eign til skatts 36 378 000 kr.

Ekki undi kærandi þessari álagningu og kærði umboðsmaður hans hana til skattstjóra með kæru dags. 8. ágúst 1980. Kæruefnið var það, að eignarskattsstofn væri of hár sem næmi 30 000 000 kr., þ. e. ekki hefði verið tekið tillit til skattleysismarka samkvæmt 83. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 8. gr. laga nr. 20/1980, um breyting á þeim lögum. Bæri því að lækka álagðan eignarskatt úr 440 901 kr. í 77 301 kr. eða um 363 600 kr.

Með úrskurði dags. 19. október 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að hann bæri takmarkaða skattskyldu samkvæmt ákvæðum 3, gr. laga nr. 40/ 1978, um tekjuskatt og eignarskatt, og réðist því álagning eignarskatts eftir ákvæðum 84. gr. nefndra laga, sbr. 9. gr. laga nr. 20/1980, um breyting á þeim lögum, Skattstjóri lækkaði eignarskattsstofn kæranda hinsvegar úr 36 378 000 kr. í 35 348 000 kr. í forsendum fyrir lækkun þessari tekur skattstjóri fram, að eignarskattur kæranda sé lagður á fasteign hans hérlendis og hlutabréfaeign hans í Á hf., Reykjavík, 1 620 000 kr. Til frádráttar hefðu komið skuldir vegna fasteignarinnar 154 743 kr. og skuld við nefnt hlutafélag 589 446 kr. eða alls 744 189 kr. Með tilvísun til 22. gr. nefnds tvísköttunarsamnings taldi skattstjóri einungis heimilt að leggja eignarskatt á fasteign kæranda en ekki hlutabréfaeign hans. Þá kæmu einungis til frádráttar við ákvörðun eignarskattstofns skuldir þær er tengdust fasteign kæranda. Samkvæmt þessu var því ekki lagt á hlutabréfaeign að fjárhæð 1 620 000 kr. í Á hf. og ekki tekið tillit til skuldar við það félag að fjárhæð 589 446 kr.

Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 7. nóvember 1980 og ítrekar fyrri kröfur. Þá bendir umboðsmaðurinn á að halli hafi orðið á útleigunni árið 1979 og hafi eignin ekki gefið tekjur til skattlagningar á skattframtali 1980. Samkvæmt 9. tl. 3. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sýndist það skilyrði fyrir því, að eignarskatt skyldi greiða af eignum þeirra aðila, er um væri fjallað í greininni, að eignirnar gæfu af sér skattskyldar tekjur. Kærandi hafði ekki þær tekjur af eigninni. Þá er þess getið, að á árinu 1980 hafi fasteignin ekki verið útleigð, en börn kæranda búið í henni endurgjaldslaust. Umboðsmaður kæranda kveður lögheimili hans vera hér á landi en segir jafnframt „að athuguðu máli er ekki deilt um hvar skattaleg heimilisfesti er, enda hefur F unnið og búið í Þýskalandi um margra ára skeið og gr. skatta af tekjum sínum þar,

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 2. mars 1981 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að virtum gögnum málsins sýnist eigi vera ágreiningur um heimilisfesti kæranda og að hann beri takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt ákvæðum 2. tl. 3. gr. laga nr. 40/ 1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Eignarskattsútreikningur skattaðila, er takmarkaða skattskyldu bera, fer eftir ákvæðum 84. gr. laga nr. 40/1978, sbr. 9. gr. laga nr. 20/1980, um breyting á þeim lögum. Skal eignarskattur samkvæmt þeirri grein nema 1,2% af eignarskattsstofni og er enginn hluti stofns skattfrjáls. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur að því er ákvörðun eignarskatts varðar.

Meginhluti tekna kæranda hér á landi á árinu 1979 voru stjórnarlaun frá hlutafélaginu Á, B-stræti, Reykjavík, eða 1 057 350 kr. í 3. mgr. 22. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, er mælt fyrir um, að þeir menn sem um ræði í 3. gr. laga nr. 40/ 1978, skuli greiða útsvar til þess sveitarfélags, þar sem þeir öfluðu mestra tekna sinna á tekjuárinu. Með tilvísan til þessa ber að telja kæranda hafa verið útsvarsskyldan í Reykjavík gjaldárið 1979, enda er hlutafélag það, er stjórnarlaunin greiddi og kærandi sat í stjórn, með heimilisfesti og varnarþing þar. Ber við ákvörðun útsvarsins að nota þann hundraðshluta af útsvarsstofni sem ákveðinn var í Reykjavík vegna gjaldársins 1980.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja