Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 225/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 73/1980, 26. gr.   Lög nr. 40/1978, 69. gr.   Lög nr. 35/1960, 8. gr.  

Barnabætur — Heimilisfesti — Lögheimili — Hjón — Stofnun hjúskapar — Skipting barnabóta — Sönnun — Sönnunargögn — Aðsetursskipti — Þjóðskrá — Útreikningar útsvars

Kærð er ákvörðun barnabóta gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að með kæru til skattstjóra dags. 11. ágúst 1980 krafðist kærandi barnabóta vegna dætra sinna tveggja, A f. 8. 9.1967 og T f. 8. 7.1970, með því að þær hefðu flust til hans þann 11. ágúst 1979 og verið hjá honum síðan. Með kæru hans fylgdu kvittanir Njarðvíkurbæjar, dags. 11. ágúst 1980, um að 1. júlí 1979 hefðu verið tilkynnt aðsetursskipti dætranna að S-vegi 30, þáverandi heimilisfangi kæranda. Með úrskurði dags. 29. október 1980, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Byggði skattstjóri á því, að samkvæmt Þjóðskrá 1. desember 1979, ættu dæturnar lögheimili hjá móður á P-firði og hefðu barnabætur fyrir allt árið 1979 verið úrskurðaðar þar. Skattstjóra hefði ekki borist tilkynning frá Hagstofu Íslands um breytingu á högum telpnanna.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 7. nóvember 1980, og krefst þess að honum verði ákvarðaðar barnabætur með dætrum sínum tveimur frá 1. júlí 1979, enda hefðu þær þá flust til hans og verið þar síðan. Með kærunni fylgdi bréf Hagstofu Íslands, þjóðskrá, dags. 4. nóvember 1980, til kæranda svohljóðandi:

„Börnin A, fædd 8/9 1967 og T, fædd 8/7 1970, eru á íbúaskrá á P-firði 1. desember 1979 að B-stræti 9 hjá móður sinni I og manni hennar R.

Upplýst er, að börn þessi hafa dvalið hjá föður sínum S, H-vegi 30, frá 1/7 1979 og hann er framfærandi barnanna samkvæmt 69. gr. laga um tekju- og eignarskatt og ættu því barnabætur að greiðast til hans.

Samkvæmt 8. gr. laga um lögheimili nr. 35/1960 eiga börn innan 16 ára lögheimili hjá því foreldranna, sem foreldraráðin hefur, en í leyfi til lögskilnaðar hjónanna S og I, dags. 30/5 1978, er umráð barnanna A og T falið móðurinni og ekki hefur enn verið gerð nein breyting þar á, en mál barnanna mun nú vera til athugunar í Dómsmálaráðuneytinu bæði hvað snertir umráðarétt yfir þeim og meðlagsgreiðslur vegna þeirra. Þjóðskráin telur sér ekki fært, á þessu stigi málsins, að breyta skráningu lögheimilis barnanna, en hún er í samræmi við lögheimilislögin. Af þessu getur leitt skattalegt vandamál, sem annaðhvort viðkomandi einstaklingar sjálfir eða skattyfirvöld verða að leysa.“

Þá liggur fyrir í málinu samkomulag kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans, dags. 16. maí 1980, þess efnis að kærandi taki við forráðum fyrrgreindra dætra þeirra.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 8. janúar 1981:

„Berist staðfesting frá R og I á P-firði um að þau fallist á að barnabætur þær sem þau hafa fengið vegna barnanna A og T, verði felldar niður gjaldárið 1980 og framkvæmi ríkisskattanefnd þá niðurfellingu, fellst ríkisskattstjóri á framkomnar kröfur.

Að öðrum kosti er krafist staðfestingar á hinum kærða úrskurði með vísan til forsendna hans.“

Með hliðsjón af framlögðum gögnum í máli þessu, þ. á m. nefndu bréfi Hagstofu Íslands svo og skýringum og upplýsingum kæranda, þykir bera að taka kröfu hans um ákvörðun barnabóta til greina með skírskotun til 4. mgr. 69. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Fyrir liggur, að kærandi gekk í hjúskap að nýju á árinu 1979 og samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands, þjóðskrár, er kærandi skráður í hjónaband 1. júní 1979. Ber því með vísan til ákvæða 5. mgr. nefndrar 69. gr. skattalaga að skipta ákvörðuðum barnabótum til helminga milli kæranda og og núverandi eiginkonu hans, G. Þá ber í samræmi við þessa niðurstöðu að hækka lækkunarfjárhæð útsvars vegna fjölskyldu, sbr. 26. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja